Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 330. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 579  —  330. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Steingrím Ara Arason frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Jarþrúði Ásmundsdóttur og Erlu Ósk Ásgeirsdóttur frá stúdentaráði Háskóla Íslands, Heiði Reynisdóttur frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, Jónínu Brynjólfsdóttur og Huldu Katrínu Stefánsdóttur frá Iðnnemasambandi Íslands, Eyrúnu Jónsdóttur frá Bandalagi íslenskra sérskólanema og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Bandalagi íslenska námsmanna, Iðnnemasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri, Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, skólafélagi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Visku – félagi stúdenta við Háskólann í Reykjavík og Bandalagi háskólamanna.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um endurgreiðslur og málsmeðferð og lagt til að heimild til að veita lán á markaðskjörum verði felld niður.
    Nefndin vekur athygli á því að í lok umsagnar fjármálaráðuneytis um frumvarpið er ranglega farið með tölur í lokamálsgreininni. Þar segir að niðurstaða umrædds kostnaðarmats, verði frumvarpið óbreytt að lögum, sé að ríkið þurfi að öðru óbreyttu að hækka framlag til sjóðsins um 235–340 millj. kr. á ári. Hið rétta er 265–340 millj. kr. á ári eins og kemur reyndar fram framar í umsögninni. Þetta var leiðrétt við 1. umræðu en er áréttað hér.
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins kemur fram að málskotsnefnd getur frestað réttaráhrifum úrskurðar síns, að kröfu stjórnar LÍN, fyrir hönd sjóðsins telji nefndin ástæðu til þess. Í athugasemdum segir að við mat á því hvort heimildinni verði beitt beri málskotsnefndinni að taka mið af því hvort úrskurðurinn geti haft fordæmisgildi, hann hafi í för með sér veruleg fjárútlát fyrir sjóðinn eða lögfræðilegur ágreiningur sé um niðurstöðuna.
    Þegar litið er til þessara tilvika í heild sinni telur nefndin heimildina vera helst til of rúma. Mestu hlýtur að skipta hvort niðurstaða málskotsnefndarinnar í tilteknu máli hafi eða geti haft í för með sér veruleg fjárútlát fyrir sjóðinn og raskað þannig fjárhagslegum forsendum hans. Nefndin telur því rétt að málskotsnefndin leggi mat á þann þátt eingöngu við beitingu heimildarinnar, en ekki hvort úrskurðurinn kunni að hafa fordæmisgildi eða lögfræðilegur ágreiningur sé um niðurstöðuna. Leggur nefndin til að umrætt skilyrði verði tekið upp í lagatextann sjálfan. Auk þess eru lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar í 1. efnismálsl. b-liðarins til að árétta að þar er átt við úrskurð nefndarinnar.
    Þá telur nefndin þörf á að orða 6. gr. frumvarpsins skýrar en gert er, en greinin fjallar um breytingu á 18. gr. laganna. Ætlunin með 6. gr. frumvarpsins er að setja fram reglu sambærilega þeirri sem er nú í 18. gr. laganna þess efnis að námsmenn ljúki við að endurgreiða fyrst svokölluð R-lán áður en endurgreiðsla á öðrum lánaflokkum á að hefjast. Er því lagt til að 6. gr. frumvarpsins verði breytt til samræmis við það.
    Með hliðsjón af framanrituðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Björgvin G. Sigurðsson, Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu með fyrirvara.
    Katrín Júlíusdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. des. 2004.



Gunnar Birgisson,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.

Hjálmar Árnason.


Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.

    

Mörður Árnason,


með fyrirvara.

Sigurður Kári Kristjánsson.