Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 364. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1202  —  364. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skattskyldu orkufyrirtækja.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið er það lagt fram í kjölfar þess að árið 2003 voru sett ný raforkulög og er tilgangur frumvarpsins að afnema þær undanþágur sem orkufyrirtæki hafa haft frá tekjuskatti og eignarskatti. Fyrrnefnd raforkulög voru sett með það að markmiði að koma á samkeppnismarkaði í orkumálum landsmanna í samræmi við orkumálatilskipun Evrópusambandsins. Einn liður í því var að hluta orkufyrirtækin niður þannig að vinnsla, flutningur og dreifing raforku færi fram í þremur aðskildum fyrirtækjum til að auka svonefnt gagnsæi í rekstri orkufyrirtækjanna. Þrátt fyrir ítrekuð og vel tímanleg varnaðarorð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um það vandræðaástand sem til yrði í orkumálum á Íslandi hirti ríkisstjórnin ekki um að fá undanþágu frá tilskipuninni vegna aðstæðna hér á landi. Hér er því komið enn eitt frumvarpið sem miðar að því að fækka agnúum hins nýja fyrirkomulags. Athygli vekur að starfshópur fjármálaráðherra hefur glímt við þetta verkefni frá því í desember árið 2000.
    Fyrsti minni hluti leggst eindregið gegn frumvarpinu, fyrst og fremst vegna þess að það byggist á hugmyndum um markaðsvæðingu í almannaþjónustu og skattapólitík sem er andstæð hagsmunum almennings. Hér verður gerð nánari grein fyrir þeirri afstöðu og öðru sem 1. minni hluti telur athugavert við frumvarpið.
    Orkufyrirtæki á Íslandi eru ekki aðeins ólík að stærð heldur einnig að því leyti að sum þeirra fást ekki aðeins við smásölu á raforku heldur einnig dreifingu og sölu á heitu vatni, jafnvel einnig venjulegu neysluvatni. Þau eiga það hins vegar flest sameiginlegt að starfsemi þeirra snýst um að koma tilteknum lífsnauðsynjum til almennings eftir veitukerfum sem komið var á fót með samfélagslegu framtaki á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þetta eru fyrirtæki sem fást við almannaþjónustu sem hefur lengi verið talin sjálfsagður hluti af mannsæmandi lífi á Íslandi og aðstaða þeirra veitir þeim svokallaða náttúrulega einokun á sínu sviði.     Á þessum hugmyndafræðilegu forsendum hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð ávallt lagt ríka áherslu á að slík veitustarfsemi sé í sameign fólksins sem nýtir þjónustuna og að hún sé rekin þannig að almenningur geti bæði búið við mikið öryggi og lágmarksgjaldtöku.
    Breytingar ríkisstjórnarinnar á skipan raforkumála á síðustu árum hafa gengið gegn þessu markmiði. Er í því sambandi skemmst að minnast stórfelldra gjaldskrárhækkana um land allt um síðustu áramót eftir að orkufyrirtækjum var gert að reikna sér arð af starfseminni og láta hvern einstakan þátt starfseminnar standa undir sjálfum sér upp á krónur og aura. Það gefur auga leið að verði þetta skattheimtufrumvarp að lögum munu orkufyrirtækin velta þeim álögum beint út í verðlagningu sinnar þjónustu og hækka gjaldskrár sínar enn frekar.
    Í reynd er hér á ferðinni frumvarp um aukna skattlagningu almennings sem nú hefur í rétt tíu ár verið látinn bera sívaxandi hlutfall af heildarskattbyrði allra framteljenda í landinu. Á sama tíma njóta stóriðjufyrirtæki áfram sérstaks útsöluverðs á raforku til sinnar starfsemi og endalausra skattfríðinda en hvort tveggja er í boði almennings samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í þessu óréttlæti kristallast skattastefna ríkisstjórnarinnar sem eigi að síður lætur í veðri vaka að hún reyni stöðugt að bæta lífskjör almennings með breyttri skattheimtu. Það sem gerir þetta skattheimtufrumvarp sérstakt er að það miðar að því að færa ríkinu auknar tekjur með nýrri skattlagningu á lífsnauðsynjar sem fram til þessa hafa verið undanþegnar skatti. Enginn getur verið án rafmagns, húshitunar eða annarrar þjónustu sem almenningur sækir til þeirra fyrirtækja sem hér eiga í hlut.
    Fyrsti minni hluti telur einnig rétt að vekja máls á því að engin tilraun er gerð til að viðurkenna þann mikla mun sem er á tilteknum tegundum virkjana í umhverfislegu tilliti heldur er lagður sami flati skatturinn á alla aðila. Eðlilegra hefði verið að hvetja með einhverjum hætti til umhverfisvænnar orkuvinnslu úr því að efnt er til þessarar skattlagningar á annað borð. Þannig er það mjög athugavert að skattleggja eigi t.d. smáar rennslisvirkjanir til jafns við risavaxnar vatnsaflsvirkjanir með stórum uppistöðulónum.
    Fyrsti minni hluti telur frumvarpið sýna enn og aftur hversu misráðið það var af ríkisstjórninni að leggja í þá vegferð að markaðsvæða jafn mikilvæga almannaþjónustu og veitustarfsemi landsmanna. Nær væri að hefja vinnu við að vinda ofan af þeim vandamálum sem sú markaðsvæðing hefur nú þegar haft í för með sér heldur en að auka enn frekar á þá mismunun og ringulreið sem af henni hefur hlotist. Því er lagt til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 26. apríl 2005.



