Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 11:35:40 (4177)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:35]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gengst við því strax í upphafi að ég er alltaf tortrygginn á lög um háskóla. Ég er þeirrar skoðunar að háskólar eigi að vera sem sjálfstæðastir. Ég er líka þeirrar skoðunar að það séu bara tvenns konar mælikvarðar á gildi þeirrar menntunar sem háskólar veita á sviði rannsóknarnáms. Þessir mælikvarðar eru í fyrsta lagi: Hvernig taka háskólar erlendis við þeim sem koma út úr háskólunum? Og hinn mælikvarðinn er: Hvernig tekur markaðurinn við þessu fólki? Þetta eru mælikvarðarnir. Ég held að það sé mjög erfitt að reyna að laga eða breyta frammistöðunni, einfalda með einhverjum reglugerðum. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég skil ekki alveg gildi þessa frumvarps eða markmið. Er hægt með ytra eftirliti að breyta inntaki og gæðum doktorsnáms? Og ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta frumvarp nauðsynlegt til að ryðja einhverjum þröskuldum úr vegi vegna hreyfanleika nemenda, möguleika á að komast til náms annars staðar?