Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 582. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 873  —  582. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2004.

I.     Inngangur.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en takmörkuð samvinna norðurskautsríkja hafði hafist nokkru áður þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem við komu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu, og auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað sinn í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda, en Ísland fór með formennsku í ráðinu frá nóvember 2002 til nóvember 2004.

II.     Skipan Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fram til ársins 2002 skipaði forsætisnefnd fulltrúa Alþingis í þingmannanefnd um norðurskautsmál en fulltrúar á þingmannaráðstefnuna voru valdir sérstaklega hverju sinni. Vegna örrar þróunar í þessum málaflokki var hins vegar ákveðið árið 2002 að stofna sérstaka Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál þar eð vægi norðurskautssamstarfsins á alþjóðlegum vettvangi færi mjög vaxandi. Ákveðið var að Íslandsdeild yrði skipuð þremur þingmönnum (og þremur til vara) og mundi Íslandsdeildin sækja þingmannaráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildarinnar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og hún fær jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.
    Fyrri hluta árs 2004 var Íslandsdeild skipuð þeim Sigríði A. Þórðardóttur, formanni, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Magnúsi Stefánssyni, varaformanni, þingflokki Framsóknarflokks, og Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Einar K. Guðfinnsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Hinn 1. október 2004 tók Einar K. Guðfinnsson við formennsku Íslandsdeildar í stað Sigríðar A. Þórðardóttur og Sigurður Kári Kristjánsson tók við sæti Einars sem varamaður. Skipan Íslandsdeildar var að öðru leyti óbreytt. Ritari Íslandsdeildar var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþjóðaritari. Ritari Íslandsdeildar sá einnig um allan skrifstofurekstur og framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar á árinu.

