Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 14:39:13 (4198)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:39]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, en þetta kemur úr ríkissjóði. Það sem skiptir máli er að kennsluframlagið er það sama og það veitti okkur möguleika á því að fjölga háskólum og auka samkeppni.

Mönnum hefur líka verið tíðrætt hér í þingsal að auka samvinnu á milli háskóla. Ekki er hægt að tala um samvinnu á milli háskóla, ríkisskóla og einkaskóla, ef um enga einkaháskóla eða fjölbreytta háskóla er að ræða. Við stuðluðum að því að nemendum fjölgaði í gegnum samkeppni, háskólanemendum fjölgaði og námsframboðið jókst í gegnum þær leiðir sem við höfum farið í.

Það sem hefur aftur á móti blandast inn í þessa umræðu er að við erum með samning t.d. við Háskóla Íslands um ákveðin fjárframlög, t.d. er borgað tæplega 500 þús. kr. fyrir laganema við lagadeild Háskóla Íslands en lagadeildin fær ekki af því nema um 290 þús. kr. Það grundvallast ekki á ákvörðun ráðuneytisins heldur á því sem Háskóli Íslands (Forseti hringir.) ákvarðar sjálfur og dreifir á milli sinna deilda. (Forseti hringir.) Menn mega ekki rugla þessu saman.