Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 592  —  348. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, með síðari breytingum.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Með því frumvarpi sem hér um ræðir og tveimur öðrum hliðstæðum, um Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, er ætlunin að hækka svonefnd skráningargjöld í þessum skólum úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Með því er námsmönnum gert að greiða gjöld til að auka tekjur Háskóla Íslands um 100 millj. kr., Kennaraháskóla Íslands um 24 millj. kr. og Háskólans á Akureyri um 16 millj. kr.
    Í athugasemdum við hvert frumvarpanna segir að ekki sé „gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum“. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis segir hins vegar: „Útgjaldaheimild skólans í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 byggist á þeirri forsendu að skólinn nýti sér heimildina og afli 100 m.kr. meiri tekna sem renni óskertar til hans.“ Upphæðin er úr umsögninni um Háskóla Íslands en upphæðirnar eru 24 millj. kr. og 16 millj. kr. í umsögnunum um Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Starfsmenn fjármálaráðherra virðast gera ráð fyrir að hækkunin, 12.500 kr., renni óskert til háskólanna hvað sem líður athugasemdunum við frumvarpið.
    Starfsmaður menntamálaráðherra, Valur Árnason, kom á fund menntamálanefndar. Hann sagði þá m.a. að hækkun gjaldsins væri ein af forsendum fjárveitingartillagna í fjárlagafrumvarpinu. Ljóst er að við áætlun heildartekna skólanna er gert ráð fyrir þessum auknu tekjum þeirra. Þær bætast ekki við – hvorki að öllu leyti né hækkunin einungis – eins og um væri að ræða fundið fé eða gjafir. Með þessum frumvörpum er einfaldlega verið að færa hluta af útgjöldum ríkisins yfir á nemendur skólanna, endar engar áætlanir uppi um bætta þjónustu samfara þessari gjaldtöku af nemendum. Fram kom á fundi nefndarinnar með rektorum skólanna þriggja að verulega vantar á að fjárveitingar samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 nægi skólunum til starfa á komandi ári. Rektor Háskóla Íslands taldi að þar munaði 300–400 millj. kr., rektor Háskólans á Akureyri taldi að þar vantaði um 100 millj. kr., og fram kom hjá rektor Kennaraháskóla Íslands að þar hefði um 1.000 nemum verið neitað um skólavist til að hægt væri að halda skólanum innan fjárlagarammans. Meðan svo er ástatt um fjárveitingar til ríkisháskólanna er í raun fáfengilegt að halda því fram að einhverjar upphæðir komi eða komi ekki „til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum“ eins og það er orðað í athugasemdum með frumvörpunum þremur.
    Ekki hefur tekist að fá úr því skorið hvers eðlis það gjald er sem í lögum og frumvarpi hefur heitið „skráningargjald“. Í athugasemdum við frumvarpið er vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá árinu 2003 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að gjaldtaka þessi væri lögmæt. Þar er hins vegar ekki skorið úr því hvort þetta gjald skuli flokka sem skatt eða þjónustugjald. Þetta skiptir nokkru máli, því ef um þjónustugjald væri að ræða skal hver og einn einungis greiða fyrir þá þjónustu sem látin er í té, og aðeins það sem nemur kostnaði við þjónustuna. Skattur er lagður á samkvæmt allt öðrum grundvallarreglum. Heiti þessa gjalds bendir þó til þess að um þjónustugjald sé að ræða, og menntamálaráðherra hefur í samræmi við það kallað eftir sérstökum skjölum frá háskólunum þremur um kostnað „vegna skrásetningar og tengdrar þjónustu við stúdenta“ frá Háskóla Íslands, „vegna skráningar og tengdrar þjónustu við nemendur“ frá Háskólanum á Akureyri, og „vegna skrásetningar og þjónustu við stúdenta“ frá Kennaraháskóla Íslands. Í þeim plöggum er þó gert ráð fyrir að allir nemendur skólanna borgi það sama og nýti sér því hnífjafnt þá þjónustu sem í boði á að vera, en svo er alla jafna ekki um þjónustugjöld.
    Við kynningu frumvarpanna hafa menntamálaráðherra og starfsmenn hans neitað því að hér sé um nokkurs konar skólagjöld að ræða. Að sjálfsögðu er ljóst að gjaldið nemur ekki nema litlum hluta þess kostnaðar sem skólarnir hafa af hverjum nemanda sínum. Hitt er jafnljóst af skoðun málsins að gjaldið – það sama í öllum skólunum – er ekki miðað við tiltekinn kostnað af skráningu hvers nemanda. Æskilegt væri að ráðherra menntamála og stjórnendur skólanna hygðu að og hermdu hið sanna: Hækkun þessa gjalds um 38,5% er ekkert annað en skref í átt að skólagjöldum, hvort sem það er stigið vitandi vits eða með bundið fyrir augu.