Ögmundur Jónasson.




Fylgiskjal I.


Umsögn Aþýðusambands Íslands.


(4. mars 2005.)


    Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja, 364. mál.
    Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að markmiðið er að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði í takt við almenn samkeppnissjónarmið. Þegar nánar er gáð þá felast í þessu frumvarpi verulegar breytingar á skattalegu umhverfi veitufyrirtækja, fyrirtækja sem hafa verið í eigu sveitarfélaga og hafa veitt þjónustu sem hingað til hefur verið litið á sem samfélagslega þjónustu.
    Með gildistöku nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, urðu miklar breytingar á umhverfi raforkufyrirtækja. Umrædd lög fela í sér aðskilnað milli framleiðslu, flutnings, dreifingu og sölu á raforku. Ásamt því að markaðleg arðsemiskrafa er sett á rekstur þeirra. Í kjölfar síðustu breytinga á raforkumarkaði, sem tóku gildi um síðustu áramót þegar flutningur og dreifing á raforku var aðskilin, urðu miklar hækkanir á raforku. Orkufyrirtækin rökstuddu hækkanirnar með auknum kostnaði sem þau hefðu orðið fyrir við kerfisbreytinguna á raforkumarkaði. Breytingarnar á raforkumarkaði eru ekki að fullu komnar til framkvæmda. Um næstu áramót verður sala á raforku verður að full gefin frjáls. Reynsla annarra þjóða sýnir það muni taka raforkumarkaðinn allnokkurn tíma að ná nýju jafnvægi. Því er það óráðlegt að ráðast í aðrar umfangs miklar breytingar á umhverfi orkufyrirtækja án þess að áhrif nýrra raforkulaga verða komin í ljós.

    Það er vert að benda á í þessu sambandi að þrátt fyrir að markmið nýrra raforkulaga sé að auka samkeppni á orkumarkaði er ljóst að hún mun verða takmörkuð. Skýrist það af smæð markaðarins og landfræðilegri legu landsins. Það er því líklegt að hér á landi muni í besta falli ríkja fákeppni á raforkumarkaði. Það eru sterkar líkur á því að fyrirtækin muni nýta sér þessar aðstæður á markaði og velta útgjöldum vegna tekju- og eignaskatts út í verðlag á orku og það mun koma mest niður á almennum neytendum.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að erfitt er að leggja mat á áhrif þessara breytinga á raforkuverð og arðsemi orkufyrirtækja.
    Alþýðusambandið telur það óásættanlegt að ráðist verði í frekari umbreytingar á orkumarkaði án þess að lagt verði mat á áhrif þeirra fyrir neytendur.
    Alþýðusambandi leggur því til að frumvarpið verði ekki samþykkt.

F.h. Alþýðusambands Íslands,



Ingunn S. Þorsteinsdóttir, hagfræðingur.





Fylgiskjal II.


Umsögn BSRB.


(21. mars 2005.)


    Með nýjum orkulögum er stefnt að markaðsvæðingu orkugeirans. Ekki er líklegt að á Íslandi verði í fyrirsjáanlegri framtíð mikil samkeppni á þessu sviði. Þvert á móti er líklegt að fákeppni verði upp á teningnum og lítil hvatning þar af leiðandi fyrir orkufyrirtæki að halda niðri kostnaði í samkeppni um notendur. Þegar hafa breytingar vegna laga um endurskipulagningu raforkugeirans haft í för með sér hækkun á raforkuverði og er fyrirsjáanlegt af framangreindum ástæðum að auknum kostnaði verði áfram velt yfir á notendur. Þá má nefna að stórnotendum í stóriðju er veittur afláttur af orkuverði, iðulega í föstum samningum auk þess sem þeir búa við skattfríðindi. Skattaálögur á orkuiðnaðinn mun enn auka á þá mismunun sem almennir notendur búa við annars vegar og stóriðjan hins vegar.
    Þá er rétt að nefna að orkuveitur eru margar í eigu sveitarfélaga sem hafa af þeim arð. Skattlagning orkugeirans eins og frumvarpið gerir ráð fyrir mun veita fjármunum í ríkissjóð. Afleiðingarnar munu verða þær að möguleikar sveitarfélaganna til að beina fjármagni úr orkustofnunum sínum inn í aðra samneyslu á vegum sveitarfélagsins verða minni fyrir vikið.
Afstaða BSRB er eindregið sú að grunnþjónusta á borð við raforku og hitaveitu svo og almennar vatnsveitur eigi að vera í eigu ríkis og sveitarfélaga og reksturinn undir handarjaðri hins opinbera. Slík þjónusta á að vera undanskilin skattlagningu. Í samræmi við þetta leggst BSRB gegn samþykkt þessa frumvarps.

f.h. BSRB



Svanhildur Halldórsdóttir.





Fylgiskjal III.


Umsögn sambands íslenskra sveitarfélaga.


(17. febrúar 2005.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Samband íslenskra sveitarfélaga



Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal IV.


Umsögn Reykjavíkurborgar.


(3. mars 2005.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.










Gunnar Eydal.



Fylgiskjal V.

Umsögn Orkuveitu Reykjavíkur.


(28. febrúar 2005.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,



Guðmundur Þóroddsson, forstjóri.





Fylgiskjal VI.

Umsögn Hitaveitu Suðurnesja.


(28. febrúar 2005.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,


f.h. Hitaveitu Suðurnesja h.f.,



Júlíus J. Jónsson, forstjóri.