III.    Áherslur í málefnastarfi og helstu verkefni þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2004.
a.     Loftslagsbreytingar á norðurslóðum.
    Eitt metnaðarfyllsta og stærsta verkefni sem Norðurskautsráðið hefur lagt í frá upphafi er gerð umfangsmikillar skýrslu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Hundruð vísindamanna hafa komið að gerð skýrslunnar undanfarin ár en skýrslan var formlega lögð fram á fundi Norðurskautsráðsins í nóvember sl. Niðurstöður skýrslunnar hafa vakið gríðarlega athygli um allan heim. Samhliða hinni eiginlegu vísindalegu skýrslu voru gefnir út minni bæklingar og yfirlit yfir helstu niðurstöður sem eru aðgengileg almenningi á heimasíðunni www.acia.uaf.edu. Einnig var lagt fram á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í nóvember sl. sérstakt stefnumótunarskjal þar sem bent er á tillögur til úrbóta og tiltekinni stefnumörkun í þessum málum beint til stjórnvalda. Þingmannanefndin hefur frá upphafi fylgst grannt með allri þessari vinnu og reglulega tekið málið fyrir á fundum.
    Í skýrslunni kemur fram að gríðarlegar loftslagsbreytingar hafa orðið á norðurskautssvæðum síðustu áratugi og að loftslag fer ört hlýnandi. Ekki sér fyrir endann á þessum breytingum og spáð er enn örari þróun í þessa átt á næstu áratugum. Norðurslóðir einkennast af sérlega viðkvæmum vistkerfum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem gerist annars staðar í heiminum. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem verða á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar í heiminum. Lofthiti á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar heldur en loftslag annars staðar. Þótt hitastig fari að jafnaði hækkandi á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna, en aðrir staðir kólna þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa í för með sér margs konar afleiðingar, s.s. hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn meiri hröðunar loftslagsbreytinga. Sem dæmi um umfang þeirrar bráðnunar jökla sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi mætti nefna að bráðnun Grænlandsjökuls jókst um 16% á árunum 1979–2002. Þessi 16% af yfirborði Grænlandsjökuls eru á stærð við Svíþjóð. Ísjakar í Beaufort- og Chuckchi-hafsvæðunum eru sömuleiðis 25% undir minnsta meðallagi sem mælst hefur frá upphafi. Allar spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafssvæðið án íss og klaka að sumarlagi. Plöntutegundir og annað gróðurlendi færast æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengjast.
    Í skýrslunni kemur fram að vísindamenn geta nú aðgreint loftslagsbreytingar af náttúrlegum völdum frá breytingum af mannavöldum. Þótt rannsóknir sýni að breytingar á loftslagi eru bundnar náttúrlegum og eðlilegum sveiflum kemur fram að áhrif af mannavöldum, s.s. losun koltvíoxíðs, eru nú orðin stærsti þátturinn í örum loftslagsbreytingum nútímans. Skýrslan sýnir jafnframt að loftslagsbreytingar hafa umfangsmikil áhrif á nær alla þætti samfélags í norðri, ekki einungis umhverfi, dýralíf og gróðurfar, heldur einnig félags-, menningar- og efnahagslega þætti mannlífs. Í þessu samhengi mætti t.d. nefna að samkvæmt skýrslunni mælist nú um 40% aukning á UV-geislum sem mun með tímanum geta haft veruleg áhrif á heilsufar manna. Hækkun á yfirborði sjávar, breytingar á hitastigi sjávar og bráðnun ísjaka og jökla hafa nú þegar bein áhrif á lífsviðurværi og lífshætti ýmissa íbúa norðurslóða. Eftir því sem sjávarborð hækkar verður svörfun á strandlengjum einnig alvarlegri sem hefur áhrif á ýmis samfélög við sjávarsíðuna.
    Hvort þessar breytingar eru túlkaðar sem neikvæðar eða jákvæðar fer augljóslega eftir því hver í hlut á. Bráðnun íss mun t.d. hafa í för með sér djúpstæðar afleiðingar fyrir lífsviðurværi ísbjarna og tiltekinna selategunda og ef svo heldur fram sem horfir er talið líklegt að ísbirnir verði í útrýmingarhættu. Ýmis samtök inúíta hafa tekið höndum saman við að vekja athygli á þeim alvarlegu afleiðingum sem loftslagsbreytingar hafa á lífsviðurværi þeirra, samfélag og menningu. Aðrir benda hins vegar á að í bráðnun íss og jökla felist ýmis tækifæri sem geti haft jákvæð áhrif á efnahag og menningu. Þannig muni t.d. opnun siglingaleiða í norðri þýða ýmis tækifæri til olíuborana, skipaflutninga og viðskipta sem áður hefðu ekki verið möguleg. Margvíslegar túlkanir eru því á þeim loftslagsbreytingum sem nú eiga sér stað á norðurslóðum, en vísindaleg samstaða virðist um að breytingarnar séu raunverulegar og aukist hraðar en áður hefur mælst. Samkvæmt skýrslunni er svo komið að jafnvel þótt allri framleiðslu á koltvísýringi væri hætt nú þegar tæki það náttúruna, loftslag og sjávarföll nokkrar aldir að komast aftur í jafnvægi. Hækkun hita á jörðinni er því óumflýjanleg. Hraði og umfang þeirrar hækkunar samkvæmt skýrslunni fer hins vegar m.a. eftir því hvernig losun gróðurhúsaáhrifa verður háttað.
    Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í nóvember sl. var skýrslunni fagnað sem áhrifamiklu afreki í sögu ráðsins. Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna er lýst yfir að loftslagsbreytingar hafi í för með sér margvíslega vá fyrir lífshætti og viðurværi íbúa norðurslóða, sem og hættu fyrir tilteknar dýra- og gróðurtegundir. Í sérstöku stefnumótunarskjali skuldbinda ráðherrarnir sig til að framfylgja tilteknum aðgerðum til að stemma stigu við frekari loftslagsbreytingum. Ráðherrarnir skuldbinda sig einnig til að aðstoða íbúa norðurslóða með skipulögðum hætti við að aðlagast þessum breytingum og leita leiða til að þróa og nýta endurnýtanlega orkugjafa, s.s. vetni.

