Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 677. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1228  —  677. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um uppboðsmarkaði sjávarafla.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Margréti Kristjánsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Bjarna Áskelsson frá Samtökum uppboðsmarkaða og Þórð Ásgeirsson og Hrefnu Gísladóttur frá Fiskistofu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Íslandsmarkaði hf., Fiskmarkaði Vestmannaeyja, Byggðastofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi kvótabátaeigenda, Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Fiskistofu, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Vélstjórafélagi Íslands og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla en núgildandi lög eru frá árinu 1989. Meðal breytinga sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu má nefna að lagt er til að útgefin leyfi til rekstur uppboðsmarkaða verði ótímabundin en samkvæmt gildandi lögum þarf að endurnýja þau árlega. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að ráðherra setji reglur um uppboðsmarkaði sem taki til allra uppboðsmarkaða á landinu í stað þess að ráðherra staðfesti starfsreglur hvers markaðar fyrir sig eins og nú er. Er þetta gert í því skyni að samræma viðskiptaumhverfi uppboðsmarkaða í landinu til hagræðis fyrir kaupendur og seljendur sjávarafla.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að skilgreiningu á uppboðsmarkaði skv. 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að hugtakið taki ekki einungis til uppboðs á sjávarafla heldur verði jafnframt heimilt að nýta uppboðskerfi fiskmarkaða við sölu á eldistegundum bæði úr ferskvatns- og sjávareldi, sem og vatnafiski og afurðum úr þessum tegundum. Loks felur hin breytta skilgreining í sér að ekki eru settar takmarkanir við uppboði á fiski þótt hann hafi ekki verið fluttur á uppboðsstað. Ekki eru hins vegar lagðar til breytingar á gildissviði frumvarpsins að því leyti að það nær einvörðungu til sölu á frjálsu uppboði og felur frumvarpið þannig í sér óbreytta stöðu mála hvað það varðar frá gildandi lögum. Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu sem fela í sér að leyfishöfum samkvæmt lögunum verði heimilt að fela reiknistofu uppboðsmarkaða, sem starfar í samræmi við reglur sem ráðherra setur, að sjá um framkvæmd uppboða og til að sinna skyldum leyfishafa skv. 6. gr. frumvarpsins. Miða þessar breytingar að því að auka og tryggja sveiganleika og hagkvæmni við rekstur uppboðsmarkaða. Loks er orðalagi refsiákvæðis frumvarpsins breytt til samræmis við önnur refsiákvæði í lögum á sviði sjávarútvegsmála.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. apríl 2005.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Magnús Stefánsson.



Kjartan Ólafsson.


Una María Óskarsdóttir.