Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 608  —  351. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og fleiri lögum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Fyrsti minni hlutinn telur að vegna vaxandi tekna þjóðarbúsins sé svigrúm til skynsamlegra skattalækkana. Mjög brýnt er hins vegar að það sé nýtt til tekjujöfnunar í þjóðfélagi sem því miður einkennist af því að bilið milli tekjuhópa fer vaxandi. Um leið er mikilvægt að stöðugleika sé ekki teflt í tvísýnu og grundvöllur velferðarþjónustunnar skerðist ekki.

Lækkun virðisaukaskatts.
    Samfylkingin hefur lagt höfuðáherslu á að virðisaukaskattur af matvælum verði lækkaður um helming og að með því verði matarreikningur íslenskra heimila lækkaður um 5 milljarða kr. Í upphafi þessa þings fluttu þingmenn Samfylkingarinnar frumvarp um málið. Slík skattalækkun kemur öllum þegnum landsins vel. Hún kemur þeim hins vegar langbest sem hafa úr minnstu að spila og fjölskyldufólki. Jöfnunaráhrifin af þessari skattalækkun eru því mun meiri en af öðrum skattalækkunum eins og lækkun tekjuskattshlutfallsins sem þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar kveður á um.

Skattahækkanir og gjaldtaka.
    Á þessu og næsta ári hefur ríkisstjórnin hækkað eða boðað hækkun skatta og gjalda á einstaklinga og skert barna- og vaxtabætur um rúma 8 milljarða kr. Ríkisstjórnin skilar rúmum 5,6 milljörðum kr. af því til baka á þessu og næsta ári með lækkun erfðafjárskatts, lækkun hátekjuskatts og lækkun á tekjuskatti. Ljóst er að þær tekjur sem ríkisstjórnin hefur tekið inn með hækkun skatta og gjalda, auk skerðinga á barna- og vaxtabótum, gerir gott betur en að standa undir boðuðum skattalækkunum á næsta ári. Þótt ekki verði um frekari hækkanir að ræða munu þær vega þungt upp í viðbótarskattalækkanir það sem eftir lifir kjörtímabilsins og mæta að stórum hluta tekjutapi ríkissjóðs vegna áformaðra skattalækkana og hækkunar barnabóta á kjörtímabilinu.
    Gallinn á skattalækkunum ríkisstjórnarinnar er ekki bara að almenningur hefur þegar greitt sjálfur að stórum hluta fyrir þessar skattalækkanir, heldur einnig að leið ríkisstjórnarinnar mun einnig auka ójöfnuð í þjóðfélaginu. Margir umsagnaraðilar, m.a. samtök launafólks og félagasamtök, benda á það sama og Samfylkingin, að það eru fyrst og fremst þeir betur settu sem hagnast á skattalækkuninni, en þeir sem minnst hafa sitja eftir með sárt ennið.

