Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 12:43:23 (4192)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[12:43]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um frumvarpið, það er tiltölulega einfalt og skýrt. Þrátt fyrir þá svartsýni og efasemdir sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni lýsi ég yfir fullum stuðningi við frumvarpið því að það lýtur fyrst og fremst að því að ramma inn gæði með háskólastiginu á Íslandi.

Frú forseti. Háskólum á Íslandi hefur fjölgað verulega á allra síðustu árum. Segja má að sprenging hafi orðið á því sviði með fjölgun háskóla og enn er viðleitni til að auka háskóla. Stöðugt heyrum við raddir og óskir um, sérstaklega af landsbyggðinni, að koma upp háskólum til að bregðast við breyttum aðstæðum og þörf á hverju svæði.

Þá er rétt að minna á, eins og fram kemur m.a. í athugasemdum við frumvarpið, að frá árinu 1998 hefur nemendum á háskólastigi fjölgað úr 8 þúsund í 16 þúsund sem er 100% aukning á tiltölulega fáum árum eða frá 1998, og það sem meira er að námsframboði, prófgráðum sem boðið er upp á í íslenskum háskólum hefur fjölgað frá 1998 um 55%.

Þetta segir okkur að það hefur orðið algjör bylting á háskólastiginu á Íslandi og er til marks um að vel hefur verið staðið að verki, má segja, og menntastig þjóðarinnar er að hækka. Einmitt vegna þess hve örar breytingarnar hafa orðið á háskólastiginu er mjög mikilvægt að bregðast við og tryggja með hagsmuni okkar sem þjóðar að leiðarljósi og ekki síst þeirra nemenda sem sækja í háskólana, að sú starfsemi sem fram fer í einstökum háskólum uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur, að þar sé framfylgt þeim gæðakröfum sem bæði við setjum og alþjóðasamfélagið. Um það snýst þetta frumvarp. Þess vegna er full ástæða til að styðja það og fagna framkomu þess.

Gæðin sem fyrst og fremst er verið að ræða um lúta að kennslunni. Það segir sig sjálft að nemendur eiga beinlínis rétt á því þegar þeir setjast í háskóla, sama hvaða háskóli það er, að geta gengið að því sem vísu að kennslan uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur. Í ljósi þess að það hefur færst verulega í vöxt á síðustu árum að nemendur færa sig á milli háskóla, bæði innan lands og ekki síður erlendis, er einnig mjög mikilvægt að gæði kennslunnar á einum stað uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur þannig að þær einingar sem nemendur taka með sér milli háskóla séu beinlínis viðurkenndar og raski ekki námsframvindu einstakra stúdenta. Eitt megineinkenna háskólasamfélagsins er rannsóknarskyldan og það er að sjálfsögðu líka afskaplega mikilvægt að taka á því af þeirri festu sem hægt er að tryggja þau gæði þannig að þessar rannsóknir fari fram.

Frú forseti. Það hefur verið nokkuð á reiki í einstökum háskólum hvernig rannsóknarskyldunni hefur verið framfylgt, ef til vill vegna þess að ramminn utan um það hefur ekki verið nógu skýr. Er með þessu frumvarpi þar verið að bæta úr. Í tengslum við það hljótum við líka að velta upp þeirri spurningu hvort að skólar sem nú kalla sig háskóla hér á landi uppfylli allir og hafi í rauninni það markmið að vera háskóli í merkingunni akademía þar sem saman fer annars vegar kennslan og hins vegar rannsóknarskyldan. Við höfum svo dæmi um annað, sem hefur á erlendum málum verið kallað „community college“ og er þekkt ekki síst vestan hafs en einnig í Evrópulöndum, þar sem áherslan er meira á beint starfsmiðað nám en minna á rannsóknarskylduna. Þetta hefur verið nokkuð á reiki hér og er ástæða til að skerpa á þessu hugtaki ekki síst vegna stöðu skólanna innan íslensks menntakerfis.

Frú forseti. Ég árétta það sem ég nefndi áðan, hversu mikilvægt sé að háskólar sem hafa starfsleyfi á vegum hins opinbera uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur. Það byggir, eins og fram hefur komið hér, m.a. á Bologna-samþykktinni og norrænum samþykktum þar sem beinlínis er gert ráð fyrir að Evrópa öll sé undir þegar verið er að ræða háskólastigið. Í því felst að nemendur geta sótt sér nám til einstakra háskóla, fært sig á milli háskóla og þá á í rauninni ekki að skipta máli við hvaða háskóla einstakar námsgreinar eru stundaðar. Þær eiga að vera jafngildar allar í öllum háskólum. Þetta á að styrkja Evrópu með því að auðvelda nemendum að sækja háskólanám til einstakra skóla innan Evrópu sem hafa fallist á svokallað Bologna-samkomulag. Þar með er Evrópa í raun að styrkja samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum heimsálfum. Lykillinn að því er auðvitað menntunin og að nemendur geti leitað fanga sem víðast í þeim efnum til að afla sér háskólamenntunar. Þess vegna er nauðsynlegt að halda uppi gæðakröfum eins og þetta frumvarp miðar að.

