Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 723. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1389  —  723. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Í frumvarpinu er lagt til að sveitarstjórnir fái styrk til fráveituframkvæmda óháð því hvort sveitarfélögin fjármagna framkvæmdirnar beint eða farin er leið einkaframkvæmdar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að skuldbindingar sveitarfélaganna vegna slíkrar framkvæmdar komi fram í ársreikningum viðkomandi sveitarfélags. Þá leggur meiri hlutinn til að sett verði hámark á fjárhæð styrks.
    Við umfjöllun málsins var bent á að skv. 3. gr. laganna væri miðað við framkvæmdir sem unnar yrðu á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2005 og leitað svara við því hvers vegna verið væri að breyta lögunum þegar svo stutt væri eftir af fyrrnefndu tímabili. Fram kom að ráðherra hefði upplýst að nýtt frumvarp til breytinga á lögunum væri væntanlegt í haust þar sem tímabilið yrði lengt um fimm ár.
    Fram kom í máli fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga að hér væri um átaksverkefni að ræða til að koma fráveitumálum sveitarfélaganna í gott lag en ekki viðvarandi styrki um alla framtíð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Á eftir orðunum „Heimilt er með sama hætt að veita“ í 1. efnismálsl. komi: sveitarfélögum.
     b.      Við bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skuldbindingar sem sveitarfélögin taka á sig vegna rekstrarleigu skulu koma fram í ársreikningum þeirra. Styrkupphæð samkvæmt þessari grein getur aldrei verið hærri en sem nemur virðisaukaskatti vegna framkvæmdanna.

Alþingi, 9. maí 2005.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.


Guðjón Hjörleifsson.


                                  

Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.