Þróun tekjuskatts.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir það harðlega hve ríkisstjórnin hefur fryst skattleysismörk, sem bitnað hefur harkalega á fólki með lágar tekjur og meðaltekjur. Sést það vel á línuriti frá fjármálaráðuneytinu sem fylgir áliti þessu sem fylgiskjal I. Þar kemur fram að skerðing skattleysismarka frá 1989 sem að mestu kemur fram eftir árið 1995 er svo harkaleg að samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins má áætla að ríkissjóður hafi tekið 36,4 milljörðum kr. meira til sín árið 2003 en ella hefði verið ef skattleysismörk hefðu fylgt launavísitölu. Með sömu nálgun er um að ræða 16,3 milljarða kr. ef miðað er við neysluvísitölu. Skattleysismörkin eru 71.296 kr. á yfirstandandi ári, en ættu að vera 114.015 kr. ef þau hefðu fylgt þróun launavísitölu og 85.709 kr. ef þau hefðu fylgt þróun neysluvísitölu. Þessa tugi milljarða hefur ríkisvaldið svo nýtt til að lækka skatta af fjármagni og fyrirtækjum.
    Vara ber við þeirri þróun sem orðið hefur í skattheimtunni að í vaxandi mæli hefur skattbyrðin verið flutt af fjármagni og fyrirtækjum yfir á launafólk og lífeyrisþega. Skattabreytingar umliðinna ára hafa lent með fullum þunga á lágtekjufólki vegna þess að skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun í landinu.
    Samtök launþega og samtök aldraðra og öryrkja hafa m.a. bent á þessar staðreyndir. Landssamband eldri borgara hefur bent á að aldraðir með 110 þús. kr. í tekjur (verðlag 2004) greiða nú 13,7% af tekjum sínum í skatt, en greiddu 1,5% á árinu 1988. Öryrkjabandalagið bendir á að lífeyrisþegi sem ekkert hafi nema bætur almannatrygginga sé nú farinn að greiða jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta. Þetta kemur heim og saman við það að lágtekjufólk sem greiddi sama og engan skatt þegar ríkisstjórnin tók við greiðir nú verulegan hluta af sínum tekjum í skatt. Sláandi er líka að 29 þúsund manns með tekjur á bilinu frá skattleysismörkum að 100 þús. kr. greiða á þessu ári 2 milljarða kr. í skatta. Fróðlegt er að skoða þessa staðreynd í ljósi þess að 1% ríkustu Íslendinganna eða um 500 manns eru með 88% af tekjum sínum sem fjármagnstekjur eða 54 millj. kr. og 7 millj. kr. í launatekjur hver einstaklingur að meðaltali. Þessir einstaklingar greiða að meðaltali um 12% af tekjum sínum í skatta meðan fólk með meðaltekjur greiðir 25–27%.

Lækkun tekjuskatts.
    
