Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 723. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1390  —  723. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Minni hlutinn er ósáttur við það meginmarkmið frumvarpsins að veita stjórnvöldum heimild til að styðja sveitarfélög, sem komið hafa fráveitukerfi sínu í hendur einkaaðila, fjárstuðning undir yfirskyni jafnræðisreglu. Það er alkunna að sveitarfélög hafa í auknum mæli farið inn á þær brautir að reka tiltekna þætti grunnþjónustu sinnar í formi einkaframkvæmdar. Þekkt dæmi eru byggingar skólahúsnæðis og íþróttahúsnæðis sem byggð eru og rekin af einkaaðilum en leigð sveitarfélögunum með langtímasamningi. Það er líka vitað að nú þegar stefnir í óefni hjá einhverjum sem farið hafa þessa leið. Skuldbindingarnar eru miklar og til langs tíma, allt upp í 30 ár. Ein af ástæðum þess að sveitarfélög hafa freistast til að fjármagna framkvæmdir á þennan hátt er sú staðreynd að það lítur betur út í reikningum sveitarfélagsins að tilgreina einungis leigu fyrir aðstöðu í húsi, en að þurfa að skuldfæra alla bygginguna. Það er því ekki nema von að skuldsett sveitarfélög freistist til að koma sér undan gjörgæslu félagsmálaráðuneytisins með þessum hætti. Í þessu er fólginn ákveðinn tvískinnungur sem stafar af tregðu stjórnvalda til að viðurkenna raunverulega fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Það er mat minni hlutans að skynsamlegra sé að bregðast við áður en sveitarfélögin sjá sig knúin til að leggja út á þá braut að fjármagna bráðnauðsynlegar framkvæmdir með einkaframkvæmd. Það er full þörf á að stjórnvöld bregðist við þessari stöðu en það þarf þá að gera með skynsamlegum aðgerðum, t.d. með því að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna.
    Það kom fram við 1. umræðu um málið að hinn opinberi aðili greiddi oft og tíðum umtalsvert hærra verð fyrir þær framkvæmdir og þann rekstur sem fjármagnaður er gegnum einkaframkvæmd en eftir hinum hefðbundnu leiðum og þeir sem best til þekkja töldu sveitarfélögin vera komin út á hættulega braut í þessum efnum. Það er mat minni hlutans að full þörf sé á að rannsaka betur þá reynslu sem þegar er fyrir hendi af framkvæmdum af þessu tagi. Slíkt bæri vott um fyrirhyggju sem kæmi í veg fyrir að haldið yrði lengra út á þessa ótryggu braut. Með frumvarpinu er verið að byggja inn í kerfið hvata til að fara þessa leið og skuldbindingin er ávísun á hendur skattborgurum framtíðarinnar.
    Minni hlutinn telur breytingartillögur meiri hlutans til bóta, en treystir sér engu síður ekki til að styðja málið.

Alþingi, 9. maí 2005.



Kolbrún Halldórsdóttir.