Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 437. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 948  —  437. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 73/2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Þóri Skarphéðinsson frá viðskiptaráðuneyti, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Pál Gunnar Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 73/2004 frá 4. júní 2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB.
    Með innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk lög verður öll rammalöggjöf um útboðs- og skráningarlýsingar gerð ítarlegri. Kveðið verður á um þær lágmarksupplýsingar sem fram þurfa að koma þegar fjármálagerningar eru boðnir í almennu útboði eða skráðir í kauphöll. Þá miðar tilskipunin að því að tryggja vernd fjárfesta, virkni fjármálamarkaðarins í Evrópu og gegnsæi. Samræmdar og áreiðanlegar upplýsingar munu þannig auðvelda fjárfestum að athafna sig á markaðnum og draga úr kostnaði. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur viðskiptaráðherra þegar lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi (þskj. 767, 503. mál) og er það til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. mars 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Siv Friðleifsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Steingrímur J. Sigfússon.


Birgir Ármannsson.



Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.