Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 591. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1291  —  591. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið fengið á sinn fund Jónínu Lárusdóttur, Áslaugu Árnadóttur, Benedikt Árnason og Hrein Hrafnkelsson frá viðskiptaráðuneyti, Stefán Má Stefánsson prófessor, Sigurð Tómas Magnússon frá dómstólaráði og Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá Lögmannafélagi Íslands, Ólaf Darra Andrason frá ASÍ, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Jóhannes Gunnarsson og Írisi Ösp Ingjaldsdóttur frá Neytendasamtökunum, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði, Tryggva Axelsson og Snæbjörn Kristjánsson frá Löggildingarstofu og Georg Ólafsson, Guðmund Sigurðsson, Önnu Birnu Halldórsdóttur, Steingrím Ægisson, Arnar Óðin Arnþórsson og Ásgeir Einarsson frá Samkeppnisstofnun.
    Málið var rætt í nefndinni samhliða umfjöllun um mál 590, frumvarp til samkeppnislaga, og mál 592, frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.
    Í frumvarpinu er að finna ákvæði um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Það er sá hluti gildandi samkeppnislaga sem klofinn er frá öðru samkeppniseftirliti samkvæmt framangreindum frumvörpum sem byggjast á niðurstöðum nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi. Megintilgangur frumvarpsins er sá að efla neytendavernd með því gera ákvæði laga skýrari og efla eftirlit. Flest ákvæði frumvarpsins er nú að finna í VI. og VII. kafla samkeppnislaga og því er fáar nýjungar að finna í efnisákvæðum þess. Þar eru aftur á móti lagðar til breytingar varðandi eftirlit og stjórnsýslu, en eftirlit er falið Neytendastofu og áfrýjunarnefnd neytendamála.
    Meiri hlutinn leggur til að orðunum „reglum og“ verði bætt inn í d-lið 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins um við hvaða brotum megi leggja á sektir og að við frumvarpið bætist ný grein þar sem kveðið verði á um að ákvörðun Neytendastofu verði ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir. Er það til samræmis við gildandi rétt.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. apríl 2005.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.



Una María Óskarsdóttir.


Gunnar Birgisson.