Samfylkingin hefur sýnt fram á með margvíslegum útreikningum að með skattalækkunartillögum stjórnarflokkanna fá þeir mest sem mestar tekjur hafa. Í töflu í fylgiskjali II um áhrif af lækkun tekjuskatts, hátekjuskatts og eignarskatts sem byggð er á svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur kemur þetta glögglega í ljós.
    Þessi tafla sýnir m.a.:
     1.      Heildarlækkunin er rúmlega 23 milljarðar kr.
     2.      Óréttlætið í skiptingu skattalækkunarinnar kemur glöggt fram í eftirfarandi:
                  a.      Tekjulægri helmingurinn fær tæpa 4 milljarða kr. eða um 17% lækkunarinnar.
                  b.      Tekjuhærri helmingurinn fær rúmlega 19 milljarða kr. eða nærri 83% lækkunarinnar.
                  c.      82% af lækkun almenna tekjuskattsins, öll lækkun hátekjuskattsins og 75% af lækkun eignarskattsins lendir hjá tekjuhærri helmingnum.
     3.      Skipting á lækkuninni milli lægsta og hæsta fjórðungs hjóna annars vegar og einhleypra hins vegar er sláandi:
                  a.      Rúmlega 13 milljarðar kr. eða nærri 58% renna til hæsta tekjufjórðungs.
                  b.      Tæplega 0,5 milljarðar kr. eða rúmlega 2% fara til lægsta tekjufjórðungs.
                  c.      Tekjulægsti fjórðungur hópanna fær innan við 2% af lækkun tekjuskattsins og innan við 5% af lækkun eignarskattsins.
     4.      Þeir allra tekjuhæstu meðal hjóna annars vegar og einhleypra hins vegar fá mest og þeir allra tekjulægstu í þessum hópum fá nær ekkert:
                  a.      5,4 milljarðar kr. eða nærri fjórðungur lækkunarinnar fer til þeirra 5% tekjuhæstu í hópunum.
                  b.      0,021 milljarðar kr. eða 0,1% heildarlækkunar skatta fer til 5% tekjulægstu í hópunum.
                  c.      5% tekjuhæstu í hópunum fá í sinn hlut um 17% af lækkun almenna tekjuskattsins, 85% af lækkun hátekjuskattsins og um 24% af eignarskattslækkuninni.
                  d.      15% tekjulægstu í hópunum fá í sinn hlut nær ekkert (0,02%) af lækkun tekjuskattsins og 1,2% af lækkun eignarskattsins.
    Töflurnar í fylgiskjali II sýna áhrif af skattabreytingunum í heild á verðlagi 2003 miðað við að tekjudreifing haldist óbreytt og persónuafslátturinn fylgi launabreytingum.
    Með hliðsjón af því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að persónuafslátturinn hækki á næstu árum minna en verðlag og minna en launabreytingar má gera ráð fyrir að lækkun skatta að raungildi verði miklu minni en látið er í veðri vaka, einkum í neðri hluta tekjuskalans. Þar gætu skattar jafnvel hækkað og skattbyrði aukist af þessum sökum eins og svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur á 128. löggjafarþingi (þingskjal 1312 – 264. mál) leiddi í ljós að gerst hefur á síðustu árum.
    Það vekur t.d. athygli að hækkun persónuafsláttar á næsta ári samkvæmt forsendum fjárlaga er einungis 3% og dugir ekki til að halda raungildi hans milli ára. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir 3,5% verðbólgu á næsta ári og því mun persónuafsláttur rýrna enn á árinu frá því sem hann er nú.
    Þetta kemur reyndar ekki á óvart þegar skoðað er hvernig persónuafslátturinn hefur þróast frá 1995, þegar þessi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum. Hann er langt frá því að halda raungildi sínu og hefur stöðugt rýrnað allan stjórnartímann. Það liggur ljóst fyrir að fjármálaráðherra ætlar sér enn að skerða persónuafsláttinn og fer sú ætlun hans ekki fram hjá neinum sem rýnir í fjárlög næsta árs.
    Ef persónuafsláttur mundi halda í við verðlagsforsendur fjárlaga og hækka um 3,5% á næsta ári fengi ríkissjóður um 330 millj. kr. minna í ríkiskassann en miðað við núverandi áform. Þetta þýðir ekkert annað en að ríkissjóður ætlar sér að ná í 330 millj. kr. meira frá tekjulægstu skattgreiðendunum í gegnum verðbólguáhrif. Ef verðbólgan verður 4% eins og ASÍ spáir rýrnar persónuafslátturinn enn frekar og ríkissjóður yrði af 650 millj. kr. ef persónuafslátturinn fylgdi verðbólgu.
    Samtals má því ætla að persónuafsláttur gæti rýrnað á næsta ári um 330–650 millj. kr. eftir því hvort stuðst er við spá fjármálaráðuneytisins eða ASÍ.
    Framtíðarspá ráðuneytisins gerir ráð fyrir að persónuafsláttur hækki á árunum 2006 og 2007 í takt við almennar launabreytingar á vinnumarkaðinum og ekki er unnt að leggja mat á hvort sú hækkun nægir til að halda í við neysluvísitölu eða launavísitölu fyrir sama tímabil. Hætta er á að um misvægi gæti orðið að ræða og persónuafsláttur rýrnað enn að raungildi.
    Niðurstaðan af skattabreytingum stjórnarflokkanna verður þá sú ein að skattar hafa í engu lækkað en skattbyrðin verið flutt af breiðu bökunum yfir á þá efnaminni.
    Með skattstefnu sinni er ríkisstjórnin augljóslega að halda áfram á sömu braut að hygla þeim efnameiri á kostnað fólks með lágar tekjur og meðaltekjur. Fjármálaráðuneytið lagði fram upplýsingar um hvernig tekjuskattsbyrði 200 hæstu greiðenda tekjuskatts mundi þróast til ársins 2007 með tilliti til þeirra lagabreytinga sem nú eru fram undan.
    Þar kemur fram að ráðstöfunartekjur þess hóps sem um ræðir munu hækka um 18,3% frá 2004–2007 vegna skattbreytinga. Meðallaun á mann í þessum hóp eru 22,7 millj. kr. á ári eða 1,9 millj. kr. á mánuði. Í núverandi skattkerfi greiðir þessi meðaleinstaklingur kr. 9,9 millj. kr. á ári eða 823 þús. kr. á mánuði í tekjuskatt en mun á árinu 2007 greiða kr. 7,5 millj. kr. í tekjuskatt eða 625 þús. kr. á mánuði. Eftir að tekjuskattslækkunin er að fullu komin til framkvæmda á árinu 2007 mun skattalækkun þessa einstaklings nema 2,4 millj. kr. á ári eða 197 þús. kr. á mánuði.
    Í þessu endurspeglast hvernig skattalækkun ríkisstjórnarinnar mismunar fólki eftir tekjum og færir þeim mest sem mest hafa fyrir.
    Samband íslenskra sveitarfélaga hefur líka í umsögn sinni bent á að enn einu sinni hafa skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar veruleg áhrif á tekjur sveitarfélaga. Í umsögn þeirra kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum skerðast árlegar tekjur jöfnunarsjóðs sveitarfélaga varanlega um 400 millj. kr. þegar áhrif frumvarpsins eru að fullu komin fram. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins hafa dregið þessa túlkun í efa. Fulltrúar Samband íslenskra sveitarfélaga lýstu því yfir á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að ekkert samráð hefði fremur venju verið haft við sveitarfélögin um skattaáform ríkisstjórnarinnar þótt þau hefðu áhrif á tekjur sveitarfélaganna, ekki síst minni og vanmáttugri sveitarfélaganna.

