Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 722. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1323  —  722. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu samnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Líbanons.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur og Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Líbanons sem undirritaður var í Montreux í Sviss 24. júní 2004.
    Í samningnum er kveðið á um afnám tolla á iðnaðarvörum, sjávarafurðum og unnum sjávarafurðum. Að því er EFTA-ríkin varðar er gert ráð fyrir að þau afnemi tolla á þeim vörum sem samningurinn nær til frá gildistöku hans en Líbanon fái aðlögunartíma á tímabilinu 2008–2015. Þó munu tollar á sjávarafurðum falla niður að langmestu leyti árið 2008. Í samningnum er einnig að finna ákvæði um vernd hugverkaréttinda, þjónustuviðskipti og úrlausn deilumála en gerður var sérstakur tvíhliða samningur um vernd fjárfestinga.
Einnig var gerður sérstakur samningur um viðskipti með landbúnaðarafurðir milli Íslands og Líbanons og mun þar kveðið á um sambærilegar tollalækkanir og réttindi og í öðrum landbúnaðarsamningum í tengslum við fríverslun.
    Viðskipti Íslands og Líbanons eru frekar lítil en með gerð fríverslunarsamningsins hafa verið sköpuð tækifæri til eflingar viðskipta.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 3. maí 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Gunnar Birgisson.



Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.