Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 321. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 597  —  321. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Guðrúnu Ósk Sigurjónsdóttur frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði ákvæði við lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þess efnis að samningar sem aðilar vinnumarkaðarins gera um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um það hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði samræmist ákvæðum laga og kjarasamninga, skuli hafa sama gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör, sbr. 1. gr. laganna. Með frumvarpinu er því lagt til að aðilar vinnumarkaðarins geti samið um það sín á milli að fylgt verði ákveðnu ferli eða aðferðafræði við lausn deilumála um laun og ráðningarkjör starfsmanna. Einstaklingum og lögaðilum er eftir sem áður heimilt að standa utan stéttarfélaga eða samtaka atvinnurekenda kjósi þeir svo.
    Það fyrirkomulag sem 1. gr. laganna byggist á grundvallast á þeirri venju, sem gilt hefur á íslenskum vinnumarkaði, að aðilar vinnumarkaðarins semji um það í frjálsum kjarasamningsviðræðum hvernig kaupi og kjörum, sem og öðrum vinnuskilyrðum launamanna, skuli háttað. Slíkir samningar hafa gilt hér á landi sem lágmarkskjör fyrir allt launafólk í viðkomandi starfsgrein og á því svæði sem hver samningur tekur til. Í 2. málsl. 1. gr. laganna er kveðið á um að þeir samningar, sem kveða á um lakari kjör en ákveðin hafa verið með hinum almennu kjarasamningum, skuli ógildir.
    Opinbert eftirlit með því hvort farið sé eftir kjarasamningum hefur ekki tíðkast, heldur hefur verið litið svo á að eftirlitið sé á ábyrgð aðilanna sjálfra. Verði frumvarpið að lögum munu aðilar vinnumarkaðarins geta samið um það í frjálsum samningaviðræðum hvernig eftirliti með launum og öðrum starfskjörum launamanna skuli háttað telji þeir þörf á því og slíkir samningar munu þá hafa almennt gildi. Því verður fylgt fyrir fram ákveðnu ferli ef ágreiningsmál um laun og ráðningarkjör starfsmanna koma upp.
    Þess ber að geta að þeir samningar aðila vinnumarkaðarins sem hugsanlega yrðu gerðir á grundvelli ákvæðisins sem lagt er til í frumvarpinu, munu aldrei koma í veg fyrir að málsaðilar geti leitað beint til dómstóla með ágreiningsefni sín, hvort heldur til Félagsdóms eða hinna almennu dómstóla. Með frumvarpinu er því ekki ætlunin að skerða þann rétt sem felst í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að fá úrlausn dómstóla um réttindi sín og skyldur.
    Ákvæði samhljóða núgildandi 1. gr. laga nr. 55/1980 hefur verið í lögum frá árinu 1974 en það kom inn í íslenska löggjöf með lögum um starfskjör launþega, nr. 9/1974. Felur þetta í sér að þau kjör sem aðilar vinnumarkaðarins semja um gilda sem lágmarkskjör fyrir tiltekna hópa launafólks á tilteknu svæði.
    Nú liggur fyrir að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa gert með sér samkomulag um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, sbr. samkomulag þeirra í milli frá 7. mars 2004. Það skal þó tekið fram að samningar sem kunna að vera gerðir á grundvelli þess ákvæðis sem mælt er fyrir um í frumvarpinu geta tekið til allra launamanna eða tiltekinna hópa launamanna sem aðilar vinnumarkaðarins telja að standi verr að vígi en aðrir hópar á vinnumarkaði. Slíkir samningar mega aldrei brjóta í bága við gildandi lög á hverjum tíma.
    Rætt var um það í nefndinni hvernig val á fulltrúa í samráðsnefnd skv. 2. mgr. 1. gr. ákvæðis þess sem lagt er til í frumvarpinu fari fram þegar aðili stendur utan samtaka atvinnurekanda eða launþegasamtaka. Fram kom að félagsmálaráðherra gæti sett reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis, en ráðherra hefur heimild til setningar reglugerðar skv. 9. gr. laga nr. 55/1980. Telur nefndin eðlilegt að ráðherra grípi til þess úrræðis ef upp koma vandamál er að þessu lúta.
    Pétur H. Blöndal á sæti í nefndinni en er andvígur áliti þessu.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur þessu áliti.
    Leggur nefndin til að frumvarp þetta verði samþykkt.

Alþingi, 8. des. 2004.



Siv Friðleifsdóttir,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Jón Gunnarsson.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


með fyrirvara.


Helgi Hjörvar.


Gunnar Örlygsson.



Birkir J. Jónsson.