Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 375. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 590  —  375. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækka aukatekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr. Sú hækkun er ein af mörgum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið og boðað. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin haldið mjög á lofti boðuðum skattalækkunum sem eiga að nema 4 milljörðum kr. á næsta ári og fjármálaráðherra hefur talað um að nú væri verið að skila aftur þeim efnahagsbata sem ríkissjóður hefur notið á undanförnum árum. Ef horft er til þeirra skatta- og gjaldahækkana sem dunið hafa yfir á þessu ári og boðaðar eru á því næsta kemur í ljós að þessar skattalækkanir duga ekki til að mæta þeim hækkunum. Í þessu sambandi má benda á eftirfarandi:
    Á þessu ári hækkaði þungaskattur og vörugjald af bensíni um 1.200 millj. kr. Vaxtabætur voru skertar um 600 millj. kr. Afnám frádráttar tryggingargjalds vegna viðbótarlífeyrissparnaðar skilaði ríkissjóði um 600 millj. kr. Framlag ríkissjóðs vegna sjúkratrygginga lækkaði um 750 millj. kr. Barnabætur voru skertar um 150 millj. kr. og komugjöld á heilbrigðisstofnanir hækkuðu um 50 millj. kr. Þá var nefskattur í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkaður um 23 millj. kr. Þá er ótalið að persónuafsláttur fylgdi ekki launaþróun; þrátt fyrir það er upphæðin á yfirstandandi ári komin yfir 3 milljarða kr.
    Allar þessar auknu álögur halda áfram á næsta ári og til viðbótar hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka áfengisgjald um 340 millj. kr., hækka aukatekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr., hækka bifreiðagjald um 120 millj. kr., hækka skólagjöld í háskólum um 140 millj. kr. og hækka komugjöld á heilbrigðisstofnanir um 50 millj. kr. Vaxtabætur verða skertar til viðbótar skerðingunni í ár um 300 millj. kr. Framlenging umsýslugjalds fasteigna kostar 280 millj. kr. Breytingar á þungaskatti skila aukalega 350 millj. kr. Þá mun viðbótarhækkun í Framkvæmdasjóð aldraðra verða um 24 millj. kr. Samtals er þetta komið í tæpa 5 milljarða kr. á næsta ári. Ef hins vegar bæði árin eru lögð saman er hér um að ræða rúma 8 milljarða kr. á móti boðaðri skattalækkun upp á 4 milljarða kr.
    Það er von að spurt sé: Er um að ræða skattahækkun eða skattalækkun? Allt þetta sjónarspil minnir á fyrri vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, fyrst er af fólkinu tekið og síðan er hluta fengsins skilað með mikilli skrautsýningu. Það er eðlilegt að fjármálaráðherra kvarti á hátíðarfundi hjá Sjálfstæðisflokknum um að skattaveisla hans hafi verið misskilin. Allt tal fjármálaráðherra um að verið sé að skila efnahagsbatanum til baka er blekking. Í árslok 2005 er ljóst að ríkissjóður hefur „hagnast“ um einhverja milljarða króna á öllum þessum breytingum.
    Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur álitinu.

Alþingi, 8. des. 2004.



Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Lúðvík Bergvinsson.