Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 12:04:48 (4184)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:04]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekkert um að fjárframlög til háskóla verði rædd á fundum menntamálanefndar þegar þetta mál verður tekið til umræðu. Ég minni hins vegar hv. þingmann á að menntamálanefnd fer ekki með fjárveitingavald á Alþingi. Það gerir fjárlaganefnd og síðan þingið sjálft sem ákveður fjárframlög hvort sem er til háskóla eða annarra. Þau mál munu þó eflaust verða rædd innan nefndarinnar.

Hins vegar er mikilvægt að menn átti sig á að frumvarpið fjallar ekki um fjárframlög til háskóla heldur um allt annað efni. Í því eru reglur sem lúta að háskólunum og innra skipulagi þeirra, gæðum og viðurkenningu á því námi sem þeir bjóða upp á. Hér er ekki verið að fjalla um skólagjöld þrátt fyrir að hv. þingmaður sé mjög upptekinn af þeim og vilji bendla Sjálfstæðisflokk, nánast í hverja einustu ræðu sem hann heldur á hinu háa Alþingi, við upptöku skólagjalda. Ég held að hv. þingmaður ætti að fara varlega í því. Ég man ekki betur en að í október 2004 hafi hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, lýst stefnu sinni og skoðunum varðandi skólagjöld í háskólum. (Gripið fram í.) Hún taldi óeðlilegt að fólk þyrfti að greiða skólagjöld vegna barna sinna í leikskólum en ekkert fyrir nám á háskólastigi.

Ég hygg að formaður Samfylkingarinnar sé einmitt sá stjórnmálaleiðtogi og formaður stjórnmálaflokks í þessu landi sem talað hefur hvað opinskáast og jákvæðast um upptöku skólagjalda á háskólastigi. Það væri gaman að heyra, í seinna andsvari frá hv. þingmanni, hvort hann sé sammála formanni sínum eða hvort kominn sé upp klofningur innan Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) varðandi rétt til töku skólagjalda.