Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 12:07:08 (4185)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:07]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem ég er að kalla eftir, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn þori að gera það sem formaður Samfylkingarinnar gerir, þ.e. að fjalla um kosti og galla skólagjalda. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún sagði algjörlega fráleitt að rukka há skólagjöld í leikskólum en lág eða engin í háskólum. Það merkir að leikskólinn á að sjálfsögðu að vera gjaldfrjáls. Hins vegar er sjálfsagt að taka umræðu um kosti og galla skólagjalda sem leiðar til að fjármagna starfsemi háskóla.

Ég er mikill áhugamaður um Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur stjórnað Íslandi svo lengi og mótað samfélagið í sinni mynd, má nánast segja. Samfélagið er einhvern veginn undirselt stefnumiðum Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna er íslenskt samfélag ósanngjarnara og ójafnara en önnur norræn samfélög og skyldi engan undra þótt að Sjálfstæðisflokkurinn blandaðist inn í umræður um grundvallarmál eins og skólagjaldtöku á háskólastigi. Ég hélt því að flokkurinn þyrði að hafa forgöngu í málinu, þyrði að standa við stefnuna sem er predikuð á landsfundum, stefnu sem er dregin upp svona öðru hverju.

Menntamálaráðherra hæstv. sagði í viðtölum í ársbyrjun 2004 að eitt af verkefnunum væri að innleiða skólagjöld í opinberu háskólunum. Landsfundurinn í fyrra, 2005, sagði nákvæmlega það sama með öðrum orðum. Ég kalla eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki alltaf á flótta undan eigin stefnumiðum, undan eigin pólitík, og komi til dyranna eins og hann er klæddur, að hörðustu frjálshyggjumenn, yst af hægri kanti stjórnmálanna, komi ekki í ræðustól með félagshyggjuhempu á öxlunum og tali um allt nema það sem máli skiptir.

Auðvitað skiptir öllu máli hvernig á að fjármagna háskólana. Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn í þeim málum, sem opinberu háskólarnir eru svo aðþrengdir fjárhagslega að þeir þurfa skýr svör um hvert stefna skuli?