Barnabætur.
    Fyrsti minni hluti hefur sýnt fram á hvernig þessi ríkisstjórn hefur hlunnfarið barnafólk varðandi barnabætur allt frá árinu 1995 og skert verulega barnabætur í góðæri síðustu ára. Frá árinu 1995 eru útgjöld vegna barnabóta um 10 milljörðum kr. lægri en þau hefðu ella verið ef barnabætur hefðu fengið að halda raungildi sínu eins og það var á árinu 1995. Ríkisstjórnin er því einungis að skila til baka um fjórðungi þess sem hún hefur hlunnfarið barnafólk um í barnabótum þegar hún loks á árunum 2006 og 2007 skilar barnafólki til baka um 2,4 millj. kr. Á föstu verðlagi voru útgjöld til barnabóta 6.411 millj. kr. á árinu 1995 en á þessu ári eru útgjöld vegna barnabóta 5.430 millj. kr. Sem hlutfall af landsframleiðslu voru útgjöld til barnabóta 1,1% á árinu 1995 en á yfirstandandi ári eru þau 0,6%. Hlutfall ótekjutengdra barnabóta af heildargreiðslum, sem allir foreldra fá óháð tekjum, var 56% árið 1995 en er komið niður í 19% á þessu ári. Auk þess náðu ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri á árinu 1995 en nú einungis til barna að 7 ára aldri. Þetta er lýsandi dæmi um svik framsóknarmanna við kjósendur, en enn þá hafa þeir ekki staðið við helsta kosningaloforð sitt sem þeir gáfu fyrir þarsíðustu kosningar.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að hækkun barnabóta komi þegar til framkvæmda en verði ekki frestað til áranna 2006 og 2007. Jafnframt leggur 1. minni hluti áherslu á að barnabætur eigi að ná til allra barna að 18 ára aldri.
    Áhrifin af hækkun barnabóta sem felast í tillögum ríkisstjórnarinnar eru þau að mesta hækkun verður á greiðslum til þeirra foreldra sem hafa meðaltekjur og hærri tekjur og þeim mun meiri aukning sem tekjurnar eru meiri, þar til ákveðnu hámarki er náð. Þetta kemur til af þeirri staðreynd að breytingar draga úr tekjutengingu bótanna, ótekjutengdar bætur hækka og skerðingarmörk vegna fjölda barna lækka.
    Athyglisvert er einnig að hlutfall fjárhæðar sem varið er í tekjutengdar bætur annars vegar og ótekjutengdar bætur hins vegar breytist lítið sem ekkert. Þegar hækkun barnabóta er að fullu komin til framkvæmda fer um 80% fjárhæðarinnar í tekjutengdar bætur og um 20% í ótekjutengdar bætur, sem er svipað hlutfall og á þessu ári. Þrátt fyrir hækkun þessara bóta er það fámennur og mjög tekjulágur hópur sem fær óskertar barnabætur. Á þessu ári fá einstæðir foreldrar með um 60 þús. kr. á mánuði óskertar barnabætur, en þegar breytingar ríkisstjórnarinnar á barnabótum eru að fullu komnar til framkvæmda á árinu 2007 fá einstæðir foreldrar með 93 þús. kr. á mánuði óskertar barnabætur. Á þessu ári fá hjón með samtals um 120 þús. kr. í mánaðartekjur óskertar barnabætur en þegar barnabæturnar eru að fullu komnar til framkvæmda fá hjón með samtals 186 þús. kr. mánaðartekjur óskertar barnabætur.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir að fresta á framkvæmd hækkunar barnabóta sem hvað mestu skiptir fyrir barnafjölskyldur í skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar, auk þess sem ríkisstjórnin undir forustu Halldórs Ásgrímssonar guggnar á kosningaloforði framsóknarmanna um að allir fái ótekjutengdar barnabætur með börnum að 18 ára aldri.

