Lög og reglur um torfæruhjól

Miðvikudaginn 25. janúar 2006, kl. 13:34:06 (3738)


132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Lög og reglur um torfæruhjól.

301. mál
[13:34]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja vegna ræðu hv. þingmanns að ég er mjög ánægður með að starfsmönnum Umferðarstofu sé hælt eins og hér var gert. Það verður að viðurkennast að eftirlitsstofnanirnar og t.d. Umferðarstofa liggja oft og tíðum frekar undir skömmum og athugasemdum vegna þeirra vandasömu verkefna sem þeim er falið að vinna að. Ég er því ánægður með að heyra það sem hér kom fram.

En svar mitt við fyrirspurninni er svohljóðandi: Samgönguráðuneytið hefur farið með málefni umferðarmála í tæp tvö ár. Á þessum tíma hefur ráðuneytið lagt mikla áherslu á öryggissjónarmið og má því til stuðnings nefna metnaðarfulla umferðaröryggisáætlun, sem hér hefur oft verið til umræðu, sem ég lagði fram í fyrsta skipti sem hluta af samgönguáætlun á síðasta þingi.

Umferðaröryggisáætlun gerir ráð fyrir að rúmlega 1,5 milljörðum kr. verði varið á næstu fjórum árum aukalega til að fækka alvarlegum slysum í umferðinni. Samhliða þessum aðgerðum hef ég einnig lagt áherslu á stöðuga endurskoðun á umferðarlöggjöfinni með það að markmiði að auka öryggi í umferðinni. Þess vegna eru umferðarlögin fyrir þinginu að þessu sinni.

Flokkun og skilgreining ökutækja er í umferðarlögum nr. 50/1987 og í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Reglurnar mótast af EB-reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Í EB-reglum eru torfærutæki ekki skilgreind en skilgreining þeirra í íslenskum reglum mótast af notkun þeirra utan vega eftir því sem heimilt er. Torfærutæki er samkvæmt umferðarlögum skylt að skrá og ábyrgðartryggja samkvæmt reglum umferðarlaga um fébætur og vátryggingu. Torfærutækjum má ekki aka á vegum nema til þess að fara yfir þá eða fara skemmstu leið til að fara út af þeim aftur. Umferð ökutækja, þar með talið torfærutækja, er verulega takmörkuð því skv. 17. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem ég veit að fyrirspyrjandi þekkir afar vel, er bannað að aka vélknúnum ökutækjum og þar með talið torfærutækjum utan vega. Undantekningar eru á jöklum svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis og svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.

Í umferðarlöggjöfinni er fyrst og fremst fjallað um ökutæki sem samgöngutæki, tæki sem notað er til þess að fara á milli staða. Almennt tel ég reglur laga og reglugerða um torfærutæki, þar með talin torfærubifhjól, fullnægjandi og nægilega skýrar með tilliti til almennrar umferðar og umferðaröryggis. Í samgönguráðuneytinu er hins vegar verið að skoða reglur um skráningu torfæruhjóla. Markmið þeirrar vinnu er að tryggja að notkunin verði í samræmi við lög og reglugerðir, þ.e. að koma í veg fyrir að verið sé að aka um á óskráðum og ótryggðum hjólum eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda.

Í 17. gr. laga um náttúruvernd segir sem almenna reglu að óheimilt sé að aka utan vega. Þó heimila lögin nokkrar undantekningar og eru þær útfærðar nánar í reglugerð nr. 528/2005, um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands. Þá segir í 34. gr. umferðarlaga: „Ráðherra getur sett reglur um akstursíþróttir á sérstökum afmörkuðum svæðum utan vega.“

Í reglugerð nr. 257/2000, um akstursíþróttir og aksturskeppni, sem sett er skv. 34. gr. umferðarlaga segir að aka megi torfærutækjum á svæðum sem samþykkt hafa verið fyrir akstursíþróttir. Samkvæmt reglugerðinni skal leyfi til aksturskeppni einungis veitt vélhjóla- og vélsleðaíþróttanefnd ÍSÍ og Landssambandi íslenskra akstursfélaga og ekki er hægt að halda keppni án samþykkis lögreglu og að uppfylltum öðrum þeim skilyrðum sem í reglugerðinni greinir. Vera kann að rétt sé að endurskoða reglugerð um akstursíþróttir. Raunar hafa slíkar hugmyndir komið fram frá akstursíþróttamönnum sem verið er að skoða í samgönguráðuneytinu. Ákvörðun þess hvort endurskoða þurfi reglugerðina verður tekin fljótlega og þá jafnframt ákveðið hverjir muni koma að því verki ef til kemur. Við endurskoðun reglugerðarinnar má gera ráð fyrir að hafðar yrðu til hliðsjónar samsvarandi reglur á (Forseti hringir.) hinum Norðurlöndunum. En ég er tilbúinn til þess að láta mitt fólk í ráðuneytinu fara yfir þetta og m.a. með tilliti til ábendinga hv. þingmanns.