Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 295. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1193  —  295. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur og Ingibjörgu Halldórsdóttur frá umhverfisráðuneyti, Arnbjörn Vilhjálmsson, skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, Svein Sæland frá Bláskógabyggð, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Bjarna Helgason frá Félagi jarðeigenda við Þingvallavatn. Umsagnir bárust nefndinni frá Helga Þórssyni og Sveinbirni Dagssyni.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 130. löggjafarþingi en þá var jafnframt lagt fram af hálfu forsætisráðherra frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum sem var samþykkt, sbr. lög nr. 47/2004. Á því þingi var fyrrnefnda frumvarpið sent til umsagnar og bárust nefndinni umsagnir frá Helga Þórssyni, Grímsnes- og Grafningshreppi, Félagi jarðeigenda við Þingvallavatn, Veiðimálastofnun, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Orkustofnun, Landgræðslu ríkisins, Landmælingum Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Þjóðminjasafni Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Veiðifélagi Þingvallavatns, Náttúrufræðistofnun Íslands og Bláskógabyggð. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu á því þingi og er nú lagt fram að nýju að mestu efnislega óbreytt.
    Tilgangur frumvarpsins er að stuðla að verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Nefndin fagnar frumvarpinu en telur rétt að gera nokkrar breytingar á því.
    Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað m.a. um skyldu ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd vatnsverndar. Nefndin leggur til að fallið verði frá því að ráðherra verði heimilt að kveða í reglunum á um að þeir þættir sem taldir eru upp í greininni séu háðir sérstöku leyfi ráðherra. Þess í stað leggur nefndin til að í fyrrnefndum reglum um framkvæmd vatnsverndar verði sett ákvæði um a.m.k. þá þætti sem taldir eru upp í greininni, t.d. jarðrask, byggingu mannvirkja og borun eftir vatni auk reglna um flutning og meðferð hættulegra efna. Af þessu leiðir að 4. málsl. 1. mgr. 3. gr. á ekki lengur við en hann fjallar um heimild ráðherra til að binda leyfi ákveðnum skilyrðum. Nefndin leggur til að í stað þess ákvæðis komi nýtt efnisákvæði sem heimili sveitarstjórn að binda byggingar- og framkvæmdaleyfi sem hún gefur út á grundvelli skipulags- og byggingarlaga skilyrðum um verndun vegna framkvæmda innan verndarsvæðisins enda séu skilyrðin í samræmi við ákvæði frumvarpsins og reglur sem settar eru á grundvelli 1. mgr. Telur nefndin nauðsynlegt að sveitarstjórnum sé í lögum um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess falin heimild til að binda umrædd leyfi skilyrðum svo að tryggja megi þau verndarsjónarmið sem að öðru leyti koma fram í frumvarpinu. Með þessu telur nefndin að komið sé að nokkru til móts við sjónarmið sveitarfélaganna á svæðinu um að auka hlutverk þeirra frá því sem er í frumvarpinu. Þá leggur nefndin til að 3. mgr., er kveður á um að ákvarðanir samkvæmt greininni skuli birta í Stjórnartíðindum, verði hnýtt aftan við 2. mgr., er verður 3. mgr., enda eingöngu um að ræða ákvarðanir samkvæmt þeirri málsgrein þegar tekið hefur verið tillit til annarra breytinga sem nefndin leggur til varðandi 3. gr.
    Nefndin leggur til breytingu á 4. gr. frumvarpsins þess efnis að fiskeldi verði alfarið bannað í eða við Þingvallavatn. Telur nefndin ekki ástæðu til að opna fyrir slíka starfsemi á svæðinu.
    Þá leggur nefndin til orðalagsbreytingar í 2. mgr. 5. gr. Í fyrsta lagi að í stað orðanna „til framkvæmda á ráðstöfunum“ komi „ráðstafana“ og í öðru lagi að kveðið sé skýrar á um grundvöll dagsektarheimildarinnar, þ.e. að hann sé bæði lögin og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim. Notast er við sama orðalag og í 1. mgr. 5. gr. hvað þetta varðar.
    Loks leggur nefndin til breytingu á 6. gr. frumvarpsins þannig að tiltekið sé um hvað þær greinar í lögum um náttúruvernd fjalla sem vísað er til. Telur nefndin þá breytingu gera ákvæðið skýrara og vera til bóta.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson áheyrnarfulltrúi voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. apríl 2005.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Gunnar Birgisson.


Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir.



Mörður Árnason.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.