Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 786. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1325  —  786. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eystein Jónsson frá landbúnaðarráðueyti, Guðmund Stefánsson frá Lánasjóði landbúnaðarins, Jón Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Harald Benediktsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Árna V. Kristjánsson frá Sambandi íslenskra loðdýrabænda, Ólaf Pál Gunnarsson frá Lífeyrissjóði bænda, Þórólf Sveinsson frá Landssambandi kúabænda, Jóhannes Sigfússon frá Landssambandi sauðfjárbænda, Harald Benediktsson frá Bændasamtökum Íslands, Aðalstein Þorsteinsson og Herdísi Á. Sæmundsdóttur frá Byggðastofnun og Rögnvald Ólafsson, formann kjaranefndar á búnaðarþingi 2005.
    Þá barst umsögn frá Sambandi íslenskra loðdýrabænda.
    Með frumvarpinu er lagt til að starfsemi Lánasjóðs landbúnaðarins verði lögð niður frá og með 31. desember 2005 og að landbúnaðarráðherra verði heimilt að selja allar eignir sjóðsins og gera upp skuldir hans. Lagt er til að söluandvirðið að frádregnum kostnaði við sölu og niðurlagningu sjóðsins renni til Lífeyrissjóðs bænda.
    Meiri hlutinn telur að í ljósi breytts rekstrarumhverfis fjármálastofnana sé nauðsynlegt að bregðast við þeim breytingum sem hafa orðið á rekstri sjóðsins. Fram kom á fundum að langtímarekstrarlán sjóðsins bera hærri vexti en lán á almennum markaði og að útlán sjóðsins hafa minnkað og uppgreiðslur lána aukist mikið síðustu mánuði, enda ætíð heimilt að greiða lánin upp án uppgreiðslugjalds. Sýnt þykir að bændur telja hagsmunum sínum betur borgið á almennum lánamarkaði.
    Telur meiri hlutinn mikilvægt að tryggja þeim bændum fyrirgreiðslu sem vegna búsetu eða búgreinar bjóðast ekki kjör á við þau sem tíðkast á almennum lánamarkaði, t.d. hjá Byggðastofnun. Þá telur meiri hlutinn rétt að hugað verði að lánamöguleikum óðalsbænda sem eftir breytinguna geta einungis sótt um lán hjá Orkusjóði og Lífeyrissjóði bænda.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem einungis varða uppsetningu frumvarpsins og er gerð tillaga um þær á sérstöku þingskjali.
    Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2005.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Birkir J. Jónsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Dagný Jónsdóttir.



Prentað upp.