Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 435. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1196  —  435. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn..

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Gylfa Kristinsson frá félagsmálaráðuneyti, Bjarna Þór Eyvindsson frá Samtökum unglækna, Gunnar Björnsson frá fjármálaráðuneyti, Guðríði Þorsteinsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 45/2004 frá 23. apríl 2004, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma
    Vinnutímatilskipunin felur í sér lágmarksreglur um skipulag vinnutíma að teknu tilliti til öryggis og heilbrigðis starfsmanna. Tilskipunin gildir um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma, árlegt orlof, um hlé og hámarksvinnutíma á viku og tiltekna þætti í tengslum við næturvinnu, vaktavinnu og vinnumynstur.
    Vinnutímatilskipunin hefur verið innleidd í íslenskan rétt að því er flestar starfsgreinar varðar. Innleiðing tilskipunar þessarar kallar á lagabreytingar hér á landi en einnig er mögulegt að innleiða efni hennar með kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins.
    Við meðferð málsins í nefndinni var einkum rætt um lækna í starfsnámi en ljóst er að vinnutími unglækna er oft og tíðum mjög langur sem kemur bæði niður á læknum og sjúklingum. Af þeim sökum telur nefndin brýnt að löggjafinn, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins bregðist við og geri nauðsynlegar breytingar sem fyrst en tilskipunin virðist veita nokkurt svigrúm hvað nokkrar stéttir varðar þar á meðal heilbrigðisstarfsmenn.
    Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Ögmundur Jónasson ritar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 22. apríl 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Dagný Jónsdóttir.



Drífa Hjartardóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.