Afnám eignarskatta.
    Það er skoðun 1. minni hluta að eignarskattar hafi allt of mikið íþyngt fólki sem er með lágar tekjur sér til framfærslu en á aftur á móti eignir sem það borgar verulegan eignarskatt af. Í þeim hópi eru ekki síst aldraðir. Fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um að það sé helst lágtekjufólkið og fólk með meðaltekjur sem hefur ávinning af eignarskattslækkuninni stangast þó á við svar sem fjármálaráðherra gaf á Alþingi við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um skattalækkanir (sbr. fylgiskjal II) og einnig á við gögn sem lögð hafa verið fram af embætti ríkisskattstjóra. Ekki gafst tími til að kanna það misræmi sem er á áðurnefndum upplýsingum og áskilur 1. minni hluti sér rétt til að óska eftir því að málið verði skoðað sérstaklega af efnahags- og viðskiptanefnd milli 2. og 3. umræðu þannig að öllum vafa verði eytt um það hverjir hagnast sérstaklega af afnámi eignarskattsins.
    Í gögnunum frá embætti ríkisskattstjóra koma fram athyglisverðar upplýsingar sem sýna allt aðra mynd en ríkisstjórnin hefur dregið upp.
    Samkvæmt þeim útreikningur kemur eftirfarandi fram:
     1.      Um helmingur allra eignarskattslækkunarinnar við niðurfellingu eignarskattsins liggur hjá efsta fjórðungi framteljenda, hvort sem litið er til einhleypra eða hjóna.
     2.      Um fjórðungur allra eignarskatta liggur hjá efstu 5% framteljenda hvort sem litið er til einhleypra eða hjóna.
     3.      Meðallækkun einhleypra í lægsta fjórðungi er um 200 kr. á ári en um 14 þús. kr. á ári í efsta fjórðungi.
     4.      Meðallækkun einhleypra í lægstu 5% er innan við 100 kr. á ári en um 33.000 á ári hjá efstu 5%.
     5.      Meðallækkun hjá hjónum í lægsta fjórðungi er um 15 þús. kr. á ári en nærri 50 þús á ári hjá hjónum í efsta fjórðungi.
     6.      Meðallækkun hjóna í lægstu 5% er um 9 þús. kr. á ári en um 119.000 á ári hjá efstu 5%.
    Þar kemur fram að lækkun á eignarskatti alls sé 3.485 millj. kr. Þar af er lækkun á eignarskatti einstaklinga 2.123 millj. kr. og lögaðila 1.362 millj. kr.
    Þar kemur jafnframt fram að miðað við álagningu 2004 skiptist lækkun eignarskatts á lögaðila þannig að af 1.362 millj. kr. fer 1.054 millj. kr. til lækkunar á sköttum lögaðila í Reykjavík og á Reykjanesi.
    Í dag er fríeignarmark einstaklings vegna eignarskatts kr. 4,8 millj. kr. og hjóna 9,6 millj. kr. Þessi mörk eru afar lág og nauðsynlegt að hækka þau verulega.