b.     Skýrsla um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum.
    Eitt af helstu forgangsverkefnum þingmannanefndarinnar á árinu voru umræður og eftirfylgni við gerð skýrslu um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum, en skýrslan leit dagsins ljós á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í nóvember sl. Formaður Íslandsdeildar sat í sérstökum stýrihópi skýrslunnar og skýrði reglulega frá vinnu við gerð hennar á fundum þingmannanefndarinnar. Nefndin átti frumkvæði að gerð skýrslunnar og vann mikla undirbúningsvinnu á frumstigi málsins. Við undirbúning og ákvörðun á umfangi og innihaldi skýrslunnar naut þingmannanefndin góðrar leiðsagnar og aðstoðar Níelsar Einarssonar, forstöðumanns Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, og Oran Young prófessors sem skrifuðu greinargerðir um málið. Nefndin kynnti málið fyrir Norðurskautsráðinu og mæltist til þess að ráðið tæki framkvæmd skýrslunnar og skipulagningu í sínar hendur. Gerð slíkrar skýrslu var, undir forustu Íslands, formlega gerð að forgangsverkefni Norðurskautsráðsins á fundi þess í Inari í Finnlandi í nóvember 2002. Níels Einarsson og Oran Young höfðu yfirumsjón með vinnuferlinu, en fjöldi alþjóðlegra fræðimanna var ábyrgur fyrir mismunandi köflum. Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu lýsti því strax yfir haustið 2002 að stefnt væri að því að ljúka skýrslugerðinni á þeim tveimur árum sem Ísland færi fyrir ráðinu og skila fullkláruðu verki á fundi Norðurskautsráðsins haustið 2004. Ýmsir efuðust um að það tækist að klára þetta metnaðarfulla verk á svo skömmum tíma, en það var gert með sóma. Góður rómur var gerður að skýrslunni á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í nóvember sl.
    Skýrslan fjallar um félagslega, menningarlega og efnahagslega velferð íbúa norðurskautsins, en hingað til hafa ekki verið gerðar rannsóknir sem beinast eingöngu að íbúum norðurskautssvæða og sjálfbærri þróun. Skýrslan sýnir svo að ekki verður um villst að mikið vantar upp á í allri gagnasöfnun um mannlífsþróun á stórum svæðum á norðurslóðum, sérstaklega víða í Rússlandi. Skýrslan auðkennir fjölmörg svæði þar sem nær engar upplýsingar eru til um þróun mannlífs. Skýrslan lýsir einnig vel hvernig menningarheimar norðurslóða hafa mótast og breyst án þess þó að glata sérkennum sínum. Bent er á með ýmsum dæmum hvernig aðlögunarhæfni ólíkra samfélaga norðurslóða hefur fundið sér frumlegan og ófyrirsjáanlegan farveg í sameiningu nýrra og gamalla siða. Þrátt fyrir nær óyfirstíganlegar hindranir hefur fólk á þessum slóðum komist af um aldaraðir. Skýrslan tekur skýrt fram að norðurslóðir státa af einkar fjölbreytilegum menningararfi en um leið er varað við því hversu grunnur hagkerfa á norðurslóðum er einhæfur og viðkvæmur fyrir ytri öflum. Bent er á að dreifingu pólitísks valds hafi á ýmsum svæðum norðurslóða ekki verið fylgt á eftir með auknum fjárframlögum, og að skoða verði vel hvað þessi skil á milli fjárframlaga og pólitískrar ábyrgðar hafi í för með sér, t.d. fyrir sveitarfélög. Vonast er til að skýrslan verði gagnlegt framlag til frekari umræðu og stefnumótunar innan Norðurskautsráðsins og nú þegar eru uppi ýmsar hugmyndir um hvernig fylgja megi skýrslunni eftir.

