Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 614. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1364  —  614. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 og samnings EFTA-ríkjanna um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson og Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti, Áslaugu Árnadóttur og Jónínu S. Lárusdóttir frá viðskiptaráðuneyti, Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi prófessor, og Stefán Má Stefánsson prófessor.
    Með tillögunni er leitað eftir heimild Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 og samning EFTA-ríkjanna um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Með tillögunni er verið að innleiða nýjar reglur á EES-svæðinu um samruna fyrirtækja eða samfylkingu eins og það hefur nú verið nefnt. Eitt meginmarkmiðið er að Eftirlitsstofnun EFTA fái sömu heimildir til eftirlits með samfylkingum fyrirtækja og framkvæmdastjórn EB hefur verið veitt með samrunareglugerðinni. EFTA-ríkjunum verður heimilt að vísa samrunamálum til Eftirlitsstofnunar EFTA ef samruni hefur áhrif á viðskipti milli eins eða fleiri EB- ríkja og eins eða fleiri EFTA-ríkja svo framarlega sem hætta er á að samruni hafi umtalsverð áhrif á samkeppni á yfirráðasvæði viðkomandi ríkis. Hingað til hefur EFTA-ríkjunum verið heimilt að framsenda samrunamál til Eftirlitsstofnunar EFTA en sá möguleiki mun ekki hafa verið nýttur. Nýmæli er að heimilt verður að framsenda samrunamál frá EFTA-ríki til framkvæmdastjórnar EB.
    Með samrunareglugerðinni og breytingu á bókun 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er verið styrkja eftirlitsheimildir stofnana EFTA og EB en almenna reglan er sú að innlendum réttarfarsreglum verður fylgt ef rannsókn fer fram hér á landi.
    Málið hefur verið ítarlega rætt á fundum nefndarinnar. Nefndin hélt sameiginlegan fund með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem farið var yfir helstu efnisatriði málsins, en fyrir þeirri nefnd liggur frumvarp til samkeppnislaga sem m.a. er ætlað að innleiða efni þeirra EES-gerða sem hér um ræðir (þskj. 883, 590. mál). Þá hefur nefndin aflað viðbótarupplýsinga frá viðskiptaráðuneyti.



Prentað upp á ný.
    Meiri hlutinn telur rétt að vekja athygli á því að fremur ólíklegt er að ákvæði samrunareglugerðarinnar komi til framkvæmda á Íslandi vegna skilyrða um veltumörk fyrirtækja sem um ræðir. Árleg heildarvelta samstæðu þarf almennt að nema 5 milljörðum evra eða meira svo að samrunareglurnar eigi við.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 3. maí 2005.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.



Gunnar Birgisson.


Jónína Bjartmarz.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.