Hafnalög

Fimmtudaginn 19. janúar 2006, kl. 14:32:53 (3345)


132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Hafnalög.

380. mál
[14:32]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Hér er verið að ræða frumvarp sem felur í sér breytingu á hafnalögum sem fyrst og fremst er fólgin í að fresta og um leið að framlengja hafnahluta samgönguáætlunar. Í því samhengi er rétt að rifja upp að frá því að sú pólitíska ákvörðun var tekin að efna til samkeppni milli hafna og um leið að draga hægt og rólega úr framlögum ríkisins til þeirra þannig að hafnir verði samkeppnisfærar, en jafnframt að séð verði til að þær séu nokkuð jafnsettar áður en ríkisvaldið sleppir hönd sinni af þeim, þá má segja að sú ákvörðun hafi hlotið misjafnar undirtektir hjá hafnarstjórnarmönnum eða sveitarstjórnum sem er í sjálfu sér skiljanlegt og eðlilegt. En meginrökin sem hæstv. ráðherra flytur fyrir þessu er auðvitað hin mikla þensla sem annars vegar er í efnahagslífinu og er liður í að fresta ýmsum framkvæmdum á vegum hins opinbera og þar með að létta á ríkiskassanum. Það er þá viðleitni og eitt af framlögum ríkisvaldsins til að draga úr hinum opinberu útgjöldum meðan þenslan er hvað mest.

En hins vegar held ég að það eigi ekki síður að líta á það sem hæstv. ráðherra nefndi hér. Frá því að þessi ákvörðun var tekin hefur ýmislegt gerst. Meðal annars hefur skipastóllinn verið að þróast og breytast, skip að stækka, verða djúpristari og þar fram eftir götunum. En jafnframt er ýmislegt að gerast varðandi sameiningu og samstarf hafna. Frá því að þessi ákvörðun var upphaflega tekin hafa orðið allverulegar breytingar í innviðum hafnasamlaga og hafnarmannvirkja hér á Íslandi. Þess vegna er mjög eðlilegt að taka málið til gagngerðrar endurskoðunar og rökrétt að því sé fylgt eftir með því að framlengja frestinn og taka málið upp við endurskoðun á samgönguáætlun þannig að það nái til 2010. Með öðrum orðum eru tvær meginforsendur, það er hin efnahagslega og ég hygg að flestir og allir geti verið sammála um mikilvægi þess að slá á þenslu án þess að það komi niður á mannvirkjum en ekki síður að það þurfi endurmeta stöðuna í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í umhverfinu. En að þessu sögðu hygg ég að það hljóti að renna nokkuð hratt í gegnum hv. samgöngunefnd.