Vaxtabætur.
    Enn einu sinni á að höggva í sama knérunn og ráðast að skuldugum einstaklingum með skerðingu á vaxtabótum. Samtals voru vaxtabæturnar skertar um 600 millj. kr. árið 2004 og við það bætist skerðing upp á 300 millj. kr. á næsta ári. Breytingar snúa að því að útreiknaðar vaxtabætur eru skertar. Á yfirstandandi ári um 10% og á næsta ári um 5%. Einnig er um að ræða breytingu á hlutfalli vaxtagjalda af skuldum til útreiknings á vaxtabótum en það lækkaði úr 7% í 5,5% á yfirstandandi ári og síðan aftur á næsta ári úr 5,5% í 5%. Rökin fyrir þessum breytingum eru þau að frá því að viðmiðunarmörkin voru ákveðin 7% hafi raunvextir langtímalána lækkað umtalsvert. Þessi rök standast ekki gagnvart þeim tugþúsundum lántakenda sem eru með fasta vexti af fasteignalánum sínum. Bara hjá Íbúðalánasjóði er um 60.000 lántakendur með vexti á bilinu 5,1–6%. Þessir lántakendur hafa gert sínar greiðsluáætlanir og greiðslumat þeirra byggist á þeim vaxtabótum sem í gildi voru á þeim tíma sem lánin voru tekin. Þessar miklu skerðingar á vaxtabótum koma aftan að þessu fólki og setja úr skorðum allar greiðsluáætlanir þess.
    Minnt skal á að á síðasta þingi var hart tekist á um hvort afturvirkni á skerðingu vaxtabóta gæti brotið í bága við stjórnarskrána. Eiríkur Tómasson prófessor, sem vann álit fyrir efnahags- og viðskiptanefnd um málið, komst að þeirri niðurstöðu að það bryti væntanlega í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að framkvæma afturvirka skerðingu á vaxtabótum með þeim hætti sem stjórnarflokkarnir áformuðu. Meiri hlutinn flutti þá breytingartillögu um að útgreiddar vaxtabætur hjá öllum sem rétt eiga til vaxtabóta yrðu skertar um 10% vegna vaxtagjalda á árinu 2003. Eiríkur Tómasson gaf nefndinni álit sitt á þessari breyttu tillögu ríkisstjórnarinnar. Niðurstaða hans var sú að líkur væru á því að íslenskir dómstólar mundu komast að þeirri niðurstöðu að afturvirk skerðing um 10% hjá öllum þeim sem rétt eiga á bótum samkvæmt núgildandi lögum væri stjórnskipulega gild. Eiríkur tók þó fram eftirfarandi: „Þó er ekki unnt að útiloka að dómstólarnir telji að með þeim hætti að skerða vaxtabætur afturvirkt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir, sé svo vegið að réttaröryggi þeirra sem fyrir skerðingunni verða að hún brjóti í bága við stjórnarskrána.“
     Í umsögn ASÍ um þetta mál kemur fram að ekki sé forsvaranlegt að skerða vaxtabætur afturvirkt og koma þannig í bakið á þeim sem standa þurfa við áður gerðar fjárhagsskuldbindingar sínar. Ríkisstjórnin ætlar eina ferðina enn, þrátt fyrir viðvaranir um að hún gæti verið að brjóta stjórnarskrána, að skerða vaxtabætur afturvirkt. ASÍ telur að þessar breytingar séu til þess fallnar að rýra tiltrú almennings á stjórnvöldum.

Niðurstaða.
    Fyrsti minni hluti vill setja í forgang að lækka matarskattinn um helming. Slík lækkun kemur öllum vel, sérstaklega fólki með meðaltekjur og lágar tekjur. Auk þess hefur slík aðgerð jákvæð áhrif á neysluvísitöluna sem mun lækka um 0,8%. 1. minni hluti leggur líka megináherslu á að hækka barnabætur strax og að þær verði greiddar til 18 ára aldurs barna. Sömuleiðis telur 1. minni hluti rétt að skoða verulega hækkun fríeignarmarka í eignarskatti einstaklinga sem komi strax til framkvæmda. 1. minni hluti bendir einnig á að enn frekari hækkun skattleysismarka en ráð er fyrir gert kemur sér miklu betur fyrir fólk með lágar tekjur og meðaltekjur en sú leið sem ríkisstjórnin áformar sem mest gagnast þeim efnamestu.

Alþingi, 8. des. 2004.



Össur Skarphéðinsson,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Lúðvík Bergvinsson.


Fylgiskjal I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.