c.     Upplýsingatækni.
    Annað helsta viðfangsefni þingmannanefndarinnar sem hefur verið í brennidepli á árinu er upplýsingatækni, og þá sérstaklega fjarkennsla og fjarlækningar. Svíar buðust til að taka forustu í undirbúningsvinnu þingmannanefndarinnar í þessum málaflokki árið 2002 og héldu m.a. vinnuhópafund um áframhaldandi uppbyggingu tölvuvæðingar á norðurslóðum. Þingmannanefndin lagði í framhaldinu töluverða vinnu í að undirbúa gerð sérstakrar skýrslu um þessi mál sem kynnt var á þingmannaráðstefnunni í Tromsö í ágúst 2002. Ráðstefnan samþykkti í lokaályktun sinni að beina tilmælum til ríkisstjórna á norðurskautssvæðum að styrkja sérstaklega þennan málaflokk. Auk þess var samþykkt að tölvu- og tæknimál yrðu forgangsverkefni þingmannanefndarinnar árin 2002–2004. Það er ljóst að bætt tölvunotkun og fjarkennsla gæti orðið íbúum norðursins mjög mikilvæg þegar fram í sækir, ekki síst þegar litið er til þess hversu strjálbýl þessi svæði eru og samgöngur erfiðar. Það var því sérstakt gleðiefni nefndarinnar þegar forusta Íslendinga í ráðinu lýsti því yfir á fundi Norðurskautsráðsins í Inari í október 2002 að á árunum 2002–2004 yrði upplýsingatækni eitt af þremur forgangsverkefnum ráðsins. Í október 2003 stóð ráðið fyrir stórri alþjóðlegri ráðstefnu um þessi mál á Akureyri. Í lokaályktun ráðstefnunnar var lögð áhersla á að allir þjóðfélagsþegnar við norðurskaut gætu í framtíðinni fengið aðgang að netinu á viðráðanlegum kjörum. Á ráðstefnunni voru norðurskautsríkin hvött til að skapa lagaumhverfi sem tryggir jafnan aðgang fólks að upplýsingatækni og að íbúarnir sjálfir geti mótað framtíðarstefnu í þessum málum. Einnig var lagt til að stofnuð yrði sérstök stýrinefnd um upplýsingatækni innan Norðurskautsráðsins.
    Þingmannanefndinni var boðin þátttaka í þessari stýrinefnd og hóf hún strax handa við undirbúning. Í mars sl. lagði nefndin fram tillögu að sérstöku verkefni á sviði upplýsingatækni á norðurslóðum sem kallast TRAICE (Target Region Arctic Information Communications Enquiry). Sérstakur vinnuhópur innan nefndarinnar var stofnaður til að fylgja verkefninu eftir. Verkefnið gengur út á það að velja lítið afmarkað svæði á norðurslóðum, sem helst liggur á landamærum tveggja eða fleiri norðurskautsríkja, og byggja í sameiningu smám saman upp allan aðgang íbúa að upplýsingatækni. Vinnuhópur nefndarinnar hefur nú valið stað þar sem tilvalið þykir að gera verkefnið að veruleika, en það er Torne-dalurinn við landamæri Norður-Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Þar býr fólk við mjög ólík skilyrði hvað upplýsingatækni varðar, sumir hafa aðgang að nýjustu tækni en aðrir engan. Dalurinn einkennist af háu hlutfalli Sama og því gefst þar færi á að nýta upplýsingatækni til að varðveita betur tungumál þeirra og byggja upp fjarkennslu og fjarlækningar. Íbúar á þessum slóðum eru líka vanir því að vinna að sameiginlegum verkefnum þvert yfir landamæri ríkjanna. Tiltölulega takmörkuð samvinna hefur hins vegar verið þar á sviði upplýsingatækni hingað til, jafnvel þótt skýrslur liggi fyrir þar sem skýrt kemur fram að slíkt mundi koma öllum íbúum vel. TRAICE felur í sér að öll ríkin vinni saman að uppbyggingu á upplýsingatækni svæðisins og spari þar með fjármuni og komist hjá óþarfa tvíverknaði. Verkefnið bíður nú frekari afgreiðslu hjá vinnuhópi Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun.

