Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 12:00:15 (4182)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:00]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar var fyrir margra hluta sakir merkileg, sérstaklega vegna þess að við fjöllum hér um frumvarp til laga um háskóla sem lagt er fram af hæstv. menntamálaráðherra. Hv. þingmaður kaus hins vegar að fjalla um allt aðra hluti en frumvarpið kveður á um.

Ræða hans snerist ekki að neinu leyti um frumvarpið og var þar af leiðandi ekki innlegg í þá umræðu sem hér mun fara fram um frumvarpið og framtíðarsýn okkar varðandi lagaumhverfi háskóla. Þó vék hv. þingmaður nokkrum sinnum almennt að frumvarpinu. Það vakti sérstaka athygli mína er hann sagði að hann teldi frumvarpið ekki pappírsins virði.

Mér finnst þetta dálítið sérstakt í ljósi þess að frumvarpinu er ætlað að fjalla um hlutverk háskóla, viðurkenningu þeirra, námsframboð og prófgráður. Hér er ítarlegur kafli um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna, stjórnskipan háskólanna, starfslið háskólanna. Þar fyrir utan er ítarlegur langur kafli um nemendur í háskólum. Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er, eins og segir í frumvarpstextanum, að styrkja réttarstöðu nemenda frá gildandi lögum og tryggja réttindi þeirra umfram það sem nú er.

Ég hlýt því að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ekki að frumvarpið feli í sér framför hvað varðar stöðu nemenda innan háskólanna (Forseti hringir.) og ekki síður hvað varðar eftirlit með gæðum og rannsóknum á háskólastigi (Forseti hringir.) sem Samfylkingin hefur kallað eftir í umfjöllun sinni um menntamál.

(Forseti (JBjart): Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk í andsvörum.)