Áhrif af lækkun tekjuskatts, hátekjuskatts og eignarskatts.


    Byggt á svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur
um skattalækkanir (þskj. 475 í 136. máli).



Forsendur: 4% lækkun almenns tekjuskattshlutfalls.
Afnám hátekjuskatts (úr 7 í 0%).
Afnám eignarskatta (miðað við fríeignamark við álagningu 2004).

    Fjárhæðirnar eru miðaðar við tekjuárið 2003 (álagningarár 2004) og persónuafslátt eins og hann var þá. Miðað er við tekjuárið 2003 og persónuafslátt sem gilti á því ári, sem eðlilegt er þar sem útreikningar sýna ekki framreiknaðar tekjur eða persónuafslátt yfir það tímabil sem skattalækkanir koma til framkvæmda.

Tekjubil Tekjuskattur Hátekjuskattur Eignarskattur
Samtals
Tekjuskattur Hátekjuskattur Eignarskattur
Samtals
Hjón og sambúðarfólk
1 0 0 21 21 0,0% 0,0% 1,1% 0,1%
2 0 0 2 2 0,0% 0,0% 0,1% 0,0%
3 3 0 7 10 0,0% 0,0% 0,4% 0,1%
4 55 0 48 103 0,4% 0,0% 2,6% 0,6%
5 291 0 59 350 2,1% 0,0% 3,2% 2,0%
6 357 0 58 415 2,5% 0,0% 3,1% 2,4%
7 406 0 70 476 2,9% 0,0% 3,8% 2,8%
8 450 0 81 531 3,2% 0,0% 4,4% 3,1%
9 494 0 84 578 3,5% 0,0% 4,5% 3,3%
10 547 0 87 634 3,9% 0,0% 4,7% 3,7%
11 613 0 82 695 4,4% 0,0% 4,4% 4,0%
12 684 0 83 767 4,9% 0,0% 4,5% 4,4%
13 762 0 85 847 5,4% 0,0% 4,6% 4,9%
14 845 0 89 934 6,0% 0,0% 4,8% 5,4%
15 942 0 90 1.032 6,7% 0,0% 4,8% 6,0%
16 1.050 0 99 1.149 7,5% 0,0% 5,3% 6,6%
17 1.181 0 108 1.289 8,4% 0,0% 5,8% 7,5%
18 1.360 36 120 1.516 9,7% 2,6% 6,5% 8,8%
19 1.640 216 152 2.008 11,7% 15,6% 8,2% 11,6%
20 2.372 1.131 431 3.934 16,9% 81,8% 23,2% 22,8%
Samtals 14.052 1.383 1.856 17.291 100,0% 100,0% 100,0% 100,0%
0–25% 349 0 137 486 2,5% 0,0% 7,4% 2,8%
25– 50% 2.254 0 380 2.634 16,0% 0,0% 20,5% 15,2%
50– 75% 3.846 0 429 4.275 27,4% 0,0% 23,1% 24,7%
75– 100 7.603 1.383 910 9.896 54,1% 100,0% 49,0% 57,2%
Samtals 14.052 1.383 1.856 17.291 100,0% 100,0% 100,0% 100,0%
Einhleypir               
1 0 0 0 0 0,0% 0,0% 0,0% 0,0%
2 0 0 0 0 0,0% 0,0% 0,0% 0,0%
3 0 0 0 0 0,0% 0,0% 0,0% 0,0%
4 0 0 0 0 0,0% 0,0% 0,0% 0,0%
5 1 0 1 2 0,0% 0,0% 0,2% 0,0%
6 66 0 6 72 1,4% 0,0% 1,1% 1,2%
7 147 0 9 156 3,1% 0,0% 1,6% 2,7%
8 170 0 16 186 3,5% 0,0% 2,9% 3,2%
9 188 0 25 213 3,9% 0,0% 4,5% 3,7%
10 205 0 32 237 4,3% 0,0% 5,7% 4,1%
11 220 0 38 258 4,6% 0,0% 6,8% 4,4%
12 237 0 36 273 4,9% 0,0% 6,4% 4,7%
13 261 0 33 294 5,4% 0,0% 5,9% 5,1%
14 292 0 30 322 6,1% 0,0% 5,4% 5,5%
15 327 0 28 355 6,8% 0,0% 5,0% 6,1%
16 368 0 32 400 7,7% 0,0% 5,7% 6,9%
17 419 0 36 455 8,7% 0,0% 6,4% 7,8%
18 484 0 44 528 10,1% 0,0% 7,9% 9,1%
19 576 15 56 647 12,0% 3,3% 10,0% 11,1%
20 841 438 138 1.417 17,5% 96,7% 24,6% 24,4%
Samtals 4.802 453 560 5.815 100,0% 100,0% 100,0% 100,0%
0– 25% 1 0 1 2 0,0% 0,0% 0,2% 0,0%
25– 50% 776 0 88 864 16,2% 0,0% 15,7% 14,9%
50– 75% 1.337 0 165 1502 27,8% 0,0% 29,5% 25,8%
75– 100 2.688 453 306 3447 56,0% 100,0% 54,6% 59,3%
Samtals 4.802 453 560 5.815 100,0% 100,0% 100,0% 100,0%
Heild
Samtals 18.854 1.836 2.416 23.106