d.     Háskóli norðurslóða.
    Þingmannanefndin hefur á árinu að vanda fylgst með þróun Háskóla norðurslóða. Skólinn var stofnaður við hátíðlega athöfn í Rovaniemi 12. júní 2001, en stofnun hans hafði þá verið fjögur ár í undirbúningi í aðildarlöndunum. Háskólanum er fyrst og fremst ætlað að vera tengiliður á milli annarra háskóla, rannsóknastofnana og samtaka sem sérhæfa sig í rannsóknum á löndum við norðurskaut. Háskólinn býður nú upp á formlega B.S.-gráðu í heimskautsfræðum og undirbúningur fyrir frekari námsáætlanir er í fullum gangi, en námið fer að miklu leyti fram með fjarkennslu í gegnum aðrar háskólastofnanir á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur hin síðustu ár fengið reglulegar fréttir af starfi skólans. Nefndarmenn hafa hvatt til eindregins stuðnings norðurskautsríkjanna við skólann og unnið að því að fjárhagslegur rekstur skólans til lengri tíma yrði tryggður.
    
IV.     Fundir þingmannanefndar 2004.
    Þingmannanefndin hélt fjóra fundi á árinu. Sigríður A. Þórðardóttir sótti fyrstu þrjá fundi ársins fyrir hönd Íslandsdeildar, ásamt ritara. Fyrsti fundur nefndarinnar fór fram dagana 4.–5. mars í Ósló, annar fundur dagana 12.–13. maí í Helsinki og þriðji fundurinn fór fram 5. september í Nuuk. Í forföllum nýs formanns Íslandsdeildar, Einars K. Guðfinnssonar, sótti Þórunn Sveinbjarnardóttir fjórða fund nefndarinnar, ásamt ritara. Sá fundur fór fram í Brussel dagana 29.–30. nóvember sl. Rannveig Guðmundsdóttir sat auk þess fundina sem áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs.

V.     Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál.
    Sjötta þingmannaráðstefna um norðurskautsmál var haldin í Nuuk dagana 3.–6. september 2004. Sigríður A. Þórðardóttir, Magnús Stefánsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir sóttu ráðstefnuna f.h. Alþingis ásamt ritara. Dagskrá ráðstefnunnar endurspeglaði fundi og vinnu þingmannanefndarinnar á árinu og var skipt upp í þrjá meginhluta eftir efnistökum. Fyrsti hluti fjallaði um loftslagsbreytingar á norðurslóðum, annar hluti um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum og þriðji hluti um sjálfbæra efnahagsþróun á norðurslóðum. Ráðstefnan þótti einstaklega áhugaverð og vel heppnuð. Í lok hennar var samþykkt samhljóða yfirlýsing með margvíslegum ályktunum og áskorunum um þau mál sem efst voru á baugi. Helstu þættir yfirlýsingarinnar fylgja hér á eftir.

Ráðstefnan staðhæfir eftirfarandi:
     *      loftslag á norðurslóðum hlýnar ört og mun meiri hlýnun er spáð á næstu áratugum;
     *      ört hlýnandi loftslag á norðurslóðum mun að öllum líkindum hafa víðtækar afleiðingar um heim allan og taka verður á þeim málum á sameiginlegum alþjóðlegum vettvangi allra helstu ríkja heims;
     *      loftslagsbreytingar og aukning útfjólublárra geisla á norðurslóðum munu hafa alvarlegar afleiðingar fyrir félags-, efnahags- og menningarlega tilvist íbúa norðurslóða, auka ýmsar heilsufarslegar hættur og ógna hefðbundnu lífsviðurværi og menningu tiltekinna þjóðflokka á norðurslóðum;
     *      loftslagsbreytingar hafa nú þegar víðtæk áhrif á náttúru og umhverfi norðurskautssvæða, vistkerfi þeirra, dýra- og plöntulíf;
     *      áhrif af mannavöldum, sérstaklega losun gróðurhúsaefna, svo sem koltvísýrings, er ein mikilvæg ástæða fyrir loftslagsbreytingum á norðurslóðum;
     *      með hlýnandi loftslagi munu siglingaleiðir í norðri opnast og möguleikar skipaflutninga aukast til muna.