    Því miður eru skjölin um kostnað við skráningu/skrásetningu og aðra þjónustu háskólunum ekki til vegsauka. Fram kom raunar á fundi menntamálanefndar með rektorunum að þar væri margt matskennt. Ber því líklega ekki að taka plöggin í fullri alvöru af hálfu skólastjórnendanna. Upplýst er að menntamálaráðherra óskaði eftir þessum skjölum þegar málið var komið vel á veg. Sú staðreynd er athyglisverð í ljósi þess að allir komust semjendur plagganna að svipuðum tölulegum niðurstöðum um þennan kostnað, þótt þeir yrðu ekki samhljóða um forsendur útreikningsins. Í fjölmennasta skólanum, hinum rótgróna Háskóla Íslands, er hann talinn mestur, 48.494 kr. á nemanda, í fámennasta skólanum, Háskólanum á Akureyri, hins vegar nokkru lægri, 45.987 kr., en aðeins 45.181 kr. í Kennaraháskóla Íslands. Á fundi nefndarinnar með rektorum skólanna kom fram hjá þeim öllum að raunkostnaður skólanna við skráningu og tengda þjónustu væri meiri en fram kemur í plöggunum. Sjálfstæðir útreikningar skólanna þriggja, sem allir teljast akademískar stofnanir, leiddu til niðurstöðutalna þar sem aðeins munar 3.313 kr. og allar eru upphæðirnar lítið eitt hærri en sú upphæð sem til er lögð í frumvörpunum, 45.000 kr. á nemanda. Um frekari greiningu á þessum skjölum skólanna vísast til umsagna Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri, sem fylgja þessu nefndaráliti.
    Við 1. umræðu um frumvörpin þrjú og í störfum nefndarinnar hefur eftir megni verið reynt að grafast fyrir um rætur þessa máls, einkum sökum þess að í athugasemdum við frumvörpin er hækkunartillagan úr 32.500 kr. í 45.000 kr. sögð „í samræmi við óskir ríkisháskólanna“. Upphaf þessa hækkunarmáls virðist að rekja til rektors Háskóla Íslands og/eða menntamálaráðherra í ársbyrjun, og mun þá strax hafa verið rætt um 45.000 kr., en sú upphæð margfölduð með áætluðum nemendafjölda nemur nákvæmlega 100 millj. kr. samkvæmt mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þessi ráðagjörð barst síðan til eyrna hinum rektorunum tveimur, öðrum á rektorafundi að því er virðist en hinum að frumkvæði menntamálaráðherra eða starfsmanna hans. Nokkuð ofmælt virðist því að ræða um „óskir ríkisháskólanna“ í þessu sambandi. Erfitt er að skilja aðdraganda málsins öðruvísi en svo að menntamálaráðherra hafi gert þessa hækkun gjalda á námsmenn að skilyrði í viðræðum við stjórnendur háskólanna þriggja um fjárveitingar fyrir 2005, hvar sem hugmyndin kviknaði í upphafi.
    Hækkun svokallaðra skráningargjalda samkvæmt frumvörpunum nemur eins og áður er sagt 100 millj. kr. í Háskóla Íslands, 24 millj. kr. í Kennaraháskóla Íslands og 16 millj. kr. í Háskólanum á Akureyri. Samtals eru þetta um 140 millj. kr. sem ríkisstjórnin hyggst afla frá námsmönnum við ríkisháskólana á næsta ári – á sama tíma og í gildi ganga skattkerfisbreytingar sem einkum gagnast hátekjumönnum. Hækkunin nemur 12.500 kr. á hvern nemanda fyrir hvert skólaár. Athyglisvert er að fram hefur komið í kynningu frumvarpanna að ekki er gert ráð fyrir því að Lánasjóður íslenskra námsmanna láni fyrir skráningargjöldunum svokölluðu. Þar sem upphæð láns frá Lánasjóðnum minnkar við auknar tekjur er ljóst að í mörgum tilvikum er um að ræða hreina skerðingu á ráðstöfunarfé námsmanna. Óskert lán frá Lánasjóðnum til einstaklings í leiguhúsnæði hérlendis nemur nú 79.500 kr. á mánuði. Ef ekki er annað fé fyrir hendi til að greiða skrásetningargjaldið verða eftir 47.500 kr. fyrsta mánuðinn miðað við núgildandi upphæð. Að frumvörpunum samþykktum yrði þessi upphæð á næsta ári 34.500 kr. Þessar tölur sýna vel áhrifin af gjaldheimtunni á fjárhag nemenda. Minni hlutinn telur að endurskoða beri þessar reglur sjóðsins þannig að hin svonefndu skráningargjöld verði metinn sem hluti framfærslugrunns.
    Þess skal getið að menntamálanefnd á enn eftir að fá gögn, annars vegar um hlut háskólaráðs Háskóla Íslands að þessu máli og hins vegar um misræmi milli umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og athugasemda í frumvarpinu um meintan frádrátt á fjárveitingum til háskólanna. Minni hlutinn taldi frumvörpin vanbúin til 2. umræðu án þess að þessi gögn lægju fyrir og lagðist gegn því að málin yrðu afgreidd úr nefndinni við svo búið. Sjálfsagt er að eftir 2. umræðu verði málin kölluð aftur inn til nefndarinnar svo færi gefist á að fara yfir þessi gögn.
    Minni hlutinn telur enga ástæðu nú til að hækka þessi gjöld á nemendur við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Minni hlutinn leggst því gegn samþykkt frumvarpsins.
    Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.
    Katrín Júlíusdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. des. 2004.



Björgvin G. Sigurðsson,


frsm.


Kolbrún Halldórsdóttir.


Mörður Árnason.





Fylgiskjal I.


Umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
(2. desember 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn Stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands.
(1. desember 2004.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal III.


Umsögn Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri um 350. mál,
frumvarp til laga um breytingu á lögum um Háskólann á Akureyri.

(1. desember 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.