Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 364. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1204  —  364. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skattskyldu orkufyrirtækja.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Með gildistöku nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, urðu miklar breytingar á umhverfi raforkufyrirtækja. Umrædd lög fela í sér aðskilnað milli framleiðslu, flutnings, dreifingar og sölu á raforku, ásamt því að gerð er markaðsleg arðsemiskrafa á rekstur þeirra. Í kjölfar síðustu breytinga á raforkumarkaði, sem tóku gildi um síðustu áramót þegar flutningur og dreifing á raforku voru aðskilin, urðu miklar hækkanir á raforku. Orkufyrirtækin rökstuddu hækkanirnar með auknum kostnaði sem þau hefðu orðið fyrir við kerfisbreytinguna á raforkumarkaði. Breytingar á raforkumarkaði eru ekki að fullu komnar til framkvæmda. Um næstu áramót verður sala á raforku að fullu gefin frjáls. Reynsla annarra þjóða sýnir að það muni taka raforkumarkaðinn allnokkurn tíma að ná nýju jafnvægi. Því er óráðlegt að ráðast í aðrar umfangsmiklar breytingar á umhverfi orkufyrirtækja án þess að áhrif nýrra raforkulaga verði komin í ljós.
    Hér verður að hafa í huga að samkeppni á raforkumarkaði verður aldrei mikil. Skýrist það af smæð markaðarins og legu landsins. Það er því líklegt að hér á landi muni í besta falli ríkja fákeppni á raforkumarkaði. Í ljósi reynslunnar af breytingunum á skipulagi raforkumarkaðarins er afar líklegt að fyrirtækin muni velta útgjöldum vegna tekjuskatts yfir á almenning.
    Þá leggst 2. minni hluti alfarið gegn því að hitaveitur og vatnsveitur verði skattlagðar, enda stenst sú skattlagning ekki við nein efnisleg rök. Að óbreyttu munu breytingarnar leiða til þess að allar hitaveitur verða skattskyldar, svo og vatnsveitur sem reknar eru á vegum fyrirtækja sem sameiginlega annast rekstur rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna, svo sem Hitaveita Suðurnesja og Norðurorka. Hún mun leiða til hækkunar á gjaldskrám umræddra fyrirtækja eða til lækkunar á arði sem sveitarfélögin hafa haft af þessari starfsemi. Þá er rétt að taka fram að engin tilraun var gerð til að meta áhrif þessara breytinga á gjaldskrá og algerlega nauðsynlegt að mati 2. minni hluta að slík úttekt fari fram áður en svona kerfisbreyting á sér stað.
    Eftirfarandi er yfirlit yfir hagnað nokkurra veitufyrirtækja í eigu sveitarfélaga árin 2002 og 2003. Þar kemur fram hver skattgreiðsla hefði verið til ríkisins ef fyrirtækin hefðu verið skattskyld. Þarna er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps ef eitthvað hefur verið heldur aðeins miðað við hagnað samkvæmt ársreikningum.






Prentað upp.


Hagnaður nokkurra veitufyrirtækja sveitarfélaga árin 2002 og 2003 (í þús. kr.).

2002 2003
Húsavík 103.451 20.948
Norðurorka 131.195 66.060
OR 2.895.162 1.225.609
HS 807.290 726.181
Hagnaður samtals 3.937.098 2.038.798
Aðrar hita- og rafveitur 90.000
Samtals 3.937.098 2.128.798
18% skattur 708.678 383.184

    Af þessu er ljóst að sú breyting sem hér er stefnt að hefur í för með sér verulega tilfærslu fjármuna frá sveitarfélögum til ríkis. Í ljósi nýgerðs samkomulag ríkis og sveitarfélaga um aukin framlög ríkisins til sveitarfélaga sem nemur rúmum milljarði króna á ári árin 2006–2008 er ljóst að þessi breyting hefði veruleg áhrif á fjármál sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að umræddar breytingar feli í sér meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Reyndar fór sambandið fram á sérstakar formlegar viðræður um málið við fulltrúa ríkisins um fjármálaleg samskipti með vísan til 100. og 101. gr. sveitarstjórnarlaga, en ekkert hefur orðið af þeim.
    Það er því mat 2. minni hluta að umrætt frumvarp sé engan veginn tækt til samþykktar og ríkið sýni sveitarfélögunum litla virðingu með því að taka slíkar ákvarðanir án samráðs við þau. Þá er öllum ljóst að almenningur verður látinn greiða herkostnaðinn. Því leggst 2. minni hluti gegn samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 26. apríl 2005.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.