Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 14:09:38 (4195)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:09]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um háskóla og er nú komið undir lok 1. umr. Gagnrýnin hefur verið á rólegu nótunum, reyndar hefur umræðan verið meira um það sem vantar í frumvarpið en það sem frumvarpið snýst um. Sérstaklega er þá talað um að fjármálin séu tekin út fyrir sviga í frumvarpinu eins og hæstv. menntamálaráðherra orðaði það sjálf. Það hefur auðvitað verið gagnrýnt og ég tek undir þá gagnrýni.

Í VIII. kafla í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er fjallað um fjárhagsmálefni og þar segir, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra er heimilt að gera samninga til 3–5 ára í senn um fjárframlög til kennslu og rannsókna í háskólum sem hlotið hafa viðurkenningu menntamálaráðuneytis samkvæmt lögum þessum. Slíkir samningar eru skilyrði fyrir veitingu fjárframlaga til viðkomandi háskóla.“

Auðvitað væri eðlilegt að í frumvarpinu kæmi þá nánari skýring á eðli þessara samninga og almennt um fjárframlög til skólanna. Eins og við vitum hefur verið mjög deilt á það á Alþingi að háskólarnir séu í fjársvelti þrátt fyrir að hæstv. menntamálaráðherra haldi öðru fram. En staðreyndin er sú að nemendum í háskólum hefur fjölgað stórlega og ásókn í háskólana hefur aukist mjög mikið en fjárframlögin til háskólanna hafa ekki vaxið í samræmi við það.

Í 22. gr. segir, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra setur reglur um fjárframlög til háskóla. Skal þar kveðið á um nám og rannsóknir sem fjárveitingar renna til, vægi námsgreina, umfang rannsókna og aðra þætti sem fjárveitingar skulu taka mið af.“

Allt er þetta gott og gilt en um það gildir hin sama gagnrýni að þetta þyrfti að vera allt ítarlegra í frumvarpinu.

Ég kom aðeins inn á það í andsvörum mínum við ræðu hæstv. menntamálaráðherra að í 19. gr. er talað um að nemendur sem hefji nám í háskóla skuli hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Sem betur fer er tekið fram í frumvarpinu að háskólunum sé heimilt að innrita nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla.

Nú erum við með dæmi um að þegar háskólar, t.d. Háskólinn á Akureyri, hafa þurft að vísa nemendum frá er það yfirleitt fyrsta úrræðið, vegna þess að einhvern veginn þarf maður að flokka nemendur sem eru teknir inn, að segja: Þeir nemendur sem ekki eru með stúdentspróf fá ekki aðgang að háskólanum. Þetta er mjög slæmt vegna þess að nemandi, þó svo að hann sé ekki með stúdentspróf, getur verið fullfær og jafnvel færari en nemandi sem lokið hefur stúdentsprófi til að hefja nám við háskóla. Við ræddum aðeins um að í Danmörku gilda reglur um ákveðinn aldur. Þegar manneskja hefur náð ákveðnum aldri og er búin að vera á vinnumarkaði og hefur aflað sér þekkingar og reynslu þá er það tekið sem gilt stúdentspróf. Við vitum öll að það er oft erfitt þegar maður hefur misst af lestinni, ekki náð að klára stúdentsprófið, að hefja nám aftur. Nú eru vissulega margir möguleikar til þess, til eru kvöldskólar, fjarnám o.s.frv. en því miður er þetta ekki kostur fyrir alla.

Ég mælti í síðustu viku fyrir þingsályktunartillögu um stuðning við einstæða foreldra í námi. Þetta er einmitt hópur sem hefur oft ekki náð að klára stúdentspróf vegna þess að fólk hefur eignast börn og það missir þannig af lestinni. Ég held að mjög mikilvægt sé að við tökum tillit til þessa hóps og þess vegna sé lögð áhersla á að nemendur sem hafa ekki lokið stúdentsprófi geti hafið nám við háskóla. Til þess þurfa háskólarnir að setja sér reglur. Grundvallaratriðið er þegar skera þarf niður að það sé ekki látið fyrst og fremst bitna á þeim nemendum sem hafa ekki stúdentspróf.

Hæstv. menntamálaráðherra nefndi sem dæmi að í Svíþjóð er prósenturegla í þessum málum. Þar fær ákveðið hlutfall nemenda sem ekki hafa lokið stúdentsprófi alltaf inngöngu í háskóla. Ég held að slíkt kæmi mjög vel til greina. Nú er það svo að það starfa um átta háskólar á Íslandi, held ég. Þeir heyra ekki allir undir menntamálaráðherra. Mér þykir það miður. Það væri eðlilegt að allir háskólarnir væru undir menntamálaráðuneytinu. Ég veit ekki hvort ég og hæstv. menntamálaráðherra getum verið sammála um það. Ég veit að hæstv. landbúnaðarráðherra er mér ekki sammála um það. En ég held að þetta sé hlutur sem við þurfum að skoða mjög vel.

