Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 12:09:20 (4186)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:09]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um háskóla. Hæstv. menntamálaráðherra fór yfir helstu atriðin en ég vil þó nota tækifærið og koma að nokkrum atriðum sem mér finnast standa upp úr í frumvarpinu. Mér finnst mikilvægt að fram komi heildstæða löggjöf. Þótt rekstrarform háskóla sé mismunandi þá er ég sannfærð um að frumvarpið mun áfram tryggja sveigjanleika í skipulagi skólanna og áhersluna á sjálfstæði þeirra.

Eftir að í gildi gengu lög um háskóla í byrjun árs 1998 er hægt að segja að mótað hafi verið umhverfi sem ýtti undir fjölbreytni og samkeppni á háskólastiginu. Margir hafa þó bent á ójafna samkeppnisstöðu og get ég tekið undir þá gagnrýni að hluta. Ég tel þó að það hafi gert grónum skólum mjög gott að fá samkeppni. Nýju skólarnir hafa, sem og hinir eldri, sýnt mikinn metnað og árangur hin síðustu ár í þessu umhverfi.

Lengi hefur verið talað um gæðaeftirlit skólanna. Það hefur vafist fyrir mörgum að skilgreina þetta gæðaeftirlit en í frumvarpinu er kveðið skýrt á um framvindu þess. Eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna fer fram á tvo vegu, annars vegar með innra mati háskóla og hins vegar með reglubundnu ytra mati. Skólarnir bera sjálfir ábyrgð á innra matinu, líkt og verið hefur, en ráðherra ber ábyrgð á ytra matinu. Það er mikilvægt að bæði starfsmenn og nemendur séu virkjaðir í innra gæðamat skólanna því að öðruvísi næst ekki árangur.

Varðandi ytra gæðamat skal ráðherra gera um það áætlun til þriggja ára. Mikilvægt er að hafa sveigjanleika til að bregðast við aðstæðum og því er ráðherra heimilt að láta fara fram sérstakt mat á háskólum eða einstökum einingum hans, svo sem deildum eða fræðasviðum ef ástæða þykir til. Þetta er gríðarlega þýðingarmikið atriði vegna þess að allt í einu getur komið upp breytt staða einhvers staðar og þá verður ráðherra að hafa svigrúm til að geta brugðist skjótt við.

Ég vil líka minnast á eitt atriði sem gleður mig að sjá, varðandi ytra gæðamatið. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Framkvæmd ytra mats skal falin óháðum aðila. Að því mati skulu að jafnaði koma bæði innlendir og erlendir sérfræðingar og fulltrúi nemenda.“

Hér er passað upp á fullt samráð við fulltrúa nemenda og er það vel.

Í kaflanum um stjórnskipan háskóla er fjallað um að hver háskóli skuli halda háskólafund, a.m.k. einu sinni á ári. Ég fagna þessu ákvæði. Háskólafundir eru góður vettvangur fyrir alla hópa innan skólans til að fara yfir fagleg málefni skólans og stefnumótun. Þar munu eiga fulltrúa bæði kennarar, nemendur og annað starfslið skólans. Ég hef reynslu af því að sitja slíka fundi hjá Háskóla Íslands og var þar kominn saman mikill hópur frá öllum deildum og stofnunum. Síðan höfðum við stúdentar nokkra fulltrúa. Þar sköpuðust oft líflegar umræður, kannski einum of líflegar að mati sumra, en margar góðar ályktanir standa eftir slíka fundi og þar hefur stefnan verið mótuð í ýmsum málum. Má þar sem dæmi nefna umhverfisstefnu, vísinda- og menntastefnu, auk þess sem ályktað hefur verið um bætta aðstöðu framhaldsnema.

Virðulegi forseti. Ég vil segja hæstv. menntamálaráðherra til hróss að ég er ánægð með hlut nemenda í frumvarpinu. Gætt er að því að þeir eigi aðkomu að nokkrum þáttum skólastarfsins. Þar má nefna gæðaeftirlit og háskólafundinn. Ég vil einnig minnst á að samkvæmt frumvarpinu á að lögfesta ákvæði um hlutverk og störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Það er mikil réttarbót að slíkt skuli lögfest.

Ágreiningsefni sem eru í núgildandi reglum haldast óbreytt, þ.e. námsmat, mat á námsframvindu og afgreiðsla umsókna um skólavist. Hins vegar bætast við ákvæði um brottrekstur nemenda úr háskóla. Það er mjög ánægjulegt að sá punktur sé kominn inn enda hafa fáar ákvarðanir jafníþyngjandi afleiðingar.

Áður en nemandi getur skotið máli sínu til áfrýjunarnefndar verður hann að hafa fullreynt kæruleiðir innan skólanna. Hin ótrúlegustu mál geta komið upp. Ég man eftir slíkum málum frá réttindaskrifstofu stúdentaráðs Háskóla Íslands. Oftast náðist sameiginleg niðurstaða innan skólans en auðvitað komu upp mál sem þurftu lengra. Því er gott að áfrýjunarnefndin skuli lögfest.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Markmið þess er að gera nám samanburðarhæfara, efla gæðaeftirlit, bæði hið innra og ytra, og styrkja réttarstöðu nemenda. Við förum í vinnu við frumvarpið í hv. menntamálanefnd og þar munu eflaust koma fram mörg sjónarmið. Það er líka gott að nefndin sem mótaði þessar tillögur eigi að starfa áfram og endurskoða gildandi sérlög um ríkisháskólana.