Þá er líka rétt í þessu samhengi, frú forseti, að minna á að nokkuð hefur verið um það að nemendur hafa fært sig hér á milli háskóla, hafa byrjað í einum háskóla, lokið þar tilteknum þáttum en viljað síðan færa sig yfir í aðra háskóla. Á stundum hefur verið nokkur misbrestur á því að það hafi gengið upp. Upp hafa komið vandamál vegna slíkra flutninga og ég tel að með frumvarpi eins og þessu þar sem lögð er áhersla á gæðakröfur og ákveðin lágmarksviðmið sé verið að létta nemendum þennan flutning. Þá komum við að enn einu ákvæði þessa frumvarps sem ber að fagna, nefnilega rétti stúdenta á háskólastigi og um leið ábyrgð. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvæg réttarbót að lögfesta að nemendur í háskólanámi hafi ákveðin réttindi og gera ráð fyrir að hver háskóli innleiði ákveðið ferli til að tryggja og framfylgja þeim réttindum. En jafnframt er lögð áhersla á þá ábyrgð sem hver nemandi á að axla með því að vera kominn í háskóla. Hangir þetta að sjálfsögðu mjög saman, réttindi og ábyrgð, réttindi og skyldur, en það er ekki síður ábyrgðin sem ber að taka vel undir.

Í sjálfu sér þarf ekki að segja miklu meira um þetta frumvarp. Þetta er rammi utan um lágmarksgæði. En að sjálfsögðu eru þetta aðeins viðmið. Það er verið að tryggja að skólar uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur án þess þó að verið sé að veitast að hinu akademíska frelsi eða að markmiðið sé að steypa öllum háskólum í sama mót. Það er vitaskuld ekki markmið þessa frumvarps eða vilji nokkurs að slíkt gerist heldur einungis að tryggja lágmarkskröfur og á grunni þess getur síðan hver og einn skóli blómstrað með sínum sérkennum og sínum áhugasviðum.

Stjórnarandstöðunni verður nokkuð tíðrætt um það sem kallað er fjárskortur til háskóla. Sannarlega má tala um fjárskort því þörfin er mikil. En á stundum heyrast orð eins og niðurskurður sem að sjálfsögðu er mjög mikið rangnefni því fjárframlög til háskólastigsins hafa margfaldast frá því, eins og á árinu 1998, í kjölfar þeirra nemendasprengingar sem orðið hefur og ég gat um áðan þegar nemendum á háskólastigi fjölgar úr 8.000 upp í 16.000 á innan við tíu árum og er það líklega met. Að sama skapi hafa framlög til háskólastigsins aukist. Þau eru núna um það bil 1,6% af þjóðarframleiðslu og er það yfir meðaltali OECD-landanna sem við miðum okkur gjarnan við. Því ber að fagna. Vitaskuld þarf að halda áfram að fylgja þessari þróun eftir til að hækka menntastigið. Í þeirri umræðu hafa menn velt því upp hvort í rauninni séu aðeins tvær leiðir til að bæta enn frekar fjárhag einstakra háskóla fyrir utan svona almennt hagræði og þar fram eftir götunum. Þessar tvær leiðir eru annars vegar að auka útgjöld ríkissjóðs, eins og gert hefur verið myndarlega á síðustu árum eða hin leiðin að innleiða með einhverjum hætti skólagjöld. Sú umræða hefur ekki farið fram á hinum pólitíska vettvangi og því miður allt of oft einkennst af upphrópunum og köllum og ekki verið umræða heldur orðaskylmingar. En því ber að fagna að í þessari umræðu hafa menn einmitt opnað fyrir þennan þátt og þá umræðu þurfum við að taka. Ég hygg að flestir flokkar hér, ef Vinstri grænir eru undanskildir, séu tilbúnir að opna á þá umræðu og vilja ekki útiloka það að innleiða með einhverjum hætti skólagjöld á háskólastigi. Ég nefni sem dæmi að innan Framsóknarflokksins hefur sú umræða farið fram að útiloka alls ekki skólagjöld varðandi mastersnám eða síðara nám eða varðandi það þegar nemendur vilja sækja sér í annað eða þriðja sinn prófgráðu. Stór hluti þeirrar aukningar sem átt hefur sér stað á háskólastigi í dag er til komin vegna fólks sem er að koma úr atvinnulífinu til að bæta við sig prófgráðu, gjarnan með stuðningi frá stéttarfélögum eða jafnvel vinnuveitenda og er alveg full ástæða til að skoða hvort óeðlilegt sé að opna fyrir skólagjöld gagnvart slíkum hópum

Í tengslum við umræðu um skólagjöld ber jafnframt að hafa í huga hvernig Lánasjóður íslenskra námsmanna kemur að því máli. Lánasjóðurinn er að sjálfsögðu mikilvægt jöfnunartæki varðandi jafnrétti til náms. Í umræðunni um skólagjöld inn í háskólakerfi þurfum við að sjálfsögðu að hafa lánasjóðinn undir. Það er einmitt einkenni umræðunnar að nálgast viðfangsefnið með opnum huga en ekki með fordómum. Þannig munu menn fá hina bestu niðurstöðu.

Frú forseti. Meira þarf ekki um þetta að segja. Hér hefur í allan morgun verið um þetta talað og mörg spakleg orð fallið og þarf litlu við að bæta. Ég ítreka stuðning við þetta frumvarp, og meira en stuðning, ég fagna framkomu þess vegna þess að það á að stuðla að því að gæði á háskólastigi séu tryggð. Þar með er þetta liður í því að hækka menntastig íslensku þjóðarinnar. Lýk ég þar með máli mínu, frú forseti.