Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 700. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1335  —  700. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Landbúnaðarstofnun.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Með frumvarpi þessu er ætlunin að sameina ýmsar stofnanir, embætti og verkefni á sviði eftirlits og stjórnsýslu innan landbúnaðarins í eina stjórnsýslustofnun, Landbúnaðarstofnun.
Þau rök eru færð fyrir þessari stofnun að „með þeim hætti nýtist þverfagleg sérþekking betur en hingað til og grundvöllur lagður að bættri, skilvirkari stjórnsýslu og einfaldara og samhæfðara eftirliti“.
    Hægt er í nokkru að taka undir þær áherslur sem frumvarpið felur í sér og þó sérstaklega það að þau verkefni sem hér um ræðir verði áfram á opinberri ábyrgð en ekki einkavædd eða framseld á markaði.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði heimili stofnunarinnar. Ljóst er af umsögnum frá sveitarstjórnum og búnaðarsamböndum á landsbyggðinni að mikill áhugi er á að hin nýja stofnun verði utan núverandi þenslusvæða á Suður- og Suðvesturlandi. Er eindregið tekið undir þau sjónarmið. Hér er um tugi starfsmanna að ræða og þó að störfin séu dreifð vítt og breitt um landið og verði svo að einhverju leyti áfram er ljóst að höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar munu þykja hvalreki á þeim stöðum á landinu þar sem henni yrði valinn staður. Því er eðlilegt að Alþingi velji henni stað en ekki ráðherra.
    Það skal hér gagnrýnt hversu seint frumvarpið er komið fram og hefur því gefist takmarkað tóm til að vinna það sem skyldi í landbúnaðarnefnd.
    Mörg af þeim embættum og verkefnum sem frumvarpið tekur til hafa gegnt mikilvægum sértækum hlutverkum í alþjóðlegu samstarfi, eftirliti og vottorðagjöf. Óvænt breytt skipan mála getur skapað óvissu, ekki síst í alþjóðlegum samskiptum, og þannig skaðað beint og óbeint dýrmæta gagnkvæma viðskiptahagsmuni. Má þar nefna yfirdýralæknisembættið, veiðimálastjóra, aðfangaeftirlitið og plöntueftirlitið svo að nokkuð sé nefnt. Er þetta rækilega undirstrikað í umsögnum þessara aðila.
    Það er hins vegar dregið mjög í efa að sameining þessara embætta og verkefna undir eina nýja stofnun leiði til sparnaðar eða aukinnar skilvirkni. Almenn reynsla á slíkum tilfæringum hefur verið þveröfug. Með þessum breytingum er teygt á stjórnsýslunni og vegalengdin frá þeim sem vinnur verkin og ber faglega ábyrgð á þeim eykst til æðsta stigs stjórnsýslunnar, ráðherrans. Slíkt leiðir almennt ekki til aukinnar skilvirkni. Flest þau embætti sem nú er verið að leggja inn í Landbúnaðarstofnun heyra beint undir ráðherra, en boðleiðin lengist nú um einn millilið sem hlýtur að auka kostnað og skriffinnsku.
    Enda kemur berlega í ljós í umsögn fjármálaráðuneytisins að ekkert raunverulegt mat hefur verið lagt á stofn- eða rekstrarkostnað hinnar nýju stofnunar. Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar í landbúnaðarnefnd hafa ekki fengist nein viðhlítandi svör um áætlaðan stofn- og rekstrarkostnað hinnar nýju stofnunar. Eru þessi vinnubrögð harðlega gagnrýnd.
    Í umsögn Bændasamtakanna eru rakin þau stjórnsýslulegu verkefni sem þau annast fyrir ríkisvaldið. Þó velta megi því fyrir sér hvort rétt sé að hagsmunasamtök annist svo viðamikil stjórnsýsluverkefni sem raun ber vitni er afar ólíklegt að kostnaður hins opinbera minnki við að færa þau undir hina nýju ríkisstofnun. Hjá Bændasamtökunum liggur gríðarmikil fagþekking og staðkunnugleiki á þessum sviðum og áratuga trúnaður gagnvart atvinnuveginum sem mun taka hina nýju stofnun langan tíma að vinna upp með sama hætti.
    Samband sveitarfélaga bendir á að verið er að leggja aukna ábyrgð, kostnað og vinnu á búfjáreftirlitsmenn, sbr. lög nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl. Kostnaður við búfjáreftirlitsmenn greiðist af sveitarfélögunum.
    Að óbreyttu „er um að ræða breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem á sér stað án viðræðna þeirra á milli og án þess að sveitarfélögin fái tekjur til að sinna nýjum lögskyldum. Slík vinnubrögð eru óásættanleg“ segir í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nánast allar umsagnir sem bárust bentu á hversu frumvarpið væri illa unnið og markmiðin óskýr. Vandséð er raunveruleg hagræðing, sparnaður eða aukin skilvirkni við þessa breytingu. Minni hlutinn telur því að vinna þurfi þetta mál miklu betur áður en Alþingi getur samþykkt lögin um þessa nýju ríkisstofnun. Er því lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi 6. maí 2005.

Jón Bjarnason.

Fylgiskjal I.

Umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
(25. apríl 2005.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.

Umsögn frá Bandalagi háskólamanna.
(28. apríl 2005.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.

Umsögn frá Bændasamtökum Íslands.
(18. apríl 2005.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Bréf til landbúnaðarráðherra frá Bændasamtökum Íslands.
(21. mars 2005.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.