Matvælarannsóknir hf.

Þriðjudaginn 24. janúar 2006, kl. 15:08:29 (3654)


132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[15:08]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég kaus að taka þátt í umræðunni til að lýsa sérstakri ánægju minni með þetta frumvarp. Umræðan um matvælarannsóknir og matvælaeftirlit hefur staðið mjög lengi, bæði hér í þingsölum og í samfélaginu og það er löngu orðið tímabært að taka ákveðin skref í að reyna að sameina og samræma þessa starfsemi þannig að umræðan hefur verið löng. Það hafa starfað nefndir undir forustu hæstv. forsætisráðherra eins og hér hefur komið fram og ég vil líka draga fram eins og kemur fram í greinargerðinni að Vísinda- og tækniráð hefur sérstaklega skoðað stefnuna gagnvart þessum opinberu rannsóknastofnunum og ráðið hefur lagt til að þær verði endurskipulagðar þannig að kraftar þeirra verði sameinaðir og að þær tengi starfsemi sína við háskóla og atvinnulífið í landinu og sameinist í sjálfstæða öfluga stofnun eins og í þessu tilviki. Það má segja að eftir mikla og ítarlega skoðun í stjórnsýslunni og á vegum Vísinda- og tækniráðs þá erum við með frumvarp í höndunum sem lýtur að þessari stefnumótun. Það á að sameina Rannsóknastofu fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknirnar í Keldnaholti og Rannsóknarstofnunina hjá Umhverfisstofnun.

Það hefur komið fram að þetta á að vera hlutafélag og það kemur fram í frumvarpinu að við stofnun eigi allt hlutafé að vera í eigu ríkisins, sem sagt við stofnunina. En það hefur líka komið fram að líklega verði það svo, sem er röksemd með því að færa þetta í hlutafélagaform, að þá getum við fengið fleiri að þessari stofnun sem er mjög æskilegt. Samtök atvinnulífsins hafa verið nefnd í því sambandi í greinargerðinni og öflug matvælafyrirtæki og háskólar þannig að líklega munum við sjá breytingar á þessu hlutafélagaformi í framtíðinni þar sem fleiri koma að og ég held að það sé mjög til bóta.

Áðan sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson að hlutafélagaformið hefði ákveðna kosti og ákveðna galla líka og dró fram tvo kosti eða tvö atriði sem snúa að stærstum hluta til að forminu, þ.e. sala hlutarins. Það er rétt, menn hafa farið í hlutafélagaform m.a. til að geta selt hluta af félagi en ekki allt í einum pakka eins og áður var.

Hinn kosturinn var aðhald hluthafa sem er alveg rétt. En þingmaðurinn kaus að nefna ekki eitt atriði sem hefur verið notað mjög mikið í umræðunni varðandi hlutafélagavæðingu. Það er aukinn sveigjanleiki í rekstri og það hefur verið notað bæði sem röksemdafærsla með þessu máli og hefur auðvitað líka verið notað gagnvart Ríkisútvarpinu sem þingmenn hafa ítrekað komið inn á í þessari umræðu, sem er ekkert óeðlilegt. Það var mælt fyrir því í gær.

Varðandi frumvarpið um Ríkisútvarpið er það þannig að í því stendur að það eigi ekki að selja hlut ríkisins. Það þarf sem sagt sérstaka ákvörðun þar um, lagabreytingu, en í dag skilst mér að það sé þannig að það væri hægt að selja Ríkisútvarp líklega bara með heimild 6. gr., þannig að ef eitthvað er þá er aldeilis verið að herða tökin á því að það verði ekki selt nema það sé algerlega meðvituð ákvörðun á þingi og mun meiri girðingar en eru í lögum í dag.

Varðandi þetta hlutafélag þá munu möguleikar atvinnulífsins, háskólanna og annarra fyrirtækja til aðkomu að þessari stofnun aukast til muna í gegnum þetta. Fyrirtækið á að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, í þágu lýðheilsu og í þágu matvælaöryggis og ég tel að hér sé um mjög mikilvægan málaflokk að ræða. Við sjáum síauknar kröfur um slíkt. Það eru síauknar kröfur til atvinnulífs til rannsókna, það eru síauknar kröfur á sviði lýðheilsu til rannsókna og það eru síauknar kröfur neytenda og framleiðenda á sviði matvælaöryggis, á sviði rannsókna. Menn vilja vita hver gæði vörunnar séu. Ég vil nefna sérstaklega eitt sem lýtur að hagsmunum okkar Íslendinga en það eru eiturefni í fiski. Það er geysilega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vita nákvæmlega hvernig gæðin eru í fiskinum okkar. Þau eru auðvitað mjög mikil en við þurfum að geta sýnt fram á það gagnvart neytendum erlendis. Slíkt er ekki hægt að sýna fram á með frambærilegum hætti nema hér séu stundaðar öflugar rannsóknir, við verðum að vita nákvæmlega hvaða vöru við erum með í höndunum til að geta selt hana.

Það liggur mikil skynsemi að baki því skrefi sem við tökum með hlutafélagavæðingu og sameiningu þessara stofnana í eitt hlutafélag. Rannsóknirnar munu aukast að gæðum, það verður líka hagræðing, því skal ekki á móti mælt og er ágætt að draga það fram, og það verður minna um tvíverknað. Það kemur fram í greinargerðinni. Það verða samræmd vinnubrögð og betri þjónusta við atvinnulíf og neytendur. Síðan er að sjálfsögðu annar vinkill á þessu eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson drógu hér fram, þ.e. þetta „samkeppnismoment“ eða að hlutafélagaformið hentar betur gagnvart samkeppnisaðilum sem eru í rannsóknum á markaði.

Það kemur fram að frumvarpið byggist á tillögum ákveðinnar nefndar og sú nefnd taldi eðlilegt að höfuðstöðvar þessarar Matvælarannsóknarstofnunar Íslands yrði í Reykjavík en það yrði öflugt rannsóknarsetur á hennar vegum við Háskólann á Akureyri. Ég tel því miðað við þetta að byggt verði upp við Háskólann á Akureyri öflugt setur. Þetta kemur fram á blaðsíðu fjögur í textanum. Ákveðið landsbyggðasjónarmið liggur þarna að baki og ákveðin geta felst í starfseminni við Háskólann á Akureyri sem mun nýtast. Síðan eiga að vera náin tengsl við Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Tækniskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt.

Ég tel líka að það sé ákveðinn landsbyggðarvinkill á þessu máli sem menn hafa ekki gert mikið úr hér. Það er vegna þess að matvælaframleiðsla á Íslandi er ein umsvifamesta grein íslensks atvinnulífs og vinnumarkaðar. 12,7% starfa í landinu eru við matvælaframleiðslu og 62,3% af vöruútflutningi okkar. Með því að efla rannsóknir á sviði matvæla, efla matvælarannsóknir þá styrkjum við stoðir þessar atvinnugreinar. Því verður ekki á móti mælt þannig að það er líka landsbyggðarvinkill á þessu frumvarpi, virðulegur forseti.

Ég tel líka eðlilegt að draga það fram um sameiningu þessara stofnana að þær geta varla talist stórar í dag. Þetta verða samtals 76 starfsmenn þegar búið er að sameina. Í dag eru 56 hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, átta hjá Matra uppi í Matvælarannsóknunum á Keldnaholti og 12 á rannsóknarsviðinu hjá Umhverfisstofnun. Þetta verða 76 starfsmenn. Ekki getur þetta talist geysilega stór stofnun þó hún verði mun stærri og mun öflugri en þær þrjár sem fyrir eru. Ég tel mjög mikilvægt að efla þessa starfsemi undir sameiginlegum hatti eins og hér er stefnt að m.a. til að vera öflug í samstarfi við erlenda aðila. Það er þannig, virðulegur forseti, að rannsóknir, sérstaklega matvælarannsóknir, eru að verða miklu hnattrænni en þær hafa verið áður. Það eru gerðar meiri kröfur. Þessar rannsóknir eru ekki hólfaskiptar lengur, eiga ekki að vera það. Menn eru farnir að vinna saman. Tæknin er meiri. Það er mjög mikil þróun í þessum rannsóknum. Þess vegna er eðlilegt að þessar stofnanir sameinist, m.a. til að geta verið í virkara samstarfi við erlenda aðila sem eru miklu stærri eins og eðlilegt er í fjölmennari samfélögum.

Ég tel líka mjög mikilvægt að gera matvælaöryggisþættinum almennt góð skil en á sínum tíma — og það er ágætt að rifja það upp við þetta tækifæri hér — að fyrsta málið sem sú er hér stendur tók upp í ríkisstjórn á sínum tíma sem umhverfisráðherra voru viðbrögð við mjög svo aukinni kamfílóbaktereitrun á Íslandi. Kamfílóbaktereitrun stórjókst. Við höfðum miklar áhyggjur af þessu á þeim tíma. Margir sýktust. Sumir þurftu að leggjast inn á sjúkrahús. Þetta geta verið hættulegar eitranir og það þurfti að taka á því. Það er geysilega mikilvægt því að neytendur í dag eru sífellt háðari því að kaupa sér í matinn í verslunum. Menn eru auðvitað löngu hættir að framleiða matinn sjálfir flestir. Við verðum því að treysta á að þau matvæli sem við kaupum í búðinni séu í lagi. Þess vegna verða matvælarannsóknir að vera öflugar. Þegar svona bráðatilfelli koma upp, eins og komu upp á sínum tíma varðandi kamfílóbakter og hafa komið upp út af salmonellu og ýmsu, þá þarf að vera hægt að bregðast mjög hratt við, fá yfirsýn yfir hættuna og það verður að vera hægt að grípa til aðgerða sem byggja þá á einhverri niðurstöðu. Því er mjög mikilvægt að þessi starfsemi sé eins öflug og hægt er að hafa hana og við getum eflt hana með því að stíga þetta skref sem lagt er til í frumvarpinu.

Ég vil nefna fleiri rannsóknir sem eru stundaðar á sviði matvæla. Það er til dæmis verið að rannsaka reglulega varnarefni í grænmeti og ávöxtum og fleira. Þessar rannsóknir eru mjög mikilvægar af því að fólk er háð því að geta keypt örugga vöru.

Virðulegi forseti. Nú hef ég dregið fram allt hið jákvæða við málið. Ég sé ekki galla á þessu frumvarpi. Því vil ég að lokum minna á til upprifjunar að fyrir ekki löngu síðan var flutt frumvarp til laga — það var reyndar ekki flutt heldur lagt fram til kynningar — frumvarp til laga um eftirlit með matvælum og heilbrigði dýra. Það var á 128. löggjafarþingi 2002–2003. Þar var lagt til að allt matvælaeftirlit og rannsóknir yrðu í einni stofnun þ.e. í matvælastofnun. Á sínum tíma var tekist talsvert á um þetta. Þingmenn geta rétt ímyndað sér að þeir ráðherrar sem viðkomandi stofnanir féllu undir, þ.e. hæstv. umhverfisráðherra, sjávarútvegsráðherra og landbúnaðarráðherra, hefðu sjálfsagt allir viljað fara með svið þessarar matvælastofnunar sem til stóð að stofna. Ég var mjög mikill stuðningsmaður þess að við tækjum þetta skref og kæmum upp einni öflugri matvælastofnun. Það sem við erum að gera hér er skref í þá átt. Í frumvarpi um matvælastofnun sem var lagt hér fram til kynningar á sínum tíma — það var ekki mælt fyrir því og það fór ekki til nefndar o.s.frv. Það var ekkert kveðið upp úr um það hvaða ráðherra ætti að bera upp málaflokkinn í sínum herðum — en í því frumvarpi var bæði eftirlitsþátturinn inni og rannsóknarþátturinn. Ég dreg þetta sérstaklega fram hér, virðulegur forseti, af því að í því frumvarpi sem við fjöllum um hér er rannsóknarþátturinn. Þar er ekki eftirlitsþátturinn. Því má segja að búið sé að klippa þetta tvennt í sundur og við séum að stíga hér eitt skref í málinu í heild, þ.e. við erum að sameina rannsóknarþáttinn.

Ég dreg þetta sérstaklega fram af því að hér kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni áðan að hann telur að eftirlitsþátturinn og rannsóknarþátturinn eigi ekki að vera á sömu hendi. En það er einmitt verið að stíga það skerf með þessu. Rannsóknarþátturinn er klipptur út úr. Þess vegna verður spennandi að sjá hvað verður um eftirlitsþáttinn, af því að við erum ekki að afgreiða hann hér núna. Eftirlitsþátturinn er núna hjá Fiskistofu að hluta, hjá Umhverfisstofnun að hluta og hjá Landbúnaðarstofnuninni sem verður, þessari nýju á Selfossi, að hluta. Því er spurning hvað verði um eftirlitsþáttinn. Svo er auðvitað fullt af eftirliti hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Ég á því von á að á fjörur okkar muni reka, síðar væntanlega, hvernig verður haldið á því máli, annaðhvort í formi ríkisstjórnarfrumvarps eða með einhverjum öðrum hætti, þingmannafrumvarps eða hvernig sem það nú verður. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að eins og ég skil þetta mál þá erum við að taka á rannsóknarþættinum en eftirlitsþátturinn er ekki afgreiddur enn þá.

Ég vil í heildina óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með þetta skref. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og tel að þetta verði mjög til bóta fyrir alla rannsóknarstarfsemi á sviði matvælarannsókna á Íslandi.