Þessi tafla sýnir m.a.:
     1.      Heildarlækkunin er rúmlega 23 milljarðar kr.
     2.      Skipting skattalækkunarinnar í heild milli tekjulægri og tekjuhærri helminga hjóna annars vegar og einhleypra hins vegar er ójöfn og ranglát:
          a.      Tekjulægri helmingurinn fær tæpa 4 milljarða kr. eða um 17% lækkunarinnar.
          b.      Tekjuhærri helmingurinn fær rúmlega 19 milljarða kr. eða nærri 83% lækkunarinnar.
          c.      82% af lækkun almenna tekjuskattsins, öll lækkun hátekjuskattsins og 75% af lækkun eignarskattsins lendir hjá tekjuhærri helmingum þessara hópa.
     3.      Skipting á lækkuninni milli lægsta og hæsta fjórðungs hjóna annars vegar og einhleypra hins vegar er sláandi:
       a.      Rúmlega 13 milljarðar kr. eða nærri 58% renna til hæsta tekjufjórðungs.
       b.      Tæplega 0,5 milljarðar kr. eða rúmlega 2% fara til lægsta tekjufjórðungs.
       c.      Tekjulægsti fjórðungur hópanna fær innan við 2% af lækkun tekjuskattsins og innan við 5% af lækkun eignarskattsins.
     4.      Þeir allra tekjuhæstu hjóna annars vegar og einhleypra hins vegar fá mest og þeir allra tekjulægstu fá nær ekkert:
       a.      5,4 milljarðar eða nærri fjórðungur lækkunarinnar fer til þeirra 5% tekjuhæstu í hópunum.
       b.      0, 021 milljarðar kr. eða 0,1% heildarlækkunar skatta fer til 5% tekjulægstu í hópunum.
          c.      5% tekjuhæstu í hópunum fá í sinn hlut um 17% af lækkun almenna tekjuskattsins, 85% af lækkun hátekjuskattsins og um 24% af eignarskattslækkuninni.
          d.      15% tekjulægstu í hópunum fá í sinn hlut nær ekkert (0,02%) af lækkun tekjuskattsins og 1,2% af lækkun eignarskattsins.
    Taflan sýnir áhrif af skattabreytingunum í heild á verðlagi 2003 miðað við að tekjudreifing haldist óbreytt og persónuafslátturinn fylgi launabreytingum. Með hliðsjón af því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að persónuafslátturinn hækki á næstu árum minna en verðlag og minna en launabreytingar má gera ráð fyrir að lækkun skatta í raungildi verði miklu minni en látið er í veðri vaka, einkum í neðri hluta tekjuskalans. Þar gætu skattar jafnvel hækkað og skattbyrði aukist af þessum sökum eins og svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur á 128. löggjafarþingi (þskj. 1312 í 264. máli) leiddi í ljós að gerst hefur á síðustu árum. Niðurstaðan af skattabreytingum stjórnarflokkanna verður þá sú ein að skattar hafa í engu lækkað en skattbyrðin verið flutt af breiðu bökunum yfir á þá efnaminni.