Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 11:28:41 (4171)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:28]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að elta hæstv. menntamálaráðherra uppi í þessu máli, við hljótum að átta okkur á að hugur hæstv. ráðherra hlýtur að vera fullur af metnaði um að ráða yfir öllum háskólum landsins.

Varðandi gjaldtökuheimildir sem síðar munu koma í reglum frá hæstv. ráðherra er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra segi okkur hug sinn í þeim efnum því ég man ekki betur en hún ásamt fleiri hæstv. ráðherrum hafi gefið yfirlýsingar um að það væri markmiðið með þessu lagafrumvarpi, sem þá var væntanlegt, ef ég man rétt, að allir háskólar landsins sætu við sama borð hvað fjármögnun varðar. Það er augljóst að svo er ekki. Þetta er auðvitað flókið og viðamikið mál sem þarf að ræða sérstaklega í menntamálanefnd en það er eðlilegt að hæstv. ráðherra láti í ljós einhverjar skoðanir í þeim efnum, þ.e. hvaða leiðir eru færar til að jafna þessa aðstöðu þannig að það verði uppfyllt sem lofað var, að allir sætu við sama borð.

Þá er einnig athyglisvert og nauðsynlegt að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra varðandi sí- og endurmenntun, eða um það form sem hér er boðað í frumvarpinu um að ríkisháskólarnir eigi ekki að fá það allt greitt, en að settar verði sérstakar reglur um það.