Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 991  —  387. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 152 27. desember 1996, um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilhjálm Egilsson frá sjávarútvegsráðuneytinu, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Byggðastofnun, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi fiskeldisstöðva og Hafrannsóknastofnuninni.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins verði styttur þannig að lögin falli úr gildi 1. júlí á þessu ári. Er frumvarpið lagt fram í kjölfar þess að skylda til greiðslu í sjóðinn var felld niður samhliða upptöku veiðigjalds, sbr. lög nr. 51/2004. Gerir frumvarpið ráð fyrir að eignir sjóðsins umfram skuldir renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra verði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Meiri hluti nefndarinnar er fylgjandi efni frumvarpsins en telur þó ástæðulaust að áskilja í lögunum að andvirði sjóðsins skuli varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar heldur verði jafnframt heimilt að ráðstafa því til hafrannsókna á vegum annarra aðila í samræmi við almennar reglur um ráðstöfun fjármuna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Þá leggur meiri hlutinn til að lögin falli úr gildi 1. október 2005 í stað 1. júlí til að tryggt sé að nægilegur tími gefist til að ljúka uppgjöri sjóðsins.
    Í samræmi við framangreint leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Efnismálsliðir 1. gr. orðist svo: Lögin gilda til 1. október 2005. Skulu eignir sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna.

Alþingi, 17. mars 2005.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Guðmundur Hallvarðsson.



Magnús Stefánsson.


Birkir J. Jónsson.