Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 634. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1233  —  634. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um veiðikortasjóð.

     1.      Hverjar voru tekjur veiðikortasjóðs árin 2002–2004, sundurliðað eftir árum?
    Heildartekjur sjóðsins árin 2002–2004 voru 55,6 millj. kr. og skiptast tekjurnar þannig eftir árum að 2002 voru tekjur sjóðsins 20,2 millj. kr., 2003 18,7 millj. kr. og árið 2004 námu tekjurnar 16,7 millj. kr.

     2.      Hver var rekstrarkostnaður sjóðsins árin 2002–2004, sundurliðað eftir árum?

    Rekstrarkostnaður veiðikortasjóðs árin 2002–2004 var 20,6 millj. kr. sem skiptist þannig eftir árum að 2002 nam kostnaðurinn 5,8 millj. kr., árið 2003 var hann 6,7 millj. kr. og árið 2004 fór rekstrarkostnaður sjóðsins í 8,1 millj. kr.

     3.      Hverjir hafa hingað til fengið úthlutun úr veiðikortasjóði, hversu háir hafa þeir styrkir verið og til hvaða verkefna?

    Heildarúthlutun styrkja úr veiðikortasjóði, frá því honum var komið á fót með lögum nr. 64/1994, nemur um 118 millj. kr. Alls hafa 10 aðilar fengi styrki úr veiðikortasjóði til 19 mismunandi verkefna. Flestir styrkirnir hafa verið til eins eða tveggja ára rannsóknarverkefna en hæstu styrkir hafa verið veittir til langtímarannsókna. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fengið styrki til fjögurra verkefna. Til rannsókna á rjúpu, sem staðið hafa yfir óslitið frá því að úthlutun úr sjóðnum hófst árið 1995, hafa verið veittar um 64 millj. kr., í rannsóknir á öndum og gæsum hafa verið veittar rúmlega 12 millj. kr. á fjórum árum og stofnunin hefur fengið 1,2 millj. kr. til rannsókna á áhrifum veiða á hrafnastofninn og dauða fugla af völdum raflína. Líffræðistofnun Háskóla Íslands hefur frá 1995 fengið úthlutað ríflega 12 millj. kr. til vöktunar refastofnsins auk þess sem stofnunin hefur fengið um 15 millj. kr. til rannsókna á refum og minkum og um 2 millj. kr. til rannsókna á félagskerfi gráanda að vetrarlagi og stofnbreytinga hjá dílaskarfi.

Verkefni Styrktaraðili Upphæð
Rjúpnarannsóknir Náttúrufræðistofnun Íslands 64.000.000
Sníkjudýr í rjúpu Keldur, Rannsóknarstofa HÍ 200.000
Endur og gæsir Náttúrufræðistofnun Íslands 24.300.000
Minkarannsóknir Líffræðistofnun HÍ 5.000.000
Vöktun refastofnsins Líffræðistofnun HÍ 12.300.000
Rannsókn á ferðum melrakka á 1. vetri Líffræðistofnun HÍ 4.500.000
Rannsókn á íslenska villiminknum Líffræðistofnun HÍ 6.000.000
Áhrif netja á fugladauða RAMÝ 200.000
Fuglar og raflínur Náttúrufræðistofnun Íslands 600.000
Áhrif veiða á hrafnastofninn Náttúrufræðistofnun Íslands 600.000
Athugun á viðkomu og afföllum hjá grágæsum Halldór W. Stefánsson 330.000
Vortalningar á gæsum og álftum á Héraði Halldór W. Stefánsson 128.000
Áhrif veiða á lundastofninn á afmörkuðu svæði og veiðiþoli
Gísli J. Óskarsson

300.000
Félagskerfi gráanda að vetrarlagi Líffræðistofnun HÍ 1.642.000
Stofnbreytingar dílaskarfs og orsakir þeirra Líffræðistofnun HÍ 400.000
Hreindýrarannsóknir CAFF 900.000
Staðsetning refagrenja á Hornströndum með GPS Líffræðistofnun HÍ 240.000
Skotvís-námsefni Skotvís 750.000
Könnun á áreiðanleika veiðitalna Veiðistjóri 1.500.000


     4.      Hver er staða sjóðsins nú?

    Um 1,5 millj. kr. voru í sjóðnum í lok árs 2004. Tekjur hans eru af árlegri útgáfu veiðikorta og árið 2005 er reiknað með að tekjur sjóðsins verði á bilinu 17–20 millj. kr. Það ræðst m.a. af því hvort rjúpnaveiðar verða heimilaðar í haust.

     5.      Hefur verið tekin ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum á þessu ári? Ef svo er, til hverra verður þeim fjármunum úthlutað og hvernig skiptist heildarupphæðin á einstaka aðila og verkefni?

    Ljóst er að til rjúpnarannsókna Náttúrufræðistofnunar Íslands þarf að verja um 5 millj. kr. á þessu ári úr sjóðnum. Gerður var samningur við Háskólann í Umeå í Svíþjóð um yfirferð og úttekt á fyrirliggjandi gögnum og rannsóknum Náttúrufræðistofnunar að fengnum tillögum rjúpnanefndar umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar. Niðurstöður voru kynntar 17. apríl sl. á opnum fundi sem rjúpnanefndin hélt. Kostnaður við verkefnið er um 1,3 millj. kr. og er ákveðið að greitt verði fyrir úttektina úr sjóðnum.

     6.      Hafa verið mótaðar sérstakar reglur um úthlutanir úr veiðikortasjóði umfram það sem segir í 11. gr. laga nr. 64/1994? Ef svo er, hverjar eru þær reglur?

    Slíkar reglur hafa ekki verið settar en málið er til athugunar í ráðuneytinu og hjá Umhverfisstofnun.