Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 441. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1198  —  441. mál.




Nefndarálit



um frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2003.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi tillögur um breytingar á fjárheimildum og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok. Enn fremur var óskað eftir áliti frá Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun telur að úrbóta sé þörf varðandi framkvæmd fjárlaga, gerð fjáraukalaga og lokafjárlaga og að tryggja þurfi betur samræmi á milli framsetningar ríkisreiknings og fjárlaga. Fjármálaráðuneyti tók undir ábendingar Ríkisendurskoðunar um að óeðlilegt sé að úthluta af safnliðum eftir að reikningsári er lokið og að gera eigi þá kröfu að fjárheimildir stofnana liggi fyrir eins fljótt og auðið er.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til 1.820,8 m.kr. hækkun fjárheimilda vegna frávika ríkistekna frá áætlun fjárlaga. Í 2. gr. er lagt til að niður falli 5.746,5 m.kr. gjöld umfram heimildir og í 3. gr. er lögð til 961,6 m.kr. hækkun fjárheimilda vegna færslu endurmatsreikninga á höfuðstól, flutninga á stöðu höfuðstóls milli A-, B- og C-hluta fjárlaga og annarrar samræmingar á stöðu fjárheimilda milli lokafjárlaga og ríkisreiknings.
    Heildarfjárheimildir ársins námu 284,5 milljörðum kr. en útgjöld samkvæmt reikningi urðu tæpir 280,4 milljarðar kr. Fjárheimildastaða í árslok er því jákvæð um 4,1 milljarð kr. nettó.
    Meiri hlutinn leggur til 21 breytingu við frumvarpið, sem leiða til alls 591,3 m.kr. nettóhækkunar á fjárheimildum, til frekari samræmingar við niðurstöður ríkisreiknings fyrir árið 2003. Framlag ríkissjóðs hækkar um 87,8 m.kr. en 503,5 m.kr. eru fjármagnaðar með viðskiptahreyfingum.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hlutans.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


02 Menntamálaráðuneyti

215     Kennaraháskóli Íslands og 720 Grunnskólar, almennt.
        Lagt er til að millifærð verði 14,6 m.kr. fjárheimild af lið 02-215 Kennaraháskóli Íslands á lið 02-720 Grunnskólar, almennt, til samræmis við stöðu í reikningi.
             Í fjárheimildagrunni lokafjárlaga fyrir árið 2000 var 14,6 m.kr. neikvæð staða á viðfangi 02-215-1.20 Endurmenntun sameinuð viðfanginu 02-720-1.37 Endurmenntun þar sem fyrrnefnda viðfangið hafði fallið út úr fjárlögum 2000 en hið síðarnefnda tekið við verkefninu. Í reikningi var staðan hins vegar sameinuð viðfanginu 02-215-1.01 Kennsla.
973    Þjóðleikhús. Lagt er til að fjárheimild liðarins lækki um 14,1 m.kr. en þegar stofnunin var flutt úr B-hluta í A-hluta á árinu 2001 var höfuðstóll hennar ofmetinn um rúmar 14 m.kr. Ofmatið var leiðrétt í reikningi 2002 en láðst hefur að taka tillit til þess í lokafjárlögum.

03 Utanríkisráðuneyti

101     Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Yfirstjórn. Lagt er til að millifærð verði 11 m.kr. fjárheimild af viðfangi 03-190- 1.31 Nefnd um landgrunnsmörk Íslands yfir á viðfang 03-101-1.01 Yfirstjórn.
             Árið 2003 var 11 m.kr. afgangsheimild frá árinu 2002 á viðfangi 03-190-1.31 Nefnd um landgrunnsmörk Íslands millifærð í reikningi á viðfang yfirstjórnar hjá aðalskrifstofu utanríkisráðuneytis því að þar hafði kostnaðurinn verið gjaldfærður. Sú millifærsla var hins vegar ekki tekin inn í fjárheimildagrunn lokafjárlagafrumvarps fyrir árið 2003 því að samkvæmt lokafjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 átti þessi afgangur að falla niður og var því ekki til ráðstöfunar. Í uppprentuðu lokafjárlagafrumvarpi fyrir árið 2003 hefur verið horfið frá þeirri niðurfellingu og því er lagt til að millifærslan verði tekin inn í fjárheimildir lokafjárlaga til samræmis við reikning.
         1.02 Varnarmálaskrifstofa. Lagt er til að fjárheimild liðarins hækki um 1,2 m.kr.
             Á árinu 2000 urðu tekjur af lóðarleigu á varnarsvæðum um 8,8 m.kr. eða 1,2 m.kr. lægri en reiknað hafði verið með í fjárlögum. Engin heimildalækkun var færð í reikning vegna þessa en í lokafjárlögum 2000 var heimild á viðfangi 1.02 Varnarmálaskrifstofa lækkuð um 1,2 m.kr. Með þessari breytingu er sú lækkun tekin til baka, til samræmis við ríkisreikning.
190    Ýmis verkefni.
         1.31 Nefnd um landgrunnsmörk Íslands. Millifærð er 11 m.kr. fjárheimild af liðnum á lið 1.01 Yfirstjórn eins og að framan greinir.
391    Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi. Lagt er til að fjárheimild á viðfangi 1.10 Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna lækki um 3,4 m.kr. og að fjárheimild á viðfangi 1.15 Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna lækki um 2,6 m.kr. til samræmis við ríkisreikning.
401    Alþjóðastofnanir. Lagt er til að fjárheimild á viðfangi 1.85 Alþjóðleg friðargæsla lækki um 7,5 m.kr. til samræmis við ríkisreikning.