Við höfum dæmi um háskólasetur sem er verið að setja á fót á Egilsstöðum og á Ísafirði og ég held að í framtíðinni hljótum við að gera kröfu um að þessi háskólasetur verði fullgildir háskólar. Við höfum dæmi um Háskólann á Akureyri og allar þær úrtöluraddir sem heyrðust þegar sá skóli hóf starfsemi sína fyrir tæpum 20 árum. Þá var talað um að samfélagið á Akureyri væri allt of lítið til að taka við háskóla o.s.frv. Og þessi umræða var í raun og veru eins og endurvarp af annarri umræðu 80 árum fyrr þegar Menntaskólinn á Akureyri var stofnaður. Þá var reyndar bara einn menntaskóli á landinu, Menntaskólinn í Reykjavík, og allir sögðu að það væri alveg útilokað að hafa menntaskóla á Akureyri. En reyndin varð auðvitað önnur og það sama hefur nú þegar sannað sig með Háskólann á Akureyri. Þar hefur verið byggt upp gríðarlega gott starf og áhrif Háskólans á Akureyri á samfélagið er, leyfi ég mér að fullyrða, á við mörg álver. Svo ég tengi þetta við hina frábæru álversumræðu sem tröllríður húsum í þjóðfélaginu um þessar mundir og ber að þakka hæstv. iðnaðarráðherra sérstaklega fyrir það.

Háskólinn á Akureyri er nefnilega stóriðja, hann er stóriðja á sviði menntunar. Ég sé það fyrir mér að háskólasetur á Egilsstöðum geti orðið fullbúinn háskóli og það sama gildir að sjálfsögðu um Ísafjörð. Og ég vona og efast reyndar ekkert um að háskólar á Egilsstöðum og Ísafirði geti orðið jafnmikilvægir fyrir samfélagið á þeim stöðum og Háskólinn á Akureyri er.

Í umræðunni núna hefur verið mikið talað um að ekki fari nægt fjármagn til háskólanna. Við þekkjum það öll að innritunargjöld hafa verið að hækka, nokkurs konar dulbúin skólagjöld. Það er auðvitað staðreynd að háskólarnir eru sveltir alveg þangað til þeir eru farnir að kalla á skólagjöld. Þá er ég að tala um ríkisháskólana, að sjálfsögðu. Það hefur verið farið vel yfir það í ræðum hér í dag. Hv. þingmaður Björgvin G. Sigurðsson kom t.d. inn á þennan aðstöðumun ríkisháskóla og einkareknu háskólanna, að einkareknu háskólarnir fá sambærilegt fjármagn á hvern nemanda eins og ríkisháskólarnir en geta auk þess tekið skólagjöld af nemendum sínum. Nemendurnir fá síðan námslán fyrir skólagjöldunum og við vitum að námslánin eru hagstæð lán og það hefur verið nefnt að líta mætti svo á að jafnvel helmingur þeirra væri í raun og veru styrkur, a.m.k. í sumum tilfellum. Þetta þarf auðvitað að laga. Í svörum hæstv. menntamálaráðherra kom það ekki sérstaklega skýrt fram að hún væri tilbúin til þess. En ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og vona að hæstv. menntamálaráðherra leiti þarna betri úrræða og skipti jafnvel um skoðun eins og hún er að gera í sumum öðrum málum einmitt í dag. Ég held að það megi nefnilega alls ekki gerast að háskólarnir séu sveltir til að taka upp skólagjöld. Mér finnst að skólagjöld í íslensku samfélagi, sem kennir sig auðvitað við jöfnuð, eigi alls ekki við. Eigi alls ekki þar heima.

Það hafa komið fram ýmsar skoðanir um þetta frumvarp, flestar nokkuð jákvæðar enda hefur verið talað um að ekki sé nein róttæk stefnubreyting í því. En ég reikna með að það fari til menntamálanefndar þar sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir situr, og þar verður frumvarpið örugglega tekið til gagnrýnnar endurskoðunar og að gestir verði kallaðir fyrir menntamálanefnd og þetta verði rætt í þaula og þá væntanlega talað um það sem vantar í frumvarpið og það sem má færa til betri vegar.

En skapandi háskólar eru nefnilega jafnmikilvægir og skapandi grunnskólar og allt skólastarf á að vera skapandi og hefur kannski vantað dálítið í umræðuna um háskólana að þeir séu einnig skapandi stofnanir.