Háskólar

Fimmtudaginn 02. febrúar 2006, kl. 14:43:44 (4202)


132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[14:43]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er sérstakt fagnaðarefni að hæstv. ráðherra skuli lýsa því hér yfir í umræðunum að skólagjöld muni aldrei verða sett á til þess að leysa fjárhagsvanda háskólanna. (Gripið fram í.) Ja, ég treysti því, hv. þingmaður, að hæstv. ráðherra meini þetta eitthvað inn í framtíðina, að þetta sé stefnumarkandi yfirlýsing, og þess vegna er afar ánægjulegt að heyra slíkt af því að því miður hefur ýmislegt annað heyrst í ummælum einstakra flokksfélaga hæstv. ráðherra.

Það er líka athyglisvert sem hæstv. ráðherra segir að ekki sé hægt að bera saman fjárframlög til ríkisháskólanna og hinna. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra alveg sérstaklega varðandi þær reglur sem gilda um úthlutun rannsóknarframlaga: Hvaða munur er á reglunum til ríkisháskólanna og hinna sem gerir það ókleift að bera það saman?

Og til að rifja upp eina spurningu frá því fyrr í ræðu minni, herra forseti, varðandi þau frumvörp sem eiga eftir að koma fram um (Forseti hringir.) ríkisháskólana: Hvenær má vænta þeirra?