Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 855  —  567. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2004.

I. Inngangur.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi hinn 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt. Vinnureglur ráðsins voru síðan endurskoðaðar árið 2004 og verður fjallað um það síðar í skýrslunni.
    Markmið ráðsins er að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna landanna og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis-, auðlinda- og samgöngumál, aukið menningarsamstarf og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir og getur auk þess skipað vinnunefndir um tiltekin mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

II.     Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í byrjun árs 2004 skipuðu Íslandsdeild eftirtaldir þingmenn: Birgir Ármannsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Varamenn voru Gunnar Birgisson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigurjón Þórðarson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Við upphaf 131. þings hinn 1. október urðu þær breytingar á skipan Íslandsdeildar að Kjartan Ólafsson tók sæti aðalmanns af hálfu þingflokks Sjálfstæðisflokks í stað Einars Odds Kristjánssonar og Anna Kristín Gunnarsdóttir tók sæti aðalmanns af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar í stað Margrétar Frímannsdóttur. Einar Már Sigurðarson tók sæti varamanns af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar í stað Önnu Kristínar. Á fyrsta fundi Íslandsdeildar hinn 7. október var Birgir Ármannsson endurkjörinn formaður og Hjálmar Árnason varaformaður. Arna Gerður Bang gegndi starfi ritara Íslandsdeildar.

III. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Fyrri hluta árs bar hæst skipulagning þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um orkumál sem haldin var í Reykjavík og Svartsengi dagana 9.–10. júní. Íslandsdeildin tók virkan þátt í undirbúningi ráðstefnunnar og ræddi ýmsar tillögur að dagskrá, fyrirlesurum og erindum. Auk þess hafði deildin náið samráð við sérfræðinga iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins til að gera ráðstefnuna sem besta.
    Í desember árið 2003 skrifaði Íslandsdeild VNR bréf til utanríkisráðherra þar sem hún hvatti til stuðnings við vestnorrænu veiðimenningarsýninguna. Ákveðið var að halda sérstakan fund fulltrúa forsætis-, sjávarútvegs-, menntamála- og utanríkisráðuneytanna til þess að taka afstöðu til þess hvort ráðuneytin vildu í sameiningu leggja fram umbeðið fjármagn. Aðilar voru sammála um að sýningin væri afar vel úr garði gerð og áhugaverð í sögulegu ljósi. Eðlilegt væri að sýningin flyttist á milli Norðurlanda og ekki var gerð athugasemd við það að hluti hennar væri settur upp í tengslum við EXPO-2005 í Aichi í Japan. Því miður reyndist þó ekki vilji fyrir því að leggja fjármagn af hendi til sýningarinnar. Þar eð sá hluti sýningarinnar sem settur yrði upp í hinum norræna skála á EXPO-2005 í Aichi yrði alfarið greiddur af skipuleggjendum norræna skálans var ekki talið að sérstakt fjármagn frá löndunum þyrfti til þess.
    Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2004, þar sem áhersla var m.a. á Vestur-Norðurlönd. Af því tilefni boðaði Íslandsdeild VNR til fundar með Páli Péturssyni, ráðgjafa frá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, og bauð Íslandsdeild Norðurlandaráðs að taka þátt í fundinum. Páll sagði fundarmönnum frá því sem til stæði á formennskuárinu og fóru fram góðar og gagnlegar umræður um árið og verkefni þess. Benedikte Thorsteinsson, formaður Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, var einnig gestur fundar Íslandsdeildar á árinu og ræddi m.a. um starfsemi félagsins og möguleika á frekari samvinnu milli vestnorrænu landanna.
    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins 1999 var samþykkt ályktun um ráðstefnu vestnorrænna þingkvenna sem lögð var fyrir þing landanna þriggja. Vestnorræna kvennaráðstefnan var svo haldin í Þórshöfn í Færeyjum í ágúst sl. Sex þingkonur frá Alþingi fóru á ráðstefnuna, þar sem staða kvenna á stjórnmálum á Vestur-Norðurlöndum var rædd. Gert er ráð fyrir að ráðstefnan verði haldin að nýju að tveimur árum liðnum á Grænlandi.
    
