Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 396. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1221  —  396. mál.


Nefndarálit



um frv. til l. um breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Örn Sverrisson og Helga Bjarnason frá iðnaðarráðuneyti, Ólaf Pál Gunnarsson og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Hauk Eiríksson frá Hitaveitu Suðurnesja, Stefán Pétursson og Örlyg Þórðarson frá Landsvirkjun, Guðmund Þóroddsson og Hjörleif B. Kvaran frá Orkuveitu Reykjavíkur, Eirík Bogason frá Samorku, Bjarna Einarsson frá Múlavirkjun, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Sigurjón Högnason frá embætti ríkisskattstjóra, Pál H. Hannesson frá BSRB, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ingunni S. Þorsteinsdóttur og Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra, Orkustofnun, Landsvirkjun, Alþýðusambandi Íslands, Norðurorku, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Orkuveitu Reykjavíkur.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til heildarlaga um skattskyldu orkufyrirtækja sem efnahags- og viðskipanefnd hefur haft til umfjöllunar. Miða frumvörpin tvö að því að samræma skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það að markmiði að tryggja jafnræði og samkeppni á þessu sviði. Gerir frumvarpið um skattskyldu orkufyrirtækja ráð fyrir að vinnsla, dreifing, flutningur, sala og afhending á raforku og heitu vatni verði skattskyld frá og með 1. janúar 2006. Í samræmi við það gerir frumvarp það sem hér er til umfjöllunar ráð fyrir að ýmsar skattundanþágur sem kveðið er á um í sérlögum um einstök orkufyrirtæki og lögum um raforkuver verði aflagðar. Nefndin átti sameiginlegan fund með efnahags- og viðskiptanefnd þar sem helstu hagsmunaaðilar voru kallaðir til og frumvörpin rædd samhliða.
    Með hliðsjón af þeim breytingum sem ráðgerðar eru í frumvarpi til laga um skattskyldu orkufyrirtækja leggur nefndin til að frumvarp það sem hér er til umfjöllunar verði samþykkt óbreytt.
    Þuríður Backman var viðstödd afgreiðslu málsins sem áheyrnarfulltrúi og er hún andvíg áliti þessu.

Alþingi, 27. apríl 2005.



Einar Oddur Kristjánsson,


varaform., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Bjarni Benediktsson.



Dagný Jónsdóttir.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Einar Már Sigurðarson,


með fyrirvara.



Sigurjón Þórðarson,


með fyrirvara.