Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 732. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1094  —  732. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Við veiðar á uppsjávarfiski er ekki skylt að skilja meðafla frá uppsjávarafla. Meðafli reiknast þó til aflamarks viðkomandi fiskiskips, en ráðherra setur reglur um hvernig móttakandi afla eða vigtarleyfishafi skuli standa að sýnatöku og útreikningi meðafla við löndun á uppsjávarfiski. Komi til gjaldtöku á grundvelli laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, vegna fisktegunda sem veiðast sem meðafli við veiðar á uppsjávarfiski skal gjaldið þó aldrei vera lægra en nemur 70% af meðalfiskverði sömu tegundar í næsta mánuði fyrir gjaldtöku.

2. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Útgerð og skipstjóra fiskiskips er skylt að fylgjast með stöðu aflaheimilda skipa sinna með hliðsjón af úthlutuðum aflaheimildum, flutningi aflaheimilda og lönduðum afla. Fiskistofa skal fylgjast með nýtingu fiskiskipa á aflaheimildum. Bendi upplýsingar Fiskistofu til að skip hafi veitt umfram aflaheimildir sínar í einhverri tegund skal Fiskistofa tilkynna það útgerð og skipstjóra viðkomandi skips með símskeyti og jafnframt að skipið sé svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni frá og með fjórða virka degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Telji móttakandi tilkynningar að upplýsingar Fiskistofu um afla skips séu rangar og að skipið hafi ekki veitt umfram aflaheimildir skal hann innan þriggja virkra daga koma athugasemdum á framfæri við Fiskistofu. Fiskistofa getur veitt lengri frest til athugasemda ef ástæða er til að ætla að skráning afla eða aflaheimilda sé röng. Óheimilt er að stunda veiðar í atvinnuskyni eftir að símskeyti hefur borist móttakanda nema að fenginni staðfestingu Fiskistofu. Séu aflaheimildir skips að liðnum fresti auknar þannig að afli skipsins á fiskveiðiárinu rúmist innan þeirra skal því veitt leyfi að nýju. Útgerð viðkomandi skips skal bera kostnað af símskeytum og öðrum tilkynningum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar eftir nánari reglum sem ráðherra setur og er heimilt að bæta þeim kostnaði við gjald sem greitt er fyrir tilkynningu um flutning aflamarks til viðkomandi skips, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Heimilt er Fiskistofu að fallast á að tilkynningar samkvæmt þessari grein fari fram með öðrum sannanlegum hætti en símskeyti, enda hafi útgerðir lagt fram tillögur um slíka framkvæmd sem Fiskistofa metur fullnægjandi. Ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. júní 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að heimilt verði að meta meðafla við veiðar á uppsjávarfiski til aflamarks fiskiskipa með ákveðnum hætti og hins vegar að gerðar verði nokkrar breytingar á framkvæmd leyfissviptinga vegna veiða umfram veiðiheimildir. Breytingartillögur um hvernig meðafli skuli metinn til aflamarks má rekja til tillagna frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og umgengnisnefnd. Breytingartillögur um framkvæmd leyfissviptinga verða að mestu raktar til starfs nefndar sem vinnur að úttekt á starfsumhverfi í sjávarútvegi, en hún lagði til að skoðað yrði hvernig einfalda mætti með hvað hætti Fiskistofa tilkynnti útgerðum um veiðar umfram veiðiheimildir auk þess sem útgerðum yrði gert skylt að greiða slíkan kostnað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum er það meginregla að flokka beri afla um borð í fiskiskipum og landa honum þannig og vigta hverja tegund sérstaklega. Þessi meginregla byggist á því að ella yrði allt eftirlit með nýtingu aflaheimilda óframkvæmanlegt auk þess sem hún stuðlar að betri meðferð og nýtingu aflans. Við veiðar á uppsjávarfiski geta komið upp þær aðstæður að meðafla gætir í mismiklum mæli. Gerist það helst þegar veiðar á uppsjávarfiski ganga verr vegna þess að fiskurinn er dreifður og togtími því langur. Reynt hefur verið að koma í veg fyrir meðafla með eftirliti og lokunum veiðisvæða. Auk þess eru hafnar tilraunir með skiljur í flotvörpum sem skilja eiga úr lifandi meðafla. Þó er ljóst að mjög vafasamt er að slíkar skiljur í veiðarfærum útiloki allan meðafla, einkum smærri fisk.
    Á síðustu kolmunnavertíð jókst meðafli nokkuð og leiddi það til aukinnar umræðu um hvernig með skyldi fara. Er sú tillaga sem hér er lögð fram niðurstaða þeirrar umræðu. Þess skal getið að Fiskistofa hefur í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina fylgst vel með löndunum á uppsjávarfiski og liggja fyrir upplýsingar um meðafla tvö síðustu ár.
    Ástæður þess að lagt er til að horfið verði frá því að krefjast þess að meðafli sé flokkaður skilyrðislaust frá við veiðar á uppsjávarfiski eru fyrst og fremst tvær. Í fyrsta lagi er ljóst að mörg skipanna er vanbúin til að hirða þennan fisk, halda honum aðskildum frá öðrum afla og ganga þannig frá honum að hann nýtist til manneldis. Í öðru lagi liggur fyrir að stundum er sá fiskur sem fæst sem meðafli litlu eða engu verðmætari en bræðsluafli bæði vegna lítilla gæða og smæðar. Því er lagt til að tekin verði upp aðferð til þess að meta meðafla með nákvæmum hætti og reikna hann til aflamarks viðkomandi fiskiskips. Með því vinnst það að nákvæmari upplýsingar liggja fyrir um magn meðafla sem reiknast til aflamarks veiðiskipsins og mun það hafa það í för með sér að skipstjórar munu forðast meðafla eða taka þann kostinn að skilja hann frá öðrum afla og nýta hann á sem arðbærastan hátt.
    Í lok greinarinnar segir að leiði veiðar á meðafla í einhverri tegund til þess að skip fari yfir heimildir sínar í viðkomandi tegund skuli til gjaldtöku koma á grundvelli laga nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum. Er það í samræmi við gildandi lög og framkvæmd en hins vegar er ákveðið að gjaldið skuli aldrei fara undir ákveðið viðmiðunargjald sem er lagt til að verði aldrei lægra en nemur 70% af meðalfiskverði sömu tegundar í næsta mánuði fyrir gjaldtöku. Ástæða þess að lagt er til að lágmarksverð verði tekið upp hér er eingöngu sú að í lögum nr. 37/1992 segir að gjald vegna umframafla skuli miðast við raunvirði en eins og áður segir getur meðafli haft sama raunvirði og bræðsluafli og ef gjaldtakan miðast við bræðsluvirði væri það aðhald sem reynt er að fá með þessari lagabreytingu haldlítið.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er lagt til að nokkrar breytingar verði gerðar á 1. mgr. 14. gr. laganna sem lýtur að eftirliti með nýtingu aflaheimilda og viðbrögðum Fiskistofu við því þegar veitt er umfram aflaheimildir skips. Breytingar sem í þessari grein felast eru eftirfarandi:
     1.      Áréttuð er skylda útgerðar og skipstjóra til að fylgjast með stöðu aflaheimilda skipa sinna með hliðsjón af úthlutuðum aflaheimildum, flutningi aflaheimilda og lönduðum afla en ekkert ótvírætt ákvæði hefur verið í lögunum þess efnis. Nokkur brögð hafa verið að því að útgerðarmenn hafi borið fyrir sig að þeir hefðu ekki vitneskju um aflamarksstöðu skipa sinna eða að skip þeirra væri í jákvæðri stöðu í skráningarkerfi Fiskistofu, jafnvel þótt fyrir lægi að skip þeirra hefðu landað afla sem ekki hefði verið skráður inn í kerfi Fiskistofu. Þykir ástæða til að skerpa á þessu atriði og auka ábyrgð útgerðar og skipstjóra til að fylgjast með í þessu efni.
     2.      Kveðið er skýrt á um það að eftir að Fiskistofa hefur sent hlutaðeigandi tilkynningu um að skip sé komið yfir aflaheimildir er óheimilt að stunda veiðar fyrr en Fiskistofa hefur staðfest annað. Í gildandi ákvæði segir að skipi sé eigi heimilt að stunda veiðar að liðnum þeim fjögurra daga fresti sem útgerðum er veittur til að laga aflamarksstöðu skipa sinna, en nauðsynlegt þykir að ótvírætt sé að skylt sé að stöðva veiðar þegar tilkynning berst um að veitt hafi verið umfram aflaheimildir. Heimilt er síðan að hefja veiðar aftur þegar aflamarksstaða skips hefur verið lagfærð.
     3.      Þá er gert ráð fyrir að útgerðir beri kostnað af þeim símskeytum sem Fiskistofa sendir til að vara útgerðir og skipstjóra við því að skip þeirra hafi veitt umfram aflaheimildir. Fiskistofa hefur haft verulegan kostnað af slíkum skeytasendingum. Hins vegar er uppistaða skeytanna send tiltölulega fáum aðilum og virðist sem sumir þeirra bregðist ekki við fyrr en að fengnu skeyti Fiskistofu. Þykir rétt að útgerðir beri sjálfar þann kostnað enda er þeim skylt að tryggja að nægar aflaheimildir séu á skipum sínum. Er gert ráð fyrir að þessi kostnaður verði að jafnaði innheimtur samhliða þeim kostnaði sem greiddur er vegna flutnings aflamarks milli skipa.
     4.      Að lokum er hér lagt til að hægt verði að tilkynna útgerðum um umframveiði með öðrum hætti en símskeytum. Hins vegar þarf að vera ljóst fyrir fram hvernig það verði gert svo að ekki komi upp vafi eftir á um það hvað Fiskistofu og viðkomandi útgerð hefur farið á milli. Þykir því rétt að útgerðir geri tillögur til Fiskistofu um hvernig staðið verði að slíkum tilkynningum. Ef Fiskistofa getur fallist á það fyrirkomulag þá verði að þeim tillögum farið. Ljóst er að ef unnt er að koma slíkum tilkynningum í öruggan farveg mætti spara nokkurn kostnað.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996,
um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að meta meðafla við veiðar á uppsjávarfiski til aflamarks fiskiskipa með hagkvæmari og nákvæmari hætti en áður og hins vegar að gerðar verði nokkrar breytingar á framkvæmd leyfissviptinga vegna veiða umfram veiðiheimildir. Á árinu 2004 bar Fiskistofa 6,3 m.kr. kostnað af skeytasendingum til þeirra skipa sem veitt hafa umfram aflaheimildir. Verði frumvarpið að lögum mun sá kostnaður færast yfir á útgerðir viðkomandi skips skv. 2. gr. frumvarpsins og innheimtast á sama hátt og gjald fyrir flutning aflamarks.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.