Ráðstefnan skorar á stjórnvöld norðurskautsríkja að:

     *      draga úr loftslagsmengun og losun koltvísýrings, auka sjálfbæra nýtingu orku og leggja áherslu á þróun og notkun endurnýtanlegra orkugjafa;
     *      styðja samfélög á norðurskautssvæðum með skipulögðum hætti við að aðlagast loftslagsbreytingum;
     *      ganga úr skugga um að þau tækifæri sem fást til siglinga í norðurhöfum séu nýtt á sjálfbæran hátt og að þær hættur sem felast í auknum skipaflutningum séu skorðaðar með ásættanlegum umhverfiskröfum, bættri skipatækni og skýrum og áreiðanlegum upplýsingum um ástand skipa;
     *      breiða út vitneskju á meðal almennings um loftslagsbreytingar og nýta niðurstöður skýrslu Norðurskautsráðsins um loftslagsbreytingar í skóla- og menntastarfi stofnana á norðurslóðum;
     *      láta reglulega meta sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum og vinna með skipulögðum hætti að því að frekari vitneskju sé aflað á því sviði;

Ráðstefnan skorar á þingmannanefnd um norðurskautsmál að:

     *      koma á framfæri kraftmiklum skilaboðum til stjórnvalda um mikilvægi og alvarleika loftslagsbreytinga á norðurslóðum og vekja athygli á brýnni þörf fyrir aðkallandi aðgerðir;
     *      halda áfram reglulegri umfjöllun og skipulögðu mati á þeim niðurstöðum sem fram koma í nýrri skýrslu Norðurskautsráðsins um sjálfbæra mannlífsþróun;
     *      taka virkan þátt í vinnuhópi Norðurskautsráðsins um upplýsingatækni og vinna að því að verkefnið TRAICE komi til framkvæmda innan ráðsins.

    Að lokum má geta þess að á fundi þingmannanefndarinnar strax að ráðstefnunni lokinni var kjörinn nýr formaður nefndarinnar, Hill-Marta Solberg frá Noregi. Fráfarandi formaður, Clifford Lincoln, lét af störfum þar eð hann hefur ákveðið að setjast í helgan stein. Ráðstefnan og fundur þingmannanefndarinnar að henni lokinni var því nokkuð tilfinningaþrunginn þar eð Clifford Lincoln hefur stýrt starfi nefndarinnar um svo langt skeið og notið mikillar virðingar í því embætti. Þegar Clifford Lincoln lét af störfum þakkaði hann sérstaklega formennsku Íslands fyrir framúrskarandi forustu í Norðurskautsráðinu og einkar góð samskipti við þingmannanefndina. Hann þakkaði einnig Alþingi sérstaklega fyrir að hafa farsællega tekið að sér skrifstofu- og framkvæmdastjórn nefndarinnar. Hann sagði ráðið og þingmannanefndina hafa tekið stórt stökk fram á við á þeim tveimur árum sem liðin væru frá síðustu ráðstefnu og að engin störf á alþjóðlegum vettvangi hefðu veitt honum jafnmikla gleði og ánægju eins og það að vinna fyrir þingmannanefnd um norðurskautsmál.

Alþingi, 24. febr. 2005.



Einar K. Guðfinnsson,


form.


Magnús Stefánsson,


varaform.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.