Matvælarannsóknir hf.

Þriðjudaginn 24. janúar 2006, kl. 14:22:58 (3641)


132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Markmiðið með þessu frumvarpi er göfugt, hagræðing og nýsköpun og allt til að efla þjóðarhag, en það sem mig langaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í er eftirfarandi: Hvað er öðruvísi núna? Nú er verið að slá þessum stofnunum saman í eina stóra en á undanförnum árum höfum við farið í svona framkvæmdir, að slá saman stofnunum, t.d. Ríkisspítulunum. Það var gerð ein stór stofnun, Landspítali – háskólasjúkrahús, og það skilaði fyrst bæði færri aðgerðum og hærri kostnaði. Það var m.a. vegna þess að málið var ekki nægjanlega undirbúið.

Fleiri mál má nefna í þessum geira, svo sem að þegar Umhverfisstofnun var sett á laggirnar skilaði það eingöngu hærri kostnaði og sáralitlu öðru, einni stórri stofnun og miklu meiri kostnaði. Þess vegna væri fróðlegt að fá svar við þessu hjá hæstv. forsætisráðherra: Hvað er öðruvísi í undirbúningnum núna sem verður til þess að við getum vænst þess að árangurinn verði betri en á undangengnum árum þegar ríkisstofnanir hafa verið settar saman?