IV. Úttekt á vinnureglum ráðsins.
    Eitt af stærstu verkefnum Vestnorræna ráðsins á árinu var ítarleg yfirferð á starfsreglum ráðsins, með það að markmiði að skerpa línurnar og gera reglurnar skýrari og skilvirkari. Mikil og góð vinna fór fram hjá Íslandsdeildinni sem lagði metnað sinn í að skila inn greinargóðum tillögum til breytinga.
    Samþykkt var á fundi forsætisnefndar í Ósló í október 2003 að ekki væri þörf á að gera breytingar á stofnsamningi Vestnorræna ráðsins heldur ætti að einbeita sér að starfsreglum ráðsins og endurbótum á þeim. Í framhaldinu fóru landsdeildir vandlega yfir starfsreglur ráðsins og settu fram tillögur um breytingar. Á forsætisnefndarfundi 23. mars sl. í Kaupmannahöfn voru breytingartillögurnar lagðar fram og ræddar. Hvatt var til þess í greinargerð Íslandsdeildar að forsætisnefnd mæti kosti þess og galla að lengja formennskutímabilið úr einu ári í tvö. Einnig lagði deildin áherslu á umræðu um það hvort nauðsynlegt væri að hafa fullt stöðugildi fyrir skrifstofurekstur ráðsins.
    Birgir Ármannsson lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að landsdeildirnar kæmu sér saman um endurbættar reglur ráðsins á ársfundi þess á Grænlandi í ágúst sl. og niðurstaða næðist um þau mál sem valdið höfðu ágreiningi. Ágreiningur var um það hvort staða framkvæmdastjóra ráðsins ætti að vera föst á Íslandi eða flytjast milli landanna þriggja og hvort skrifstofa, yrði hún færanleg, ætti þá að fylgja formennsku í ráðinu. Einnig var ágreiningur um það hvort starf framkvæmdastjóra ætti að vera heil staða, eins og hún er nú eða hálf staða.

V.     Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins.
    Á fundi dómnefndar Vestnorræna ráðsins í Kaupmannahöfn í júlí 2004 var bókin Engill í Vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur, myndskreytt af Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, valin sem vinningsbók barna- og unglingabókaverðlauna ráðsins. Nefndin ákvað að verðlaunafénu, að fjárhæð 60.000 danskar krónur, skyldi skipt milli rithöfundarins og myndlistarmannsins. Birgir Ármannsson, formaður Vestnorræna ráðsins, tilkynnti um vinningshafana á ársfundi ráðsins í Narsarsuaq í ágúst sl. Verðlaunin voru svo afhent vinningshöfunum formlega í Skála Alþingis 2. september sl.
    Markmiðið með verðlaununum er að hvetja vestnorræna barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu. Þær bækur sem hljóta tilnefningu eru á vegum menntamálaráðuneyta landanna þýddar á vestnorrænu málin og skandinavísku og gert er ráð fyrir því að bækurnar komi að gagni í fræðslustarfi landanna. Verðlaunin verða veitt annað hvert ár, næst árið 2006.