04 Landbúnaðarráðuneyti

311    Landgræðsla ríkisins og 04-341 Átak í landgræðslu og skógrækt. Lagt er til að millifærð verði 1,5 m.kr. fjárheimild af lið 04-341 Átak í landgræðslu og skógrækt á lið 04-311 Landgræðsla ríkisins til samræmis við millifærslu í ríkisreikningi 2001.
321    Skógrækt ríkisins. Lagt er til að fjárheimild liðarins hækki um 1,3 m.kr. á viðfangi 6.20 Fasteignir vegna tekna af sölu á fasteign (skúr), í samræmi við ríkisreikning 2002.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

190    Ýmis verkefni. Lagt er til að fjárheimild á viðfangi 1.46 Könnun leiða til fiskveiðistjórnunar og eftirlits hækki um 3,3 m.kr. til samræmis við reikning og að fjárheimild á viðfangi 1.90 Ýmislegt hækki um 1,7 m.kr. til að leiðrétta misræmi milli lokafjárlaga 2000 og upphafsstöðu í reikningi 2001.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

190    Ýmis verkefni. Til að jafna út mismun milli lokafjárlaga og ríkisreiknings er lagt til að fjárheimild á viðfangi 1.10 Fastanefndir hækki um 3,1 m.kr.

07 Félagsmálaráðuneyti

190    Ýmis verkefni. Til að jafna út mismun milli lokafjárlaga og ríkisreiknings er lagt til að fjárheimild á viðfangi 1.11 Fjölskylduráð lækki um 1,6 m.kr.
706    Málefni fatlaðra, Norðurlandi eystra. Lagt er til að fjárheimild á liðnum hækki um 1,5 m.kr. og verði því á núlli í árslok til samræmis við reikning.


08
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

553    Samningur við Akureyrarbæ um heilsugæslu. Til að jafna út mismun milli lokafjárlaga og ríkisreiknings er lagt til að fjárheimild liðarins hækki um 24,8 m.kr. og verði því á núlli í árslok 2003.
             Uppistaða þessa mismunar rekur sig aftur til lokafjárlaga ársins 1998 er 25,2 m.kr. inneign var felld niður af liðnum (sem þá hét reyndar Reynslusveitarfélagið Akureyri, en heiti liðarins var breytt í núverandi heiti árið 2003). Staða liðarins var hins vegar flutt í reikningi og frá árinu 2000 hefur staða hans einnig verið flutt í lokafjárlögum. Afrúnningur í millifærslum á liðnum er 0,4 m.kr.

09 Fjármálaráðuneyti

201    Ríkisskattstjóri og 212 Skatta- og tollamál, ýmis útgjöld. Lagt er til að millifærð verði 6 m.kr. fjárheimild af lið 09-201 á lið 09-212.
             Liður 09-995 Skýrsluvélakostnaður féll út úr fjárlögum 2002 og fjárveitingar til verkefna sem þar höfðu verið vistuð voru fluttar annað, ýmist til Fjársýslu ríkisins, Ríkisskattstjóra, Tollstjórans í Reykjavík eða á Skatta- og tollamál, ýmis útgjöld. Á árinu 2002 voru árslokastöður 2001 fluttar af lið 09-995 á þá liði sem tóku við verkefnunum, bæði í reikningi og fjárheimildagrunni lokafjárlagafrumvarps 2002. Ekki tókst þó betur til en svo að ekki var fullt samræmi í skiptingu stöðunnar milli reiknings og lokafjárlaga. Til að samræma stöðu lokafjárlaga við ríkisreikning er lagt til að 6 m.kr. verði millifærðar af lið 09-201 Ríkisskattstjóri á lið 09-212 Skatta- og tollamál, ýmis útgjöld.
981    Ýmsar fasteignir ríkissjóðs.
        Lagt er til að fjárheimild á viðfangi 5.21 Viðhald hækki um 4,5 m.kr. til samræmis við reikning.
999    Ýmislegt. Lagt er til að fjárheimildir liðarins hækki um 53 m.kr. til samræmis við stöðu reiknings.
             Í áranna rás hefur mismunandi aðferð í reikningi og lokafjárlögum hvað varðar niðurfellingar eða yfirfærslur á árslokastöðum hinna einsöku viðfangsefna liðarins leitt til þess að fjárhæðir stemma ekki milli kerfa. Til að leiðrétta það er lagt til að breytingar verði gerðar á báðum stöðum. Lagt er til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á fjárheimildum í lokafjárlögum: Fjárheimild á viðfangi 1.12 Greiðslur til samtaka höfundarrétthafa lækki um 3,3 m.kr., fjárheimild á viðfangi 1.15 Kjararannsóknir hækki um 2,2 m.kr., fjárheimild á viðfangi 1.20 Endurgreiðslur til sveitarfélaga lækki um 0,6 m.kr., fjárheimild á viðfangi 1.45 Ýmsar nefndir hækki um 14,6 m.kr., fjárheimild á viðfangi 1.65 Kjaranefnd hækki um 34,4 m.kr. og fjárheimild á viðfangi 1.66 Yfirfasteignamatsnefnd hækki um 5,7 m.kr.

10 Samgönguráðuneyti

211    Vegagerðin. Til að samræma fjárheimildastöðu lokafjárlaga 2003 við höfuðstól stofnunarinnar í árslok er lagt til að fjárheimildastaða hennar hækki um 517,6 m.kr. og verði 3.315,7 m.kr. í árslok 2003.
             Samkvæmt ríkisreikningi er höfuðstóll stofnunarinnar 3.315,7 m.kr. í árslok 2003, eða 517,6 m.kr. hærri en fjárheimildastaða hennar samkvæmt framlögðu lokafjárlagafrumvarpi, sem er 2.798,1 m.kr. Stærstur hluti af þessum mun skýrist af því að frá árinu 2001 hafa afskriftir af mörkuðum tekjum til vegamála ásamt verðbótum á ferjulán verið gjaldfærð í reikningum Vegagerðarinnar án þess að gert hafi verið ráð fyrir þessum kostnaði í fjárveitingum til stofnunarinnar. Á árunum 2001, 2002 og 2003 nemur þessi kostnaður alls 378,5 m.kr. Í uppgjöri lokafjárlaga hefur þessi kostnaður gengið á móti fjárheimildum eins og önnur gjöld stofnunarinnar og þannig lækkað fjárheimildastöðu hennar. Í uppgjöri ríkisreiknings hefur hins vegar verið litið svo á, bæði með hliðsjón af vegáætlun og forsendum fjárlaga, að kostnaður þessi hafi ekki átt að leiða til skerðingar á framkvæmdaheimildum Vegagerðarinnar og þar hefur hann því verið fluttur á bundið eigið fé, undir öðru eigin fé stofnunarinnar, og þannig ekki skert höfuðstól. Í öðru lagi er um að ræða mismun þar sem í reikningi hefur verið gert ráð fyrir 16,6 m.kr. hærri fjárheimildum vegna frávika ríkistekna á árunum 1998, 1999 og 2000. Í þriðja lagi stafar mismunur af því að í reikningi hefur ekki verið millifærð 2,4 m.kr. árslokastaða 2001 frá Flugmálastjórn til Vegagerðarinnar eins og gert var í fjárheimildagrunni lokafjárlagafrumvarps fyrir árið 2002 í samræmi við það að viðfangsefnið Styrkir til innanlandsflugs var flutt frá Flugmálastjórn til Vegagerðarinnar í fjárlögum ársins 2002. Þetta þrennt sem hér hefur verið upp talið leiðir til 392,7 m.kr. hærri höfuðstóls miðað við fjárheimildastöðu lokafjárlagafrumvarps. Eftir stendur því óskýrður munur að fjárhæð 124,9 m.kr. sem ekki hefur tekist að finna út í hverju liggur, en kann að teygja sig mörg ár aftur í tímann. Með hliðsjón af framangreindu og því að fyrrgreindur höfuðstóll stofnunarinnar var yfirfarinn og samþykktur af fulltrúum fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar á fundi þann 14. febrúar sl. er hér lagt til að fjárheimildastaða stofnunarinnar í árslok 2003 verði færð til samræmis við höfuðstól í árslok samkvæmt ríkisreikningi 2003 og hækki um 517,6 m.kr. Vakin er athygli á því að ekki er um að ræða hækkun á framlagi ríkissjóðs til Vegagerðarinnar heldur er hækkunin fjármögnuð með viðskiptahreyfingu af mörkuðum tekjum til vegamála.
471    Flugmálastjórn. Lagt er til að fjárheimildir stofnunarinnar í lokafjárlögum hækki um 8,5 m.kr. en að í reikningi lækki höfuðstóll um 114 m.kr. Verður þá höfuðstóll í reikningi jafn fjárheimildastöðu lokafjárlaga.

    Aðrar breytingar sem gera þarf til samræmingar á fjárheimildastöðum og höfuðstól í árslok 2003 verða gerðar í reikningi. Þær breytingar verða teknar inn í ríkisreikning 2004, yfirleitt sem leiðrétting á upphafsstöðu ársins.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 26. apríl 2005.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Bjarni Benediktsson.



Drífa Hjartardóttir.


Ásta Möller.


Hjálmar Árnason.