Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 587. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1296  —  587. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilborgu Þ. Hauksdóttur, Jón Sæmund Sigurjónsson og Helgu Ágústsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Reyni Jónsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Arnþór Helgason og Báru Snæfeld frá Öryrkjabandalagi Íslands, Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara og Stefaníu Björnsdóttur frá Félagi eldri borgara.
    Umsagnir bárust frá ríkisskattstjóra, tannlæknadeild Háskóla Íslands, Landssambandi eldri borgara, Tryggingastofnun ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Félagi eldri borgara, umboðsmanni barna, Tannlæknafélagi Íslands, landlæknisembættinu, Öryrkjabandalagi Íslands, Lýðheilsustöð, Samtökum heilbrigðisstétta og Peter Holbrook.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 37. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, sem varðar greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tannlæknaþjónustu og felur í sér að ákvæðið um að sjúkratryggingar greiði ekki fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr elli- og örorkulífeyrisþega verði fellt niður og að nánari reglur um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga verði settar í reglugerð. Þá er enn fremur lagt til að aldursviðmið greiðsluþátttöku sjúkratrygginga barna verði hækkað og miðist við börn yngri en 18 ára.
    Nefndin ræddi nokkuð þá breytingu sem frumvarpið felur í sér um að framvegis verði kveðið á um kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga í reglugerð. Kom fram á fundum nefndarinnar að gildandi lagaákvæði hefðu komið í veg fyrir sveigjanleika og að bann 37. gr. við greiðsluþátttöku í gullfyllingum, krónum eða brúm elli- og örorkulífeyrisþega hefði staðið í vegi fyrir því að unnt yrði að ná þeim markmiðum varðandi tannheilsu sem að var stefnt í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sem Alþingi samþykkti 20. maí 2001. Markmið heilbrigðisáætlunar er að yfir helmingur fólks 65 ára og eldra hafi a.m.k. 20 tennur í biti.
    Þá kom einnig fram að í framkvæmd hefði greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í tannlæknakostnaði barna miðast við börn yngri en 18 ára þrátt fyrir að ákvæði 37. gr. miðist við börn yngri en 15 og 16 ára. Hefði sú framkvæmd byggst á heimild í lokamálsgrein 36. gr. almannatryggingalaga en hún heimilar frekari kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í 37. gr. Hið sama ætti við um greiðsluhlutfall langsjúkra aldraðra og öryrkja sem dvelja á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum en það hefur í framkvæmd verið 100% af gjaldskrá ráðherra samkvæmt reglugerð.
    Meiri hlutinn fellst á að tilhögun sú að kostnaðarþátttakan verði útfærð í reglugerð verði til þess fallin að auka sveigjanleika og geri ráðherra betur kleift að framfylgja stefnumörkun heilbrigðisáætlunar, tryggja að reglurnar séu í samræmi við þróun nútímatannlækninga, halda útgjöldum innan áætlana og ramma fjárlaga og enn fremur að nýta til fulls og sem best það fjármagn sem ráðherra hefur til framkvæmda í samræmi við markaða stefnu í málaflokknum. Þá telur meiri hlutinn þá tilhögun eðlilegri þegar litið er til ákvæða almannatryggingalaga um aðra heilbrigðisþjónustu, svo sem sérfræðilæknaþjónustunnar, en umfang hennar og réttur sjúklinga ræðst alfarið af samningum Tryggingastofnunar ríkisins við sérfræðilækna en ekki af nákvæmri sundurliðun í lögunum, en kostnaðarhlutdeild sjúklinga er ákveðin með reglugerð og gjaldskrá.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að hlutfall greiðsluþátttöku almannatrygginga í tannlæknakostnaði verði ekki lægra en nú er og gilt hefur í framkvæmd.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    
Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ágúst Ólafur Ágústsson, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 2. maí 2005.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.



Þuríður Backman,


með fyrirvara.


Bjarni Benediktsson.


Una María Óskarsdóttir.



Guðrún Ögmunsdóttir,


með fyrirvara.