Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 413. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1219  —  413. mál.




Nefndarálit



um frv. til vatnalaga.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneytinu, Hákon Aðalsteinsson, Freystein Sigurðsson og Elínu Smáradóttur frá Orkustofnun, Þórð Skúlason og Trausta Fannar Valsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun, Davíð Egilson og Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun, Árna Ísaksson veiðimálastjóra, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Sigurgeir Þorgeirsson og Árna Snæbjörnsson frá Bændasamtökum Íslands, Óðin Sigþórsson og Sigurjón Valdimarsson frá Landssambandi veiðifélaga, Karl Axelsson hæstaréttarlögmann og Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneytinu. Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Kópavogsbæ, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samorku, Byggðastofnun, veiðimálastjóra, Orkustofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Lögmannafélagi Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Bændasamtökum Íslands, Landvernd, Umhverfisstofnun og Landssambandi veiðifélaga.
    Með frumvarpinu er gerð tillaga um ný vatnalög og er þeim ætlað að leysa af hólmi núgildandi vatnalög sem eru frá árinu 1923. Í greinargerð með frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir þeim breytingum sem felast í frumvarpinu og ástæðum þess að talin var þörf á að endurskoða vatnalögin frá 1923 sem hafa að mörgu leyti verið talin merkileg lagasmíð. Um leið og meiri hlutinn vísar til þess sem þar kemur fram telur hann ástæðu til að árétta eftirfarandi atriði, m.a. í ljósi umsagna sem nefndinni hafa borist við meðferð málsins.
    Í núgildandi vatnalögum, nr. 15/1923, er að finna ítarleg ákvæði um ýmsa þætti vatnamála sem ekki er að finna í frumvarpinu. Stafar þetta af því að ákvæðum frumvarpsins er ekki ætlað að taka til allra þátta sem lúta að vatni og vatnsnotum með sama hætti og núgildandi vatnalög enda hefur lagaþróun verið með þeim hætti að nú er tekið á ýmsum þáttum vatnamála í öðrum lögum, m.a. á sviði umhverfis-, náttúru- og almannaréttar. Þannig eru ákvæði laganna um óhreinkun vatns og holræsi t.d. felld brott í heild sinni enda er um þau málefni fjallað í öðrum lögum. XII. kafli laganna um almenna umferð um vötn er jafnframt felldur niður í heild sinni en um leið mælt fyrir um upptöku ákvæðis sama efnis í náttúruverndarlög, nr. 44/1999, sbr. 2. tölul. 43. gr. frumvarpsins. Þá eru ýmis ákvæði núgildandi laga einfölduð, m.a í ljósi breyttra aðstæðna. Má í þessu sambandi nefna ákvæði um vatnsveitur og áveitur en þau eru einfölduð til muna í frumvarpinu í ljósi breyttra aðstæðna og jafnframt með vísan til þess að um vatnsveitur er nú fjallað í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Sama er að segja um ákvæði núgildandi vatnalaga um vatnsmiðlanir, mannvirkjagerð, ráðstafanir gegn landbroti og ágangi vatns og almenn ákvæði um vatnsvirki en öll þessi ákvæði eru einfölduð verulega og tekin saman í einn kafla. Nauðsynlegt er að hafa framangreint í huga þegar frumvarpið er skoðað og það borið saman við núgildandi vatnalög.
    Meginbreytingin samkvæmt frumvarpinu er þó fólgin í breyttri skilgreiningu vatnsréttinda fasteignareigenda. Í núgildandi vatnalögum eru vatnsréttindi fasteignareigenda skilgreind með jákvæðum hætti sem felst í því að talið er upp í lögunum hvaða umráða- og hagnýtingarréttur fylgi fasteign. Í frumvarpinu er hins vegar byggt á svokallaðri neikvæðri skilgreiningu eignarréttar sem felur í sér að eigandi fasteignar nýtur allra þeirra heimilda sem ekki eru með beinum hætti undanskildar eignarráðum hans. Gerir þessi breytta nálgun það að verkum að afmörkun eignarréttarins í frumvarpinu verður mun einfaldari en nú er. Meiri hlutinn leggur áherslu á að hér sé þó fyrst og fremst um formbreytingu að ræða enda er ekki talið að hún feli í sér efnislega breytingu á inntaki eignarráða fasteignareiganda yfir vatni eins og það hefur verið skýrt af dómstólum og fræðimönnum á grundvelli núgildandi vatnalaga.
    Loks er stjórnsýsla samkvæmt lögunum einfölduð en hún verður alfarið á hendi Orkustofnunar og iðnaðarráðherra sem hefur yfirstjórn mála á sinni hendi.
    Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frumvarpinu og lýtur hún að því að tryggja forgangsrétt sveitarfélaga til töku vatns til vatnsveitu innan sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 15. gr. frumvarpsins. Í þessu skyni leggur meiri hlutinn til að sérstaklega verði mælt fyrir um heimild iðnaðarráðherra til að heimila eignarnám til slíkrar vatnstöku.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Við 15. gr. bætist ný málsgrein sem orðist svo:
    Nái sveitarfélag ekki samkomulagi við fasteignareiganda um töku vatns í landi hans til vatnsveitu, eða um önnur atriði sem nauðsynleg má telja í því sambandi, getur iðnaðarráðherra heimilað að nauðsynlegt land, mannvirki, aðstaða til nýtingar og töku vatnsins og lagningar vatnsveitu sem og önnur réttindi fasteignareiganda verði tekin eignarnámi. Ef eignarnám samkvæmt ákvæði þessu á hluta af eignarlandi hefur í för með sér verulega rýrnun þess að öðru leyti á landeigandi rétt á að eignarnámið verði látið ná til þess í heild sinni.

Alþingi, 27. apríl 2005.



Einar Oddur Kristjánsson,


varaform., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Bjarni Benediktsson.



Guðjón Hjörleifsson.


Dagný Jónsdóttir.