VI. Þemaráðstefna um orkumál.
    Dagana 9.–10. júní fór þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um orkumál fram í Reykjavík og Svartsengi. Á ráðstefnunni var sjónum beint að orkumálum Grænlands, Færeyja og Íslands og leitað var leiða til aukinnar samvinnu landanna á milli. Fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sátu ráðstefnuna Birgir Ármannsson, Hjálmar Árnason, Magnús Þór Hafsteinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Kjartan Ólafsson og Helgi Hjörvar, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Meginmarkmið ráðstefnunnar var að efla upplýsingaflæði landanna í milli í þessum málaflokki og finna fleti á frekara samstarfi. Þingmenn frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi báru saman bækur sínar um ástandið í orkumálum ríkjanna og hugað var að því hvert stefndi. Fjölmargir alþjóðlegir sérfræðingar fluttu erindi um margvíslegar hliðar orku- og umhverfismála. Þeir ráðherrar ríkjanna sem fara með orkumál sóttu ráðstefnuna, svo og fulltrúar Norðurlandaráðs, norrænu ráðherranefndarinnar og norska þingsins.
    Birgir Ármannsson, formaður Íslandsdeildar, setti ráðstefnuna og vakti athygli á mikilvægi sjálfbærrar nýtingar orkuauðlinda. Birgir beindi sjónum fundargesta að nauðsynlegri þróun málaflokksins og möguleikum á betri nýtingu fjölbreyttra orkuauðlinda landanna þriggja. Orkumál eru mikilvægur málaflokkur í örri þróun og því nauðsynlegt að stuðla að aukinni samvinnu og nýjum áherslum í orkuframleiðslu, einkum hvað varðar sjálfbæra nýtingu. Birgir benti á mikilvægi þess að horft væri til framtíðar og þeirra tækifæra sem samvinna vestnorrænu landanna á sviði orkumála gæti veitt.
    Fyrri dag ráðstefnunnar var rætt um stöðu orkumála í löndunum þremur og þá þróun sem á sér þar stað. Síðari daginn var fjallað um nýjar leiðir í orkunýtingu og þá kosti sem má nýta í vestnorrænu löndunum, eins og vetni og vatns- og vindorku.
    Rætt var um mikilvægi þess að vestnorrænu löndin ynnu saman að þróun endurnýjanlegrar orku. Í vestnorrænu löndunum er til sérfræðiþekking og tækni í sambandi við umhverfisvæna endurnýjanlega orku og orkusparnað. Í Færeyjum hafa þegar verið reistar vindmyllur, á Grænlandi er lögð áhersla á vatnsorku og á Íslandi fara fram tilraunir með vetni. Að öðru leyti er orkan sem notuð er í vestnorrænu löndunum afar ólík. Á Íslandi eru 70% orkunnar frá jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum en á Grænlandi og í Færeyjum eru olía og gas aðalorkugjafarnir. Þessi lönd hafa að markmiði að minnka notkun þessara orkugjafa og auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa svo sem vatns- og vindorku, jarðvarma og vetnis.
    Orkumálaráðherrar landanna ítrekuðu stuðning sinn við frekari samvinnu og sögðu yfirvöld tilbúin að skoða nánara samstarf landanna þriggja á sviði orkumála. Í máli þeirra kom fram að mikil þróun hefur orðið á undanförnum árum sem enn sér ekki fyrir endann á. Aukin samvinna getur veitt þjóðunum styrk og getu til að skoða frekar nýja möguleika og læra hver af annarri og var það von þátttakenda að umræður og fræðsla ráðstefnunnar yrði gott veganesti og styrkti samstarf vestnorrænu landanna í sviði orkumála til frambúðar.

VII. Ársfundur Vestnorræna ráðsins.
    Dagana 20.–24. ágúst 2004 var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn í Narsarsuaq á Grænlandi. Fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sátu fundinn Birgir Ármannsson, formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Kjartan Ólafsson og Magnús Þór Hafsteinsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Ársfundurinn hófst á því að Jonathan Motzfeldt, fráfarandi formaður ráðsins, flutti skýrslu sína um starfsemi ársins og bauð þátttakendur velkomna. Josef Motzfeldt, fulltrúi landsstjórnar um norræna samvinnu, og Inge Lønning, varaforseti Stórþingsins og fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, voru sérstakir gestir fundarins. Þá voru fluttar frásagnir framkvæmdastjóra og landsdeilda um störf Vestnorræna ráðsins síðasta árið.
    Birgir Ármannsson skýrði frá störfum Íslandsdeildar á árinu. Hann sagði það hafa verið sérstaklega áhugavert verkefni og ánægjulegt að skipuleggja þemaráðstefnu um orkumál og geta tekið á móti grænlensku og færeysku landsdeildunum auk annarra ráðstefnugesta. Birgir lagði áherslu á þróun sjálfbærrar nýtingar orkuauðlinda og þeirra tækifæra sem samvinna vestnorrænu landanna á sviði orkumála gefur.
    Birgir sagði einnig að eitt af stærstu verkefnum Íslandsdeildar á árinu hefði verið vandleg yfirferð á starfsreglum ráðsins, með það að markmiði að skerpa línurnar og gera reglurnar skýrari og skilvirkari. Hann benti á að mikil og góð vinna hefði farið fram hjá landsdeildunum og vonaði að sú vinna skilaði sér í bættum starfsreglum sem ráðið nyti góðs af. Birgir lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að landsdeildirnar kæmu sér saman um reglur ráðsins og gætu tekið þær í notkun sem fyrst. Birgir minnti á að starfs- og vinnureglur ráðsins ætti í hvívetna að halda í heiðri og væri það mikilvægt til að halda ráðinu virku og kraftmiklu.
    Í kjöri til forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins var Birgir Ármannsson kosinn formaður, Henrik Old frá Færeyjum varaformaður og Jonathan Motzfeldt frá Grænlandi annar varaformaður. Ákveðið var að þemaráðstefna starfsársins 2005 yrði tileinkuð sjávarútvegsmálum og haldin í Færeyjum.
    Josef Motzfeldt benti á að síðustu ár hafa Eystrasaltsríkin verið áberandi í norrænu samstarfi en að nú gætti aukins áhuga á samstarfi við Vestur-Norðurlönd og norðurskautssvæðið. Josef ræddi um Norðurskautsráðstefnuna um auðlindir hafsins sem haldin verður í þriðja sinn í ár og benti á að til að árangur náist verði hugur að fylgja máli. Leiddi það til spurningarinnar um hve miklu þingsályktunartillögur gætu komið til leiðar. Inge Lønning, varaforseti Stórþingsins, ræddi um hugtakið vestnorrænt gagnvart hugtakinu austnorrænt og hvar Noregur ætti heima í því samhengi. Lønning lagði áherslu á mikilvægi þess að styrkja sambandið milli Vestnorræna ráðsins og Stórþingsins. Einnig taldi hann gagnlegt að samskipti væru á milli Vestnorræna ráðsins og forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Formaður ráðsins kynnti endurskoðaðar starfsreglur Vestnorræna ráðsins, fyrir utan kafla 6 sem fjallar um skrifstofurekstur ráðsins, og voru þær samþykktar einróma. Þá var gert 20 mínútna hlé á fundinum þannig að hver landsdeild gæti rætt fyrirlagðar tillögur A og B varðandi skrifstofureksturinn og tekið sameiginlega afstöðu til þeirra. Tillaga A gekk út á það að skrifstofa ráðsins fylgdi formennsku ráðsins. Tillaga B fól í sér óbreytt ástand. Jonathan Motzfeldt lýsti því yfir að landsdeild Grænlands styddi tillögu B og sama gerði Henrik Old fyrir hönd landsdeildar Færeyja og Birgir Ármannsson fyrir hönd landsdeildar Íslands.
    Í umræðu um starfsreglurnar kom fram tillaga um að lengja formennskutímabilið í tvö ár og voru fundarmenn sammála um að ræða það mál nánar í framtíðinni. Slíkt gæfi formanni ráðsins og formennskuríkinu hverju sinni lengri tíma til að koma sér inn í málin. Sú breyting kallar á breytingu á 6. kafla stofnsamnings Vestnorræna ráðsins og þarf því að leggjast með formlegum hætti fyrir þjóðþing landanna þriggja. Guðrún Ögmundsdóttir lagði til að landsdeildirnar tækju málið upp í þingum landanna og forsætisnefndin ynni frekar í málinu. Formaður lýsti því yfir að tillaga B væri samþykkt og tillagan um tveggja ára formennskutímabil yrði rædd áfram í landsdeildum og forsætisnefndinni.
    Þrjár ályktanir voru samþykktar á fundinum. Fyrst er að nefna ályktun um eflingu vestnorræns samstarfs í orkumálum. Þar er skorað á ríkis- og landsstjórnir landanna þriggja að efna til samstarfs um orkumál þjóðanna með áherslu á sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Óskað er eftir því að gerð verði grein fyrir framgangi samvinnunnar með árlegri skýrslu. Einnig var samþykkt ályktun um að auka samvinnu landanna þriggja í tengslum við vandamál í sjávarútvegi í sambandi við Evrópusambandið. Þriðja ályktunin leggur til að gerð verði verkáætlun um hvernig styrkja megi rannsóknir á loftslagsbreytingum með Norður-Atlantshaf sem rannsóknarsvið. Ályktanir fundarins voru samþykktar samhljóða.

VIII. Ályktanir Vestnorræna ráðsins á ársfundi í Narsarsuaq 20.–22. ágúst 2004.
     .      Tillaga til þingsályktunar um eflingu vestnorræns samstarfs í orkumálum.
     .      Tillaga til þingsályktunar um gerð framkvæmdaáætlunar til að efla markvisst átak í rannsóknum á loftslagsbreytingum.
     .      Tillaga til þingsályktunar um eflingu samstarfs Vestur-Norðurlanda varðandi ýmis úrlausnarefni í sambandi við stefnu í fiskveiðimálum gagnvart Evrópusambandinu.

Alþingi, 1. febr. 2005.



Birgir Ármannsson,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Kjartan Ólafsson.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Magnús Þór Hafsteinsson.