Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 11:37:50 (4179)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[11:37]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki vil ég vera óháttvís við hæstv. ráðherra. En þetta svar hennar má kristalla með orðum sem hæstv. ráðherra notar gjarnan um andstæðinga sína: Þetta var innantómt blaður. Ég spurði hæstv. ráðherra: Hvað þarf að gera með þessu frumvarpi til að ryðja burt þröskuldum fyrir hreyfanleika? Hæstv. ráðherra kom og sagði: Það er ýmislegt sem þarf að gera. Það þarf að auka gagnsæi. En hvaða aðgerðir í frumvarpinu eru ekki þegar við lýði fyrir utan einhverjar heldur óljósar reglur um ytra eftirlit? Hvað er það í frumvarpinu sem er ekki þegar í gangi? Og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Hvaða þröskuldar eru það sem þarf að ryðja úr vegi til að auka hreyfanleika íslenskra námsmanna gagnvart erlendum háskólum? Ég held nefnilega að innstæðuna vanti í þetta (Forseti hringir.) frumvarp. Mér finnst það ekki snúast um aðalatriði.