Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 807. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1365  —  807. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 1. gr laga þessara skal fjárhæð olíugjalds vera 41 kr. á hvern lítra af olíu frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2005.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er lögð til tímabundin lækkun frá 1. júlí 2005 til 31. desember 2005 á fjárhæð olíugjalds um 4 kr., eða úr 45 kr. í 41 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu. Með virðisaukaskatti má gera ráð fyrir að útsöluverð dísilolíu verði 5 kr. lægra en verið hefði. Markmiðið með þessari tímabundnu lækkun er að vega upp á móti hækkun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu á undanförnum mánuðum, en verð á dísilolíu er nú óvenjuhátt á heimsmarkaði samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni.
    Í tengslum við markmið og tilgang laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., er mikilvægt að innbyrðis samræmi sé í skattlagningu á dísilolíu og bensíni þannig að dísilknúnar fólksbifreiðar verði álitlegri kostur fyrir einstaklinga en þær hafa verið hingað til og að sambærilegar rekstrarforsendur eigi við hvort sem bifreið er dísil- eða bensínknúin. Ætla má af þessum sökum að ástæða geti verið til að yfirfara betur innbyrðis samræmi milli olíugjalds, bensíngjalds og kílómetragjalds, þegar nokkur reynsla verður komin á hið nýja olíugjaldskerfi.
    Verði frumvarpið að lögum er áætlað að það muni leiða af sér 160 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð á árinu 2005.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 87/2004,
um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

    Með frumvarpinu er lagt til að olíugjald lækki tímabundið um 4 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu frá gildistöku laga nr. 87/2004 til ársloka. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af olíugjaldi verði um 160 m.kr. lægri en áætlað er í forsendum fjárlaga 2005.