Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 296. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1353  —  296. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um kynningu á íslenskri list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elínu Flygenring frá utanríkisráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Arkitektafélagi Íslands, Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, Hafnarborg – menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, Íslenskri tónverkamiðstöð, Íslenskri grafík, Listasafni Árnesinga, Listasafni Íslands, Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, Listasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkurborgar, Myndlistaskólanum í Reykjavík, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Þjóðminjasafni Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að móta stefnu til þess að koma íslenskri list og hönnun í sem víðustum skilningi á framfæri í sendiskrifstofum Íslands erlendis enda er eitt af hlutverkum þeirra að sinna menningarmálum. Tillagan stefnir þannig að því að greiða götu íslenskrar listar og nytjalistar á erlendri grund.
    Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur um allnokkurt skeið verið unnið að kynningu á íslenskri list erlendis. Nefndin telur að heildstæð stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar í kynningarmálum mundi styðja vel við það starf sem utanríkisráðuneyti hefur innt af hendi í þessum málaflokki.
    Ljóst er að einhver kostnaður mun fylgja kynningarstarfinu en það verður óhjákvæmilegur hluti af stefnumótun ríkisstjórnarinnar að gera tillögur til Alþingis um fjárveitingar þegar áætlanir liggja fyrir.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 3. maí 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.


Gunnar Birgisson.


Jónína Bjartmarz.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.