Lög og reglur um torfæruhjól

Miðvikudaginn 25. janúar 2006, kl. 13:41:54 (3741)


132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Lög og reglur um torfæruhjól.

301. mál
[13:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er alveg ljóst að sá hópur sem stundar torfærumótorhjólaakstur er mjög vaxandi. Verið er að flytja inn hjól á degi hverjum. Þetta er tiltölulega ný íþrótt og ég skil vel að lagaumhverfið sé ekki enn þá orðið fullþroskað og svæðin séu ekki orðin nógu góð og nógu mörg. Þetta eru því nokkurs konar barnasjúkdómar sem við erum að ganga í gegnum.

Þetta er í þriðja skipti sem ég tek upp málefni þessa hóps. Áður hef ég tekið þetta mál upp við hæstv. umhverfisráðherra og viðskiptaráðherra og nú við samgönguráðherra. Það er tilhneiging hjá öllum ráðherrunum að horfa á sitt svið og það er að sjálfsögðu ósköp eðlilegt. Öll vilja þau skoða þetta og ég fagna því, en á sama tíma vil ég draga fram að það verður að fara heildstætt yfir þessi mál sameiginlega því að það gerist ósköp lítið ef menn hugsa bara um að einangra sinn málaflokk. Ég kalla svolítið eftir því hvort samgönguráðherra gæti hugsað sér að taka málið að sér. Það er vegna að ég sé ekki betur en að Umferðarstofa, miðað við þau gögn sem ég hef skoðað sem ég tel að séu heildstætt yfirlit um málefni þessa hóps, hafi gengið langlengst í vinnunni. Þar hafa embættismennirnir farið yfir málið með ótrúlega heildstæðum hætti. Þar er verið að skoða skráningu þessara tækja og notkun þeirra, tryggingar, ökuréttindi, viðurlög, vörugjöld o.s.frv. Þetta er heildræn nálgun sem ég fagna mjög mikið. Því spyr ég: Kemur til greina að samgönguráðherra beiti sér sérstaklega í því að safna saman liði úr öðrum ráðuneytum til að fara yfir þessi mál? Ég gæti auðvitað flutt þingsályktunartillögu um að stofna skuli nefnd með fulltrúum úr samgönguráðuneytinu, umhverfisráðuneytinu, viðskiptaráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, sveitarfélögum o.s.frv. sem gerði þetta. Það tekur tíma þannig að ég nýti tækifærið og spyr hæstv. samgönguráðherra: Kemur til greina að samgönguráðherra taki forustu í þessu máli?