Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 72. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1362  —  72. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rúnu Jónsdóttur frá Stígamótum, Svövu og Sigríði Björnsdætur frá Blátt áfram og Róbert Spanó frá refsiréttarnefnd. Umsagnir bárust um málið á 130. löggjafarþingi frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Helga Gunnlaugssyni prófessor, dómstólaráði, Kvennaathvarfinu, Femínistafélagi Íslands, umboðsmanni barna, refsiréttarnefnd, Lögmannafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Barnaverndarstofu og Barnaheillum. Þá barst greinargerð frá Stígamótum.
    Í frumvarpinu er lagt til að fyrningarfrestur kynferðisbrota gegn börnum verði afnuminn. Samkvæmt núgildandi lögum á fimm ára fyrningarfrestur við þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 4 ára fangelsi. Þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 10 ára fangelsi er fyrningarfresturinn 10 ár og þegar þyngsta refsing við broti er meira en 10 ára tímabundið fangelsi fyrnist sök á 15 árum. Samkvæmt núgildandi ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga telst fyrningarfrestur brota samkvæmt ákvæðum 194. 202. gr. ekki fyrr en frá þeim degi sem brotaþoli nær 14 ára aldri.
    Nefndin ræddi málið ítarlega á fundum sínum. Meiri hlutinn bendir á að þau meginsjónarmið sem frumvarpið byggir á hafi komið til skoðunar á Alþingi fyrir tiltölulega fáum árum, en á árinu 1998 var sú regla lögfest að fyrningarfrestur vegna kynferðisbrota gegn börnum byrjar ekki að líða fyrr en brotaþoli hefur náð 14 ára aldri. Með því hefur löggjafinn nú þegar ákveðið að gilda skuli sérreglur um fyrningu kynferðisbrota gegn börnum.
    Þrátt fyrir hinn skamma tíma sem liðið hefur frá gildistöku ákvæðisins telur meiri hlutinn rétt að færa aldursviðmið í þessu tilliti til 18 ára aldurs. Meiri hlutinn bendir á að brotaþolar undir 18 ára aldri eru enn börn í skilningi laga og óeðlilegt að þeir þoli upphaf fyrningar við 14 ára aldur. Þessi breyting er einnig í samræmi við það sem gengur og gerist í þeim ríkjum sem íslenskt réttarkerfi tekur helst mið af.
    Að öðru leyti telur meiri hlutinn að enn sé ekki komin nægileg reynsla á það hvernig ákvæðið hafi reynst til að rétt sé að afnema fyrningarfrest í kynferðisbrotum gegn börnum með öllu, enda séu mál þar sem reynir á þessa fyrningarreglu tæpast komin til kasta dómstóla sjö árum eftir að breytingin 1998 var gerð. Frumvarpið gengur auk þess gegn þeirri grundvallarreglu að einungis brot sem hámarksrefsingu varði fyrnist ekki. Í þessu sambandi gerir frumvarpið heldur ekki greinarmun á þeim brotum sem vægari refsingu sæta og þeim sem þyngri refsing liggur við. Þrátt fyrir að meiri hlutinn geti út af fyrir sig fallist á að skoða megi hvort taka þurfi enn frekara tillit til sérstöðu þessara brota í refsilöggjöf er það niðurstaða meiri hlutans að aðrar leiðir hljóti að koma til skoðunar áður en fyrning brotanna er felld niður í öllum tilvikum. Einnig er það mat meiri hlutans að rétt sé að slík skoðun fari fram samhliða almennri yfirferð kynferðisbrotakafla hegningarlaga, en við skoðun nefndarinnar á málinu kom í ljós að kynferðisbrotakafli almennra hegningarlaga þarfnast endurskoðunar. Meðal þeirra atriða sem meiri hlutinn telur koma til álita í stað afnáms fyrningarfrests er endurskoðun refsihámarks einstakra brota sem og lenging fyrningarfrests eftir einstökum brotategundum. Við mat á lengd fyrningarfrests er að mati meiri hlutans rétt að fylgja þeirri meginreglu að lengd fyrningar haldist í hendur við refsinæmi brota. Þó útilokar meiri hlutinn ekki þá niðurstöðu að í kynferðisbrotum gegn börnum gildi einn almennur fyrningarfrestur óháður tegund brots. Þá telur meiri hlutinn koma til álita að afnema fyrningu í alvarlegustu málunum. Að mati meiri hlutans er jafnframt eðlilegt að við þessa vinnu verði horft til lagasetningar um þessi mál í öðrum ríkjum.
    Með hliðsjón af því sem fram kemur hér að framan beinir meiri hlutinn því til dómsmálaráðuneytis að endurskoðun á kynferðisbrotakafla hegningarlaga fari fram svo fljótt sem verða má. Meiri hlutinn ítrekar jafnframt að hann hefur ekki komist að þeirri niðurstöðu með óyggjandi hætti að breyta þurfi fyrningarreglum kynferðisbrota gegn börnum frekar en nú er gert, en telur rétt að ráðist verði í þessa vinnu og brugðist við niðurstöðum hennar með viðeigandi hætti.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Jónína Bjartmarz skrifar undir álitið með fyrirvara og áskilur sér rétt til að leggja fram breytingartillögur við málið.

Alþingi, 6. maí 2005.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.



Birgir Ármannsson.


Sigurjón Þórðarson.


Sigurður Kári Kristjánsson.