Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 686. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1175  —  686. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti og Ólaf Kjartansson og Guðlaug Sverrisson frá Úrvinnslusjóði.
    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögunum að vaxtatekjur af úrvinnslugjaldi skuli renna til Úrvinnslusjóðs. Hins vegar er lagt til að gildistöku ákvæðis sem heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðir verði frestað til 1. janúar 2006, um fjóra mánuði, sbr. ákvæði til bráðabirgða II og III í lögunum.
    Hvað varðar vaxtatekjurnar er nefndin sammála rökum þeim sem fram koma í athugasemdum við frumvarpið og telur að um sanngjarna og eðlilega breytingu sé að ræða. Hins vegar telur nefndin bagalegt að fresta þurfi enn á ný gildistöku ákvæðis sem heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðir. Fram kom í máli gesta að 15% reiknireglan væri ónákvæm og stefnt væri að því að leggja fram nýtt frumvarp í haust með nákvæmari reiknireglum. Það er mat nefndarinnar að betra sé að vanda til verka og hún leggur áherslu á að vinnu við smíði nýrra reiknireglna og annarri vinnu sem nauðsynleg er í því sambandi, svo sem breytingum á tölvukerfum, verði lokið á tilsettum tíma svo að ekki þurfi að koma til frekari frestunar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristinn H. Gunnarsson, Mörður Árnason og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. apríl 2005.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Gunnar Birgisson.



Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.