Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 695. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1385  —  695. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Snorradóttur og Guðmund Thorlacius frá fjármálaráðuneyti, Ásmund G. Vilhjálmsson hdl. og Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt í þeim tilgangi að skýra betur en nú er í lögunum svokallaða aðsetursreglu.
    Í umsögnum komu fram athugasemdir um að gera þyrfti breytingu á frumvapinu til að koma í veg fyrir mismunun milli innlendra og erlendra aðila sem aðsetur hafa hér og eru skattskyldir hér á þeim grundvelli.
    Nefndin leggur til að 1. gr. frumvarpsins verði breytt og ákvæðið gert almennara. Krafa um skráningu félaga er breytt og fyrst og fremst byggt á heimilisfesti á grundvelli samþykkta félags eða að raunveruleg framkvæmdastjórn sitji hér. Með því að gera ákvæðið almennara má komast hjá því að þurfa gera breytingar á öðrum ákvæðum laganna.
    Með þeim breytingum sem lagðar eru til um skattskylda lögaðila verða lagakröfur hér í góðu samræmi við það sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar.
    Nefndin bendir á að við næstu áramót verði að gæta þess að breyta ákvæðinu til samræmis við breytingu á lögunum, sbr. lög nr. 129/2004, þar sem ákvæði um eignarskatt voru felld brott og taka gildi um næstu áramót.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 29. apríl 2005.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Gunnar Birgisson.


Ögmundur Jónasson.



Una María Óskarsdóttir.