Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 67. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1273  —  67. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (bann við limlestingu á kynfærum kvenna).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Róbert Spanó frá refsiréttarnefnd og Ingibjörgu Rafnar, umboðsmann barna. Umsagnir bárust um málið frá ríkissaksóknara, landlæknisembættinu, Læknafélagi Íslands, Samtökum um kvennaathvarf, umboðsmanni barna, Lýðheilsustöð, ríkislögreglustjóranum, Rauða krossi Íslands, réttarfarsnefnd, Mannréttindaskrifstofu Íslands, refsiréttarnefnd, Lögmannafélagi Íslands, Femínistafélagi Íslands og Fræðslusamtökum um kynlíf og barneignir. Einnig barst yfirlýsing frá áhugahópi gegn limlestingu á kynfærum kvenna.
    Í frumvarpinu er lagt til að í almenn hegningarlög verði fest ákvæði sem banni limlestingu á kynfærum kvenna og að fyrningarfrestur slíkra brota byrji ekki að líða fyrr en brotaþoli hefur náð 14 ára aldri. Þá er lagt til að refsilögsagan verði víkkuð hvað slík brot varðar þannig að gerð verði undantekning frá þeirri meginreglu að ekki verði refsað fyrir háttsemi sem framin er af íslenskum ríkisborgurum eða mönnum búsettum á Íslandi utan íslenska ríkisins nema háttsemin hafi einnig verið refsiverð eftir lögum þess ríkis þar sem hún er framin. Með því á að koma í veg fyrir að ferðast verði með stúlkubörn til landa þar sem limlestingin er refsilaus í því skyni að láta framkvæma hana þar.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 1. og 3. gr. frumvarpsins með hliðsjón af umsögn refsiréttarnefndar, en þær eru einkum lagatæknilegs eðlis.
    Vegna skýrleikakrafna telur nefndin eðlilegt að í 1. gr. frumvarpsins verði gert ráð fyrir nýrri og sjálfstæðri 3. mgr. 5. gr. þar sem nánar er lýst að heimilt sé að refsa hér á landi íslenskum ríkisborgara eða manni búsettum á Íslandi fyrir brot framið erlendis er varðar við hið nýja ákvæði 3. gr. frumvarpsins, án þess að það sé áskilið að það sé jafnframt refsivert eftir lögum þess ríkis. Þessi leið á sér t.d. stoð í þeirri aðferð sem notuð var við rýmkun sambærilegs ákvæðis dönsku hegningarlaganna. Þá telur nefndin ástæðulaust að vísa í greininni til 218. gr. b, en í ljósi 4. gr. frumvarpsins sést að númeri núgildandi 218. gr. a, þar sem ekki er að finna sjálfstætt refsiákvæði, verður breytt í 218. gr. b.
    Nefndin leggur einnig til breytingar á 3. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi telur nefndin að í ljósi meginreglu 18. gr. hegningarlaga, og eðlis þess brots sem hér um ræðir, sé óþarfi að orða þá tegund saknæmis, þ.e. ásetning og/eða gáleysi, sem refsiákvæðið áskilur. Jafnvel þótt tæpast verði séð að háttsemi af þessu tagi verði framin af gáleysi telur nefndin þó rétt að bæta við 219. gr. almennra hegningarlaga tilvísun til hinnar nýju greinar, 218. gr. a, en í 219. gr. segir nú að ef tjón á líkama eða heilbrigði, slíkt sem í 218. gr. getur, hljótist af gáleysi annars manns, varði það sektum eða fangelsi allt að 4 árum. Með þessu er tekinn af allur vafi um að brot sem varðar við hið nýja ákvæði 218. gr. a sé refsivert á grundvelli gáleysis.
    Í öðru lagi bendir nefndin á að núgildandi 2. mgr. 218. gr. a gerir ráð fyrir að samþykki til líkamsárásar, sem fellur undir 218. gr., geti ekki leitt til refsileysis en kunni að koma til álita til refsilækkunar. Í ljósi þessa og vegna grófleika þess líkamstjóns sem 3. gr. frumvarpsins fjallar um er því að mati nefndarinnar óþarfi að tiltaka það í ákvæðinu að refsiábyrgð stofnist hvort sem samþykki liggur fyrir eður ei. Hafa verður þó í huga að vegna eðlis þess brots sem lýst er í frumvarpsgreininni verður að telja að dómstólar muni aðeins í undantekningartilvikum leggja til grundvallar að fullgilt samþykki þess, sem fyrir verknaði af þessu tagi verður, liggi fyrir. Þar sem ákvæðinu er m.a. ætlað að vernda stúlkubörn gegn alvarlegri líkamsárás mundi samþykki barnsins ekki teljast gilt. Þá mundi samþykki foreldra eða annarra forráðamanna stúlkubarns til þess verknaðar sem frumvarpsgreinin fjallar um ekki teljast samþykki í refsiréttarlegri merkingu. Því leggur nefndin til að orðin „með eða án samþykkis“ verði felld brott úr 1. málsl. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins, en leggur jafnframt áherslu á að með þessari breytingu sé með engu móti gengið út frá því að samþykki leiði að jafnaði til refsilækkunar fyrir þau brot sem frumvarpið gerir refsivert, enda eingöngu um að ræða heimildarákvæði til refsilækkunar í núgildandi 2. mgr. 218. gr. a.
    Í þriðja lagi ræddi nefndin töluvert um hugtakanotkun, en í frumvarpinu og greinargerð með því er notað hugtakið „limlesting á kynfærum kvenna“ yfir þann verknað sem frumvarpið gerir refsivert. Þetta hugtak nefnist á ensku „female genital mutilation“, skammstafað FGM, og hefur unnið sér fastan sess í alþjóðlegum umræðum um verknaðinn. Nefndin telur hins vegar ljóst út frá samhengi frumvarpsins og greinargerðar með því að átt sé við verknað sem fellur undir þetta hugtak. Út frá því grunnsjónarmiði við mótun verknaðarlýsinga refsiákvæða að ávallt skuli leitast við að móta skýran og glöggan lagatexta sem lýsir aðeins nauðsynlegum efnisskilyrðum refsiábyrgðar og að fenginni ábendingu refsiréttarnefndar telur nefndin rétt að fella brott úr texta fyrri málsliðar 3. gr. frumvarpsins orðin „með limlestingu á kynfærum hennar“ enda bætir sú sjálfstæða lýsing engu við það grundvallarefnisskilyrði ákvæðisins að maður hafi fjarlægt kynfæri stúlkubarns að hluta eða að öllu leyti. Á hinn bóginn telur nefndin rétt eftir vandlega athugun og í samræmi við eðli þessa brots og orðalag í ákvæðum 217. og 218. gr. hegningarlaga að hugtakið „líkamsárás“ komi fram í upphafi fyrri málsliðar 3. gr. frumvarpsins. Er þá einnig horft til orðalags 245. gr. a dönsku hegningarlaganna. Um síðari málslið 3. gr. frumvarpsins leggur nefndin til orðalagsbreytingar og tekur að nokkru leyti mið af orðalagi því sem notað er í 246. gr. dönsku hegningarlaganna og hugtakanotkun í öðrum ákvæðum íslensku hegningarlaganna, sbr. einkum 2. mgr. 218. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 28. apríl 2005.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Magnús Stefánsson.


Birgir Ármannsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Sigurjón Þórðarson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Einar Karl Haraldsson.