Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 605. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1132  —  605. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2004, um breytingar á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti og Hallgrím Ásgeirsson frá Seðlabanka Íslands.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 106/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB frá 6. júní 2002 um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
    Tilskipunin er liður í aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins frá 11. maí 1999 um þróun fjármálaþjónustu og fjármagnsmarkaða innan Evrópusambandsins og er meginmarkmið hennar að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og stöðugleika fjármálakerfisins. Tilskipunin kveður á um samræmdar reglur um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir en þær felast í tvíhliða samningum um veðsetningu og framsal verðbréfa og reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur dómsmálaráðherra þegar lagt fram lagafrumvarp þess efnis (þskj. 1015, 667. mál) og er það nú til meðferðar í allsherjarnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 6. apríl 